1. fundur 2011 – haldinn 21. janúar
Stjórnarfundur BSSL haldinn 21. janúar 2001
Fundinn sem haldinn var á Selfossi sátu, Guðbjörg Jónsdóttir, Jón Jónsson Ragnar Lárusson, Egill Sigurðsson, Gunnar Eiríksson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.
1. Sauðfjársæðingastöðin.
Sveinn greindi frá haustvertíðinni sem í heild gékk mjög vel. Nærri 13.400 ær sæddar með fersku sæði og um 500 ær sæddar með frystu sæði. Þá kynnti Sveinn bréf til héraðsdýralæknisins sem og framkvæmdaáætlun ársins.
2. Kynbótastöðin.
Sveinn fór yfir starfsmannahald en Bragi Ágústsson er frá vinnu vegna veikinda og verður fram á vor. Sæðingagjöld eru nú í fyrsta sinn innheimt beint af KS og ljóst að skuldalisti mun myndast. Ákveðið var að kynna klaufskurðinn betur bæði á heimasíðu og í fréttabréfi
3. Bændabókhaldið.
Farið var yfir starfsemi Bændabókhaldsins á liðnu ári.
4. Búnaðarsambandið.
Reksturinn var í jafnvægi á síðasta ári. Sveinn fór yfir starfsmannahald. Þórey fer í barneignaleyfi í ár. Fanney Ólöf er í veikindaleyfi og verður næstu mánuði. Áhugi er á að auka fóðurleiðbeiningar næsta haust.
- Runólfur mætti á fundinn og kynnti áætlanir um framtíð Sunnuverkefnisins í ljósi þess að fjármagn samkvæmt búnaðarlagasamningi er ekki til staðar lengur. Skuldamál bænda voru einnig rædd.
- Halla Kjartansdóttir sem hóf störf við túnkortagerð 1. des sl. mætti á fund og gerði grein fyrir störfum sínum við það. Hún er með 13 bæi í vinnslu
- Guðmundur Jóhannesson fór yfir fyrirhugaða kúasýningu í lok ágúst í samvinnu við FKS. Þá ræddi hann um væntanlegt ársuppgjör og gæðastýringu í nautgriparækt.
- Kynbótasýningar sumarsins. Sveinn kynnti tillögur fagráðs um fyrirhugaðar kynbótasýningar sumarsins. Þá var lagt fram bréf frá Hrossaræktardeild Ölfushrepps um framkvæmd kynbótasýninga og atriði sem betur megi fara.
- Sveinn greindi frá kaupum á ljósritunarvél sem um leið virkar sem prentari sem m.a. prentar út A3 í lit og nýtist við túnkortagerðina. Vélin virkar líka sem skanni. Rekstrarkostnaður er mun minni borið saman við venjulegan prentara, afköstin meiri og svo er möguleiki að fullvinna fréttabréfið hér.
5. Vaxtarspotar á Suðurlandi.
Sveinn greindi frá kynningarfundum um Vaxtarsprotaverkefnið, en Impra og Framleiðnisjóður standa að þeim. Búnaðarsambandið og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands eru aðilar að því. Námskeið verða haldin á útmánuðum og er vonandi næg þátttaka í tvö námskeið.
6. Búnaðarþing 2011.
Framundan er Búnaðarþing en Guðbjörg greindi frá fundi búnaðarþingsfulltrúa í vikunni og þeim tillögum sem þar urðu til.
7. Endurskoðun búnaðargjalds.
Sveinn greindi frá bréfi vegna upplýsinga um endurskoðun búnaðargjalds.
8. Mál vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Þá var tekin umræða um stöðu mála gagnvart eldgosinu. Sveinn greindi frá því að um 3.000 tímar hefðu farið í vinnu vegna eldgossins af hálfu starfsmanna Búnaðarsambandsins. Mikil vinna fer enn í umsóknir og úttektir vegna Bjargráðasjóðs. Afleysingaþjónustan verður starfrækt til aprílloka og mun Tómas Sturlaugsson sinna henni. Lungnapest hefur verið að stinga sér niður í Mýrdal og undir Eyjafjöllum og mun Matvælastofnun halda fræðslu- og upplýsingafund um málið næsta föstudag.
Að loknum umræðum um stöðuna vegna eldgossins var eftirfarandi tillaga samþykkt.
„Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands skorar á stjórn Bjargráðasjóðs að hún beiti sér fyrir endurskoðun á „reglum um aðstoð Bjargráðsjóðs vegna tjóns af völdum öskufalls og flóða vegna eldgoss“ sem staðfestar voru af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 7.5.2010.
Fyrst og fremst er óskað eftir að stjórn sjóðsins beiti sér fyrir endurskoðun á tímafresti skv. 4.gr. núgildandi reglna. En þar segir í 4.málgrein; „Umsókn þarf að berast innan eins árs frá því tjón átti sér stað“
Ljóst er að ekki verður búið að tilgreina öll þau tjóna- og bótamál sem upp kunna að koma fyrir þennan tíma vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Kemur þar meðal annars til, að ekki er enn fyllilega ljóst, umfang tjóns á einstökum jörðum og afleiðingar sem kunna að koma fram í búfé síðar.
Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands leggur mikla áherslu á að þetta ákvæði í reglum sjóðsins verði endurskoðað og framlengdur frestur til að skila inn umsóknum vegna þeirra afleiðinga sem náttúruhamfarirnar hafa haft og kunna að hafa á jarðargróður og búfé.“
9. Jarðrækt í V-Skaft.
Jón Jónsson greindi frá því að kál sprytti illa hjá sér og í grendinni. Hann óskaði eftir því að jarðræktarráðunautur kæmi og reyndi að finna ástæður fyrir því. Hugsanlega er kálæxlaveiki að valda þessum uppskerubresti. Sveinn fól Kristjáni Bjarndal að kynna sér málið og hafa samband við bændur þar austur frá.
10. Aðalfundur BSSL 2011.
Sveinn sagði að nú væri komið að því að halda aðalfund í Árnessýslu og nefndi Hótel Selfoss sem fundarstað. Fundarmenn lýstu sig samþykka því en óskuðu eftir því að fundurinn yrði snemma miðað við venju. Föstudagurinn 8. apríl var nefndur í því sambandi en þar sem aðalfundur LS er þann dag var ákveðið að stefna á 15. apríl fyrir aðalfund Búnaðarsambandsins.
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.
Sveinn Sigurmundsson ritaði fundargerð