Hrossaræktarsamtökin styrkja rannsóknir á sumarexemi
Á aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, sem haldinn var fyrr í mánuðinum á Selfossi, kynnti Sigurbjörg Þorsteinsdóttir Dr.Med.Sc. ónæmisfræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum nýjustu niðurstöður í rannsóknum á sumarexemi í íslenskum hrossum.
Fjallaði hún í erindi sínu um rannsóknir á svokölluðu smámýsofnæmi sem leiðir til sumarexems, rannsóknum á bólusetningum við meininu og afnæmingu hesta með sumarexem. Um 50% þeirra hrossa sem flutt eru til þeirra svæða sem smámý þrýfst sýkist af smámýsofnæmi. Fram kom í máli Sigurbjargar að farið er að sjá til lands í rannsóknunum sem mun koma til með að leiða af sér bóluefni gegn ofnæminu.
Í framhaldi af erindinu ákváðu Hrossaræktarsamtök Suðurlands að styrkja verkefnið um 6 milljónir króna, sem ætlað er að tryggja fjármögnun verkefnisins út árið. Telja félagsmenn samtakanna lækningu við sumarexemi eitt helsta baráttumál útflytjenda íslenskra hesta og myndi lækning við því gjörbreyta forsendum á útflutningi til þeirra svæða sem smámý þrýfst.
Hrossaræktarsamtök Suðurlands skora enn fremur á önnur hrossaræktarsamtök og hagsmunasamtök greinarinnar að fylkja sér að baki þessarar merku rannsóknar.