Ísland – fyrirmyndarlandið?

Jarle Reiersen, framleiðslustjóri Reykjagarðs og fyrrverandi dýralæknir alifuglasjúkdóma skrifar áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag sem ber titilinn; „Ísland – fyrirmyndarlandið?“. Í greininni fjallar Jarle um nýja matvælalöggjöf sem liggur fyrir Alþingi og sína sýn á hana. Greinin fer hér á eftir:

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um landbúnaðarmál, einkum frjálsan innflutning kjöts. Af því tilefni er vert að skoða sérstaklega þann einstæða árangur sem náðst hefur undanfarin ár í gæðastýringu og sjúkdómavörnum við framleiðslu á kjúklingakjöti hér á landi. Þar hafa íslenskir kjúklingaframleiðendur og heilbrigðisyfirvöld tekið saman höndum svo að til hreinnar fyrirmyndar er.
Sérstaklega er vert að huga að kamfílóbaktersýkingum sem eru algengasta magakveisa sem leggst á fólk á Vesturlöndum. Kamfílóbakter er sýkill sem getur borist um munn og valdið heiftarlegri niðurgangspest, stundum svo alvarlegri að viðkomandi þurfa að leggjast inn á spítala og geta átt lengi í veikindunum.
 
Rifjum upp ástandið sem ríkti hér á landi sumarið 1999 þegar margir veiktust af kamfílóbakter, magakveisu sem þáverandi landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson lýsti sem hreinustu manndrápspest. Staðfest var með rannsóknum hjá sýkladeild Landspítala – háskólasjúkrahúss að 435 einstaklingar hefðu veiktst af kamfílóbakter, flestir hérlendis. Rannsóknir leiddu síðar í ljós að margir veiktust við að neyta kjúklingakjöts, sérstaklega þegar kamfílóbaktermengaður kjúklingur var matreiddur á sama tíma og verið var að skera niður salat. Af rannsóknunum var dreginn sá lærdómur að brýnt væri að draga úr dreifingu á fersku kamfílóbaktermenguðu kjúklingakjöti til að sporna við matarsýkingum.

Í byrjun árs 2000 settu íslensk heilbrigðisyfirvöld (embætti yfirdýralæknis)  af stað reglubundið eftirlit með kamfílóbakter í kjúklingaeldi til þess að kanna hvernig ástandið væri. Jafnframt var leitað leiða til að sporna við sýkingum. Það sést ekki á kjúklingum hvort þeir eru með eða án kamfílóbakter og því voru sýnatökurnar eina leiðin til að afla upplýsinga. Hver einasti kjúklingahópur var og er enn rannsakaður í þessu tilliti. Ef kamfýóbaktersýking greinist, eru allar afurðir úr hópnum frystar eða hitaðar. Sýkilinn drepst að mestu við frystingu og drepst alfarið ef hitastig fer upp í 56°C.

Markmið kjúklingaframleiðenda hefur verið að gera allt sem í þeirra aldi stendur til að draga úr kamfílómengun í kjúklingaeldi. Þetta hefur verið gert með markvissum aðgerðum á kjúklingabúunum. Jafnframt hefur þess verið samviskusamlega gætt að dreifa ekki afurðum sem vitað er að eru kamfílómengaðar. Á sínum tíma óskuðu kjúklingabændur eftir að komið væri á laggirnar reglubundnu eftirliti með kamfílóbakter í kjúklingaeldi. Til marks um þetta frábæra samstarf milli heilbrigðisyfirvalda og kjúklingaframleiðenda skal nefna að ákvæði um að mengaðir afurðir skuli frysta eða hitameðhöndla var ekki sett í reglugerð fyrr eftir rúmlega tveggja ára reynslutíma. Á meðan unnu allir eftir fyrrgreindri reglu. Árlega verja kjúklingaframleiðendur tugum ef ekki hundruðum milljóna í sýnatökur og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir. Nú er svo komið að það heyrir til algerra undantekninga ef einstaklingur veikist af völdum kamfílóbaktermengaðs kjúklingakjöts á Íslandi. Ástæðan er einfaldlega sú að við erum í allra fremstu röð í heiminum varðandi hreinlæti og sjúkdómavarnir í framleiðslu á þessari eftirsóttu hollustuvöru.

Í dag vofir yfir að innflutningur á hráu kjöti verði leyfður m.a. vegna óska yfirvalda um að efla samkeppni á matvörumarkaðnum. Þetta mun m.a. hafa í för með sér að Íslendingar geta keypt innflutt, hrátt og kamfílómengað kjúklingakjöt sem mun væntanlega leiða til aukinna sýkinga í fólki. Ástæðan er einföld: Innflutt kjúklingakjöt er miklu líklegra til að valda sýkingum í fólki enda er kamfílóbaktersmit í kjúklingaeldi erlendis allt að 10 sinnum algengari en á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun (MAST) er ekki hægt að sækja um sérákvæði til að hefta innflutning á hráu kjúklingakjöti sem hugsanlega getur verið með sjúkdómsvaldandi kamfílósýkla eins og gildir um salmonellu. Ísland hefur áunnið sér stöðu í heiminum með framúrskarandi árangur í vörnum gegn kamfílóbaktermengun í kjúklingum. Engin önnur lönd hafa náð að fækka smittilvikum í fólki með sömu virkni og við. Árið 2001 tóku Norðmenn upp samskonar kerfi og var við lýði á Íslandi til að reyna að stemma stigu við kamfílóbaktersýkingum hjá sér. Mörg önnur lönd vilja gjarnan gera hið sama, en eru m.a. bundin vegna samninga við ESB. Jafnvel ráðamenn í Brussel vilja gjarnan taka upp „íslenska frystikerfið“ eins og íhlutandi aðgerðir okkar eru kallaðar.

Hverju viljum við fórna?
Viljum við kasta okkar einstaka árangri í matvælagæðum fyrir borð undir yfirskini viðskiptafrelsis? Ef innflutningur kjúklingakjöts verður gefinn frjáls og innlend framleiðsla ekki varin með tollum eða öðrum úrræðum verður samkeppnisstaða íslenskra kjúklingaframleiðenda mjög erfið. Sanngjörn réttlætiskrafa er að innlendir framleiðendur fái að sitja við sama borð og erlendir sem ekki þurfa leggja í metnaðarfullar aðgerðir til að koma í veg fyrir alvarlega vörugalla, svo sem kamfílóbaktersýkingar. Viljum við láta frjálsan innflutning yfir okkur ganga og glata fyrirmyndarheitinu? 


back to top