Rafmagnstafla brennur yfir

Rafmagnstafla í aðstöðurými tilraunafjóssins á Stóra-Ármóti brann yfir í fyrradag og einskær heppni að ekki hlytist af bruni. Unnið hafði verið að þrifum í aðstöðunni og líklegasta skýringin sú að vatn hafi náð að leka inn í töfluna eftir köplum sem tengdir eru ofan í töfluna og þannig orsakað skammhlaup. Mun þetta ekki einsdæmi þar sem önnur tafla á öðrum stað í fjósinu brann yfir við samskonar aðstæður fyrir allnokkrum árum. Auk þess hefur frést að skammhlaup hafi orðið í rafmagnstöflu á nágrannabæ fyrir nokkrum árum einmitt af sömu orsökum.

Af þessu má læra að aldrei skyldi tengja rafmagnskapla ofan í töflur, tengla, rofa eða tengidósir í útihúsum heldur alltaf upp í þær, þ.e. að leiðslurnar inn í töfluna komi neðan frá. Rafmagnstöflurnar eru gerðar til að þola vatnsþrýsting en ekki leka meðfram köplum. Gúmmí eða plastþéttingar sem settar eru í götin þar sem kaplarnir koma inn í töfluna munu óhjákvæmilega skorpna eða rýrna eftir því sem árin líða og missa þar með tilgang sinn.

Hafið þetta í huga, bændur og rafvirkjar!

Að auki skal minnt á að söluaðilar eldvarnarbúnaðar hafa til sölu svokallaða töfluslökkvara sem er ódýr trygging ef svona aðstaða kæmi upp. Töfluslökkvarar virka líkt og sjónvarpsslökkvarar sem markaðssettir voru fyrir nokkrum árum, þ.e. dufthylki sem springur ef eldur kemst í kveikiþráð slökkvarans.


back to top