Töluverðar breytingar fylgja hinni nýju matvælalöggjöf
Félagsráð Félags kúabænda fundaði 7. desember s.l. og er fundargerð fundarins komin á vefinn. Á fundinum var að venju m.a. farið yfir starfsemi félagsins. Þar kom fram að stjórnarmenn FKS fóru á fund atvinnuveganefndar Alþingis til viðræðna um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað og að félagið tók þátt í opnum degi á Stóra Ármóti þann 11. nóvember s.l.
Á fundinn komu Jón Gíslason forstjóri MAST, Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Þorsteinn Ólafsson sérgreinadýralæknir og Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir til viðræðna um ýmislegt er snýr að nautgripabændum. Þar kom fram að MAST væri að vinna eftir nýrri matvælalöggjöf sem þýddi innleiðingu á fjölda reglugerða sem byggja á grunni nýrrar matvælalöggjafar. Búið er að fella út kröfu um árlega fjósskoðun en hins vegar verður unnið út frá áhættumati í hverju tilviki og eftirlitið mun byggja á því. Aðbúnaðarreglugerðir eru í endurskoðun og sérreglur um einstakar búgreinar verða einfaldaðar.
Einnig var rætt um hinn nýja gagnagrunn “Heilsu” og skráningu dýrasjúkdóma inn í hann. Til að byrja með verður hann nýttur fyrir kýr og hross. Halldór nefndi að tilurð hans kæmi til, af ýmsum ástæðum, m.a. varðandi kröfur frá ræktunarstarfinu í nautgriparækt. Eins á þessi grunnur að fylgjast með lyfjanotkun almennt, t.d. í mjólkurframleiðslunni. Kröfur eru gerðar á MAST erlendis frá um að ákveðnir hlutir séu í lagi varðandi t.d. lyfjanotkun í frumframleiðslu og eins vegna mögulegrar sölu á erlendan markað. Lyfjaskráningin er lögboðin samkvæmt Evrópulöggjöfinni.
Sjá nánar:
Fundargerð Félagsráðsfundar FKS 7. des. 2011