Reykjahlíð og Skarðaborg hlutu landbúnaðarverðlaunin 2012
Það er fastur liður að afhenda framúrskarandi bæjum landbúnaðarverðlaunin við setningu Búnaðarþings. Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, afhenti þau að þessu sinni bændunum í Skarðaborg í Reykjahverfi og bændunum í Reykjahlíð á Skeiðum. Umsagnir um bæina fylgja hér á eftir.
Skarðaborg í Reykjahverfi.
Skarðaborg er nýbýli byggt út úr landi Skarða í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1949 en úthagi er óskiptur með jörðunum. Skörð er landsnámsjörð og þar bjó m.a. Ófeigur Járngerðarson sem sagður er heygður í Ófeigshól. Bæirnir Skörð og Skarðaborg standa skammt hvor frá öðrum ofan þjóðvegarins sunnan undir Skarðahálsi og horfir land þar móti suðvestri.
Frá árinu 1949 voru eigendur og ábúendur á Skarðaborg Þórarinn R. Jónsson frá Valþjófsstað í Fljótsdal og Sigurveig Kristjánsdóttir frá Klambraseli í Aðaldal og eignuðust þau 5 börn. Sigurður Ágúst Þórarinsson, yngsti sonur þeirra hjóna tók síðan við búi foreldra sinna ásamt konu sinni, Helgu Helgadóttur frá Húsavík. Sigurður og Helga eiga 4 syni, þá Jón Ágúst, sem lokið hefur B.Sc prófi í Hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Sigþór sem hefur lagt stund á nám í kjötiðn og vinnur sem kjötiðnaðarmaður í Norðlenska á Húsavík, Bjarka sem er nemi í trésmíði við Verkmenntaskólann á Akureyri og Helgi Maríus klárar 7 bekk í Hafralækjarskóla í vor. Allir hafa þeir svo verið viðriðnir við búskapinn með einum eða öðrum hætti.
Frá árinu 1975 hefur eingöngu verið starfræktur sauðfjárbúskapur á Skarðaborg en þar áður var einnig kúabúskapur á búinu. Jafnt og þétt hefur sauðfjárstofninum síðan fjölgað með árunum og í dag losar hann um 800 vetrarfóðraðar kindur. Mikil áhersla hefur verið lögð á að kynbæta stofninn frá upphafi en síðustu árin hefur markviss árangur náðst í ræktun.
Þann árangur má þakka góðri forskrift sem reynt hefur verið að fylgja eftir í hvívetna. Hún er sú að rækta alltaf mest undan þeim einstaklingum sem standa sig best hverju sinni þótt ungir séu, halda stofninum fjölbreyttum hvað ætterni varðar og fá álit annarra aðila við val á líffé.
Ásamt því að vera í Sauðfjárrækt hafa fyrri og núverandi ábúendur á Skarðaborg tekið virkan þátt í því að græða upp land í um 30 ár. Allt frá árinu 1982 hafa ábúendur, í samstarfi við Landgræðslu Ríkisins og átakið „bændur græða landið“, grætt upp mela og rofabörð á afrétt sinni á Reykjaheiði. Til þess hafa þau notað fræ, áburð og hey sem tilfellur frá búskapnum með góðum árangri.
Vorið 2010 létu síðan hjónin Sigurður og Helga draum sinn rætast – að koma sér upp sinni eigin heimavinnslu og geta þar með útbúið og selt sínar eigin afurðir beint af búinu. Í lok sauðburðar var hafist handa við að gera upp gamla fjósið sem hafði rúmum 30 árum áður hýst kýrnar á bænum. Eins og ætla mátti var mikið að gera þetta sumarið og var gripið í hamarinn og sögina milli þess sem rigndi eða meðan beðið var eftir því að heyið þornaði í flekknum. Eftir fyrstu göngur var heimavinnslan síðan tekin í notkun.
Fyrstu tvö árin hefur mest verið búnar til vörur úr ær og lambakjöti. Þar má helst nefna hangikjöt, lundir, fille, hakk og bjúgu. Markmiðið er svo að auka við farmleiðsluna með fleiri vöruflokkum í náinni framtíð. Í dag er Skarðaborg í samtökunum Beint frá Býli og hefur verið í samstarfi við Þingeyska matarbúrið.
Reykjahlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Árnessýslu.
Þar búa hjónin Sveinn Ingvarsson og Katrín Helga Andrésdóttir. Foreldrar hennar eru Andrés Jóhannesson frá Sturlu-Reykjum og Sigríður Ágústsdóttir frá Ísafirði. Foreldrar Sveins eru Sveinfríður Sveinsdóttir frá Ytri-Mælifellsá í Skagafirði og Ingvar Þórðarson frá Reykjum.
Reykjahlíðarjörð var byggð sem nýbýli úr landi Reykja árið 1948 af foreldrum Sveins og kom hann inn í félagsbú með foreldrum sínum árið 1983.
Reykjaættin er talin frá Eiríki Vigfússyni. Á Reykjum hefur sami ættleggurinn haft búsetu síðan um 1700. Þaulsætni ættarinnar á staðnum má teljast merkileg því ekki hefur þar alla tíð verið búsældarlegt. Jörðinni ógnaði verulega uppblástur fyrr á tímum og þar hófst starfsemi Sandgræðslu ríkisins árið 1908. Sigur hefur unnist en nýting landsins krefst ítrustu varfærni. Hluti þessa svæðis fylgir nú landi Reykjahlíðar, ekki frjósamt land en að mörgu leyti þægilegt til ræktunar og gjöfult í heppilegu árferði.
Í Reykjahlíð er í dag rekinn kúabúskapur með mjaltarþjóni og heilfóðurkerfi mjólkurkúnna. Árskýrnar eru um 60 og heildarfjöldi nautgripa losar 130. Framleiðsluréttur er rúmlega 400 þúsund lítrar, meðalársnyt kúnna er tæplega átta þúsund lítrar og búið hefur undanfarin ár verið meðal nythæstu búa landsins.
Fóðuröflun byggir á hefðbundinni túnrækt, grænfóðurrækt til beitar og sláttar og ræktun byggs. Byggræktin hefur aukist umtalsvert og súrsað kornið nýtist mjög vel í heilfóðrið ásamt fiskimjöli, steinefnum og góðu heyi. Með heilfóðurgerðinni má auðveldlega spara aðkeypt kjarnfóður. Markmiðið er að sem mest af fóðrinu sé heimafengið og innlent.
Í Reykjahlíð er stunduð sauðfjárrækt í mjög smáum stíl, en fjölskyldunni til ánægju. Nýjustu þreifingar í búskapnum eru heimavinnsla mjólkurafurða frá búinu og bein sala þeirra til neytenda. Þetta er hins vegar á undirbúnings- og tilraunastigi og óvíst um framhald.
Í Reykjahlíð hefur skjólbeltarækt verið stunduð í töluverðum mæli. Skjólbeltin setja skemmtilegan svip á staðinn auk þess að gefa búpeningi gott skjól í beitarhólfum. Mikill trjágróður á öllum bæjum Reykjatorfunnar gerir blómagarðana að yndisreitum, í Reykjahlíðargarðinum vaxa nú bæði eik og linditré auk ávaxtatrjáa. Reykjahlíðarbændur taka nú þátt í tilraunaverkefni Garðyrkjufélagsins og Landbúnaðarháskólans um ræktun ávaxtatrjáa.
Katrín er dýralæknir frá dýralæknaháskólanum í Osló, með framhaldsmenntun í lýðheilsu og stjórnsýslufræðum. Katrín starfaði sem héraðsdýralæknir í Hreppaumdæmi og síðar í Suðurlandsumdæmi þar til 1. nóvember 2011. Katrín hefur í tómstundum sinnt ýmsu handverki og m.a. unnið til verðlauna fyrir hönnun á peysum.
Sveinn er líffræðingur frá H.Í. og M.Sc. í vistfræði frá Durham University á Bretlandi. Sveinn starfaði sem kennari og síðar konrektor við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hann er mikill félagsmálamaður og hefur gengt fjölda trúnaðarstarfa á þeim vettvangi.
Börn þeirra eru Sigríður Sóley, nemi í lögfræði við H.Í. og Ingvar Hersir nemi við Fjölbrautaskóla Suðurlands.