Búnaðarþing verður sett á sunnudaginn
Búnaðarþing 2012 verður sett sunnudaginn 26. febrúar n.k. Að venju verður fjöldi mála tekinn fyrir á þinginu í ár en ekki er ólíklegt að eitt af fyrirferðarmestu málunum verði endurskipulagning ráðgjafarþjónustu í landbúnaði. Að því máli hefur verið unnið frá síðasta búnaðarþingi í samræmi við ályktun síðasta búnaðarþings. Skipuð var milliþinganefnd sem lagt hefur það til að ráðgjafarstarfsemi búnaðarsambandanna og Bændasamtakanna verði sameinuð. Leitað var til dönsku ráðgjafarþjónustunnar um vinnu að tillögu af þessu tagi og kom Ole Kristensen, ráðgjafi, hingað til lands í þrígang á síðasta ári og kortlagði ráðgjafarþjónustuna, fundaði með ráðunautum og félagskjörnum fulltrúum bænda og gerði tillögur að breytingum.
Hins vegar hefur málið fengið fremur litla umfjöllun að öðru leyti heima í héraði og t.d. ekki verið tekið fyrir með skipulögðum hætti á aðlafundum búnaðarsambandanna. Fróðlegt verður að sjá með hvaða hætti búnaðarþing vill að þessi starfsemi verði mótuð til framtíðar en umræðan tengist einnig fjármögnun starfseminnar, m.a. búnaðargjaldinu.
Önnur mál sem reikna má með að fái töluverða umfjöllun á búnaðarþingi eru:
Stjórnsýsluúttekt á MAST
Ljóst er að frammistaða eftirlitsstofnana hins opinbera er bændum hugleikin en fjölmörg erindi bárust sem lúta að þeim. Meðal annars liggur fyrir þinginu mál þar sem farið er fram á að stjórnvöld láti fara fram stjórnsýsluúttekt á fyrirkomulagi og stjórnsýslu opinberra stofnana sem annast eftirlit með landbúnaði. Þá er jafnframt lagt til í öðru erindi að Matvælastofnun verði tekin til ítarlegrar stjórnsýsluathugunar. Einnig er lagt til að skorað verði á stjórnvöld að breyta lögum um búfjárhald til að hægt sé að bregðast við slæmri meðferð búfjár með markvissari hætti.
Jöfnun raforkukostnaðar
Þá bárust þinginu fjölmörg mál varðandi orkuverð og dreifingu raforku, líkt og á síðasta búnaðarþingi. Þar er mismunandi raforkuverð til notenda eftir landsvæðum átalið harðlega og lækkun fjárveitinga til jöfnunar raforkukostnaðar sömuleiðis. Meðal annars kemur fram í máli sem Samband garðyrkjubænda sendir inn að kanna eigi kosti þess að landið allt verði gert að einu gjaldsvæði þegar kemur að dreifingarkostnaði rafmagns. Þá er og vakin athygli á að hraða þurfi endurnýjun dreifikerfa raforku í dreifbýli, m.a. með það að markmiði að tryggja aðgengi að þriggja fasa rafmagni.
Áhyggjur af dýralæknaþjónustu
Með breytingum á lögum um dýralæknaþjónustu sem tóku gildi í nóvember á síðasta ári var embættum héraðsdýralækna breytt á þann veg að þeir starfa nú einungis sem eftirlitsdýralæknar. Hefur breytingin vakið kurr meðal búfjáreigenda sem telja að á sumum svæðum hafi þjónusta skerst og vaktsvæði dýralækna séu of stór til að hægt sé að sinna bráðaþjónustu á þeim. Þessar áhyggjur endurspeglast í erindum til búnaðarþings en alls bárust sex mál sem snúa að dýralæknaþjónustu. Gerð er tillaga um að farið verði á heildstæðan hátt yfir stöðu heilbrigðisþjónustu við dýr á landinu öllu og þeir agnúar sem upp hafi komið eftir breytinguna sniðnir af. Sú vinna er reyndar nú þegar hafin af hálfu Bændasamtakanna. Þá eru í erindunum ítrekað gerðar tillögur um að bændum verði heimilt að eiga og nota algengustu dýralyf til að bregðast við í bráða- og neyðartilvikum.
Orkuframleiðsla
Lagt er til að ýtt verði úr vör verkefni til að auka þekkingu og hæfni í orkuframleiðslu úr lífrænum hráefnum. Til þess þyrfti sameiginlegt átak Bændasamtakanna og opinberra stofnana, auk stuðnings stjórnvalda. Eru Orkustofnun og Landbúnaðarháskólinn sérstaklega tilgreind sem samstarfsaðilar. Í tillögunum er bæði fjallað um sjálfbærni í orkumálum til húshitunar og eins eldsneytisframleiðslu.
Jafningjafræðsla og fæðuöryggi
Eins og áður segir liggja fjöldamörg mál fyrir þinginu til umræðu og afgreiðslu. Meðal mála sem ekki hefur verið tæpt á hér er tillaga um að byggð verði upp veflæg jafningjafræðsla í landbúnaði, þar sem bændur geti miðlað reynslu sinni og þekkingu varðandi búskap og búrekstur til annarra bænda. Þá gera Landssamtök sauðfjárbænda að tillögu sinni að skorað verði á stjórnvöld að móta stefnu um fæðuöryggi Íslands. Aldrei hafi slík vinna verið unnin á heildstæðan hátt og brýnt sé að hún fari fram.