8. fundur 2007
Þann 7. desember 2007 var haldinn stjórnarfundur BSSL á skrifstofu sambandsins.
Þessir voru mættir: Þorfinnur Þórarinsson, Egill Sigurðsson, Guðni Einarsson, Ragnar Lárusson og Guðmundur Stefánsson. Einnig sat fundinn Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.
Fyrir var tekið:
- Brunavarnir í sveitum. Fundinn sat undir þessum lið Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri BÁ. Þorfinnur fór yfir þær breytingar sem hafa orðið í sveitum með tilliti til brunahættu, einkum hvað varðar sjálfvirkan rafbúnað í fjósum. Kristján fór yfir byggingarefni sem eru allmikið notuð en hafa ekki viðkenningu frá eldvarnareftirliti og standast ekki kröfur byggingareglugerðar og hafa komið við sögu í brunum undanfarið. Þá ræddi hann um rafbúnaðinn og einkum rafknúnar hurðir sem ekki eru opnanlegar eftir að rafmagn fer af. Fram kom að ábyrgð á að byggingaefni standist reglugerð liggur hjá byggingameistara en ekki hjá eftirlitsaðilum. Rætt var um breyttar ástæður fyrir hólfun húsa í eldvarnarhólf, útgönguleiðir, reykskynjara með boðtæki, aðgang að vatni til slökkvistarfa. Fram kom tillaga um að brunavarnarkerfi í gripahúsum verði tekið inn sem styrkhæf framkvæmd skv. búnaðarlagasamningnum. Einnig að óska eftir samstarfi við Brunavarnir Árnessýslu um úttekt á nokkrum fjósum með tilliti til brunavarna. Ákveðið að setja upp reykskynjara með boðtæki í fjósið á Stóra-Ármóti.
- Heygæði og leiðbeiningar. Fundinn sátu undir þessum lið Runólfur Sigursveinsson og Jóhannes Símonarson. Runólfur skýrði frá niðurstöðum úr heysýnum og stöðunni á kjarnfóðurmarkaðnum.Þá sagði hann frá nýju fóðurmatskerfi sem er í undirbúningi og farið er að nota á Norðurlöndum. Þá var rætt um Sunnu- og Sómaverkefnin. Jóhannes taldi rétt að leggja áherslu á greiningu og heimsóknir til einstakra bænda og samanburðarskýrslu milli búa en ekki sé farið út í aðgerðaáætlanir nema þörf sé á.
- Klaufskurðarbás. Lagt fram yfirlit um kostnað við kaupin á klaufskurðarbásnum. Útlagður kostnaður Bssl. er nál. 3,5 millj. fyrir utan bíl sem til þarf. Klaufskurður er hafinn og er almenn ánægja með hann.
- Sauðfjársæðingar. Sveinn fór yfir ganginn í þeim upphafi sauðfjársæðingatímans.
- Lóð Kynbótastöðvarinnar. Lagður fram leigusamningur til 20 ára um lóð kynbótastöðvarinnar í Þorleifskoti, milli Kynbótastöðvarinnar og landeigenda Laugardæla. Stjórnin felur framkvæmdastjóra að fullnusta samninginn fyrir hönd Kynbótastöðvarinnar
- Landbúnaðarsýningin 2008. Sveinn skýrði frá stöðu mála varðandi undirbúning, mönnun nefnda, merki sýningarinnar o.fl. Ræddur ýmis undirbúningur.
- Formannafundurinn o.fl. 2008. Ákveðið að halda formannafundinn með nokkru hátíðasniði í tilefni af 100 ára afmælinu. Stefnt að því að hafa síðdegisfund og enda á kvöldverði. Stefnt að því að halda fundinn á hótelinu á Selfossi 18.janúar. Rætt um tilnefningu á nýjum heiðursfélögum. Kynnt prufuprentun af dagatali fyrir 2008.
- Bændabókhaldið. Sveinn skýrði stöðuna í þeirri starfsemi.
- Önnur mál. Framkvæmdastjóri þakkaði stjórninni sýndan heiður á fimmtugsafmæli hans.
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.
Guðmundur Stefánsson, fundarritari