Félagsráðsfundur FKS 12. feb. 2008

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi 12. febrúar 2008
haldinn í veitingaskálanum Björk á Hvolsvelli


1. Fundarsetning
Sigurður Loftsson formaður setti fund kl. 21.10 og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega nýja félagsráðsmenn og þakkaði fráfarandi félagsráðsmönnum störf fyrir félagið á undanförnum árum.
Nefndi að þrír fulltrúar hefðu boðað forföll á fundinn, þar á meðal Katrín Birna ritari félagsins


2. Kosningar
Formaður nefndi að bæði Katrín Birna Viðarsdóttir ritari félagsins og Jóhann Nikulásson gjaldkeri óskuðu ekki eftir endurkjöri til starfa í stjórn. Formaður þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum ánægjulegt samstarf í stjórn. Jóhann þakkaði sömuleiðis samstarfið.
Fram kom uppástunga um Guðbjörgu Jónsdóttur  Læk sem ritara og Þóri Jónsson Selalæk sem gjaldkera. Gengið var fyrst til kosningu ritara, kosinn var Guðbjörg  Jónsdóttir með 16 atkvæðum, Grétar Einarsson fékk eitt atkvæði. Gjaldkeri var kosinn Þórir Jónsson með  15 atkvæðum, Björn Harðarson fékk eitt atkvæði og einn seðill auður.
Loks voru kosnir 5 fulltrúar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands sem haldinn verður 18.apríl nk.
Eftirtaldir aðalmenn voru kosnir:
Guðbjörg Jónsdóttir
Siguður Loftsson
Gunnar Kr. Eiríksson
Arnheiður D. Einarsdóttir
Þórir Jónsson

Varamenn:
Valdimar Guðjónsson
Grétar Einarsson
Ólafur Helgason
Bóel Anna Þórisdóttir
Katrín Birna Viðarsdóttir


3. Væntanlegir aðalfundir LK og BSSL
Formaður
gat þess að aðalfundur LK verður 4.-5.apríl nk. á Selfossi . Þann 5.apríl verður jafnframt  haldin árshátíð á Hótel Selfossi. Félag kúabænda á Suðurlandi þarf að skipa þrjá menn í árshátíðarnefnd. Ganga þarf frá skipan nefndarinnar fljótlega.
Þá minntist hann á aðalfundarsamþykkt síðasta aðalfundar Félags kúabænda á Suðurlandi um breytingu á samþykktum LK varðandi kjör aðalfundarfulltrúa. Ákveðið að senda tillöguna til LK fyrir boðaðan lokafrest 26.mars.
Formaður rakti þær hækkanir sem hafa orðið á aðföngum síðustu misseri og nú síðast gríðarlegar hækkanir á áburðarverði. Minnti á yfirlýsingu frá LK um viðbrögð við þessum hækkunum sem birt var í dag á heimasíðu LK, www.naut.is  Þar er  lagt upp með að mjólkurverð verði hækkað til bænda frá 1. apríl nk. og þar tekið mið af stöðu mála frá 1.mars í verðlagsgrundvelli.
Þá gat formaður um þá stefnumótunarvinnu sem  er í gangi á vegum LK og gat jafnframt um málþingið sem haldið var um síðustu mánaðarmót sem hafði yfirskriftina, mjólkurframleiðsla á Íslandi árið 2020. Málþingið þótti takast vel og ýmis sjónarmið reifuð m.a. um afnám kvótakerfis.
Grétar í Þórisholti velti fyrir sér hækkunum á áburði. Voru menn að bíða með að birta verð til að koma í veg fyrir að nýir aðilar kæmu inn. Sömuleiðis er verðmunur mjög lítill og minni en áður.
Ómar í Lambhaga gagnrýndi innflutningsfyrirtækin fyrir að bregðast seint við að ná samningum við birgja.
Jóhann í St-Hildsey gagnrýndi framkomu fyrirtækjanna gagnvart bændum, mönnum er stillt upp við vegg og ætlast að menn taki ákvörðun um kaup á nokkrum dögum.
Samúel í Bryðjuholti gat um tilboð sem hann fékk í sín áburðarkaup , munurinn var um 2.000 krónum milli söluaðila, fleiri fundarmenn höfðu svipaða sögu að segja. Lítill sem enginn munur virðist vera á verði fyrirtækjanna
Guðbjörg á Læk nefndi að það væri í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vexti og/eða staðgreiðslu  af vöru sem ekki er einu sinni búið að afhenda.
Þórir á Selalæk spurði um útfærslu á jarðræktarstuðningi samkvæmt mjólkursamningi.
Formaður sagði lítið að frétta af þessum málum og efaðist um að þetta næðist fyrir næsta verðlagsár. Óskað var eftir því við þáverandi landbúnaðarráðuneyti  að það kæmi með tillögur um útfærslur á þessu, slíkt hefur ekki orðið enn.
Jóhann í St-Hildsey gat þess að frestun á alþjóðasamningum um landbúnaðarmál hefði einhver áhrif á þetta.
Ómar í Lambhaga spurði um gripagreiðslur fyrir holdakýr.
Formaður sagði að ekki væri enn farið farið að greiða þetta, slíkt er óviðunandi, fjármunir eru til reiðu en ekkert gerist.
Þórir á Selalæk lagði áherslu á að núverandi kerfi væri óviðunandi í merkingu gripa, þetta yrði aldrei í lagi fyrr en tekin yrðu upp rafræn merki. Ákveðið að ræða þessi mál frekar á næsta fundi Félagsráðs sem yrði haldinn í mars og huga þá að hugsanlegri ályktun félagsins um þessi mál inn á aðalfund LK
Formaður gat um aðalfund Búnaðarsambandsins sem verður 18.apríl. Búnaðarambandið er 100 ára á þessu ári og ýmsilegt verður gert í því sambandi . Formaður gat um samþykkt síðasta aðalfundar BSSL um endurskoðun á skipulagi og starfsemi Búnaðarsambandsins. Mál hafa þróast þannig að ekki hefur enn tekist að koma starfinu af stað  en fyrsti fundur er áætlaður þann 22. febrúar nk.
Formaður gat um væntanlegar breytingar á stjórn BSSL en formaður þess, Þorfinnur Þórarinsson Spóastöðum, hefur ákveðið að hætta í stjórn á næsta aðalfundi.


4. Önnur mál
Samúel í Bryðjuholti
gagnrýndi hve Nautaskráin væri seint á ferðinni. Jafnframt væri greinilega ekkert að gerast í uppfærslu forritsins Nautaval hjá BÍ.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér einkunnum fyrir mjaltir sem fram kæmu í afkvæmadómi nautanna, of mikið væri þar af lágum tölum.
Björgvin í Vorsabæ ræddi þörf viðveru bænda er sæðingarmenn kæmu í fjós . Greinilega væru þeir með mismunandi  kröfur sem  þeir gerðu um viðveru bænda.


Fleira ekki gert og fundi slitið upp úr miðnætti


Runólfur Sigursveinsson
fundarritari


back to top