Nýir heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands

Í kvöldverðarboði í kjölfar formannafundar BSSL sl. föstudagskvöld voru kjörnir tveir nýir heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands. Þetta voru þeir Ágúst Sigurðsson í Birtingaholti og Páll Lýðsson í Litlu-Sandvík. Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri fór yfir æviágrip þeirra og Þorfinnur Þórarinsson, formaður Búnaðarsambandsins afhenti þeim heiðursskjal og blómvönd.

Ágúst Sigurðsson, Birtingaholti
Á heiðursskjali hans stendur: Búnaðarsamband Suðurlands hefur kjörið þig heiðursfélaga vegna farsælla starfa sem formaður Búnaðarsambandsins 1987-1993.

Ágúst Sigurðsson er fæddur 22. ágúst 1936 í Birtingaholti Hrunamannahreppi. Foreldrar hans voru Sigurður Ágústsson og Sigríður Sigurfinnsdóttir. Kona Ágústs er Sigríður Eiríksdóttir frá Vorsabæ á Skeiðum. Ágúst lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1954. Hann sótti búnaðarnámskeið í Stóru- Sandvík sem Búnaðarsambandið stóð fyrir árið 1955. Hann stofnaði nýbýlið Birtingaholt lV 1958 og bjó þar blönduðum búskap til 1996. Frá 1987 bjó hann félagsbúi með Sigurði syni sínum og konu hans Fjólu Kjartansdóttur. Hann hefur stundað kartöflurækt ásamt ýmisskonar smíðavinnu nú seinni árin. Hann keypti Birtingaholt ll árið 1985 og lagði það við Birtingaholt lV.

Helstu störf Ágústs að félagsmálum:
a) Stjórn Búnaðarfélags Hrunamanna frá 1972 til 1984
b) Stjórn veiðifélags Stóru-Laxár frá 1976 til 1981. Síðar stjórnarformaður frá 1985 til 1988
c) Í hreppsnefnd Hrunamannahrepps frá 1982 til 1990
d) Stjórnarformaður Búnaðarsambands Suðurlands frá 1987 til 1993, félagskjörinn endurskoðandi Bssl. í all mörg ár
e) Formaður sóknarnefndar Hrepphólakirkju frá 1984 til 2003


Páll Lýðsson, Litlu-Sandvík
Á heiðursskjali hans stendur: Búnaðarsamband Suðurlands hefur kjörið þig heiðursfélaga vegna heilladrjúgra starfa að félagsmálum og ritstörfum fyrir sunnlenska bændur.

Páll Lýðsson er fæddur í Litlu- Sandvík 7. okt. 1936, foreldrar Lýður Guðmundsson bóndi þar og kona hans Aldís Pálsdóttir. Stúdent frá Laugarvatni 1956 og B.A.prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1959. Bóndi á föðurleyfð sinni Litlu- Sandvík 1959 og síðan, en þar hefir föðurætt hans búið frá 1793, kona hans er Elínborg Guðmundsdóttir frá Þorfinnsstöðum í Vestur- Hópi.

Páll var áratugum saman: hreppsstjóri, oddviti, sýslunefndarmaður og héraðsnefndarmaður fyrir sveit sína Sandvíkurhrepp allt þar til að hreppurinn var lagður af og sameinaður Árborg. Páll var formaður SS um árabil, í stjórn MBF, er formaður Afréttarmálafélags Flóa og Skeiða, í stjórn Veiðifélags Árnesinga, formaður Flóaáveitunnar og í stjórn Rjómabúsins Baugsstöðum


Hann er afkastamikill sagnfræðingur. Hefur mesta þekkingu allra núlifandi manna á Sögu Árnesinga á síðari öldum og hefur safnað ógrynni heimilda um það efni. Eftir hann liggur fjöldi sagnfræðirita, fer hér á eftir stutt ágrip af ritskrá hans einkum því er snýr að landbúnaði:



  • Saga Mjólkurbús Flóamanna ásamt Jóni Guðmundssyni og Sigurgrími Jónssyni
  • Búnaðarsamband Suðurlands 50 ára og Félagskerfi sunnlenskra bænda.
  • Bjó til prentunar ritsafnið Sunnlenskar byggðir, skrifaði þar kaflann um Sandvíkurhrepp.
  • Nautgriparæktarfélag Hrunamanna 100 ára.
  • Sigurður Greipsson og Haukadalsskólinn
  • Ræktunarsamband Flóa og Skeiða 50 ára.
  • Bændatal í Árnesssýslu 1703 til nútíma í fjölriti.
  • Elenor á Seli ævisaga.
  • Rjómabúið á Baugsstöðum 100 ára með Helga Ívarssyni
  • Búnaðarsamband Suðurlands 100 ára ( í smíðum)

Eldri heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands í stafrófsröð:



  • Einar Þorsteinsson, Sólheimahjáleigu, fv. ráðunautur
  • Hermann Sigurjónsson, Raftholti, fv. stjórnarmaður
  • Hjalti Gestsson, Selfossi, fv. ráðunautur og frkv.stjóri BSSL
  • Ingibjörg Jóhannsdóttir, Blesastöðum (látin)
  • Júlíus Jónsson, Norðurhjáleigu, fv. stjórnarmaður
  • Stefán Jasonarson, Vorsabæ, (látinn) fv. stjórnarformaður
  • Sveinn Skúlason, Bræðratungu, (látinn) fv. stjórnarmaður


back to top