Sauðburðarhelgi um hvítasunnuna í Skagafirði
Um hvítasunnuhelgina verður líf og fjör í Skagafirðinum þegar efnt verður til Sauðburðarhelgar í Syðri-Hofdölum og að Hótel Varmahlíð.
„Ég er búinn að ganga með þessa hugmynd lengi í kollinum og hef oft hugsað um það hvernig hægt sé að framkvæma það að bjóða fólki að koma og kynnst sveitasælunni og allri þeirri miklu vinnu sem á sér stað í sveitinni á þessum tíma. Nú í apríl ákváðum við að drífa í því að framkvæma þetta og ég hringdi í Svanhildi á Hótel Varmahlíð til að athuga með gistimöguleika og mat. Leist henni svo vel á hugmyndina okkar að við ákváðum að hittast plönuðum dagskránna og settum inn heimsókn í hefðbundið fjós og einnig með róbóta. Síðan skelltum við okkur í að auglýsa þetta og bjóða upp á eina helgi í ár og sjá svo til með framhaldið,“ segir Klara Helgadóttir í Syðri-Hofdölum um tildrög þess að efnt er til þessarar Sauðburðarhelgar.
Klara segir að því miður viti alltof margir ekki hvernig vinnan er sem unnin er til sveita og yfirhöfuð hvað er að gerast í sveitinni. „Mér finnst þetta tilvalið fyrir fólkið í borginni að upplifa eina helgi í sveitinni, fylgjast með, hjálpa til og bara þvælast með okkur í því sem við erum að stússast. Skiptir þá engu hvort það er sauðburðurinn sjálfur, merking lamba, færa til já eða jafnvel að moka skítinn og undirbúa móttöku fleiri lamba. Hugmyndin er sú að fólk verði virkir þátttakendur í störfum okkar og að leyfa því að taka þátt og vera „sveitafólk“ eina helgi.“
Klara segir að það sé sorglegt að vita til þess að borgarbörnin viti ekki hvað sauðburður sé og hún hafi áþreifanlega orðið vör við þessa fáfræði þegar unglingar komu í heimsókn til hennar í heimsókn á síðasta ári. Hún segir að sauðburðurinn verði í fullum gangi um helgina og engin hætta á ládeyðu þar sem tæplega 700 ær muni bera hjá henni þetta vorið.
Dagskrá helgarinnar er annars hér að neðan:
Á föstudeginum 9. maí
Fjölskyldur mæta á Hótel Varmahlíð
Dagskrá afhent
Laugardagur 10. maí
Morgunverður á Hótel Varmahlíð
10.00 Mæting í Syðri-Hofdali
Gestir fylgjast með og taka þátt í þeim verkum sem þarf að vinna á búinu.
Grjónagrautur og slátur í hádeginu
Miðdegishressing í fjárhúsunum um miðjan daginn. ( kleinur/ pönnsur/ mjólk og kaffi)
Kindur, geitur, kanínur, nautgripir, hross, hundar, kettir á bænum
Fjósatími í hefðbundnu básafjósi frá ca. 18 – 20
Pizzukvöld og bingó á Hótel Varmahlíð kl: 20
Sunnudagur 11. maí
Hvítasunnudagur
Kl: 10 – 12
Opið fjós þar sem mjaltaþjonn sér um mjaltir
Teymt verður undir börnum sem það vilja
Sundlaugin í Varmahlíð opin 10 – 15
Syðri-Hofdalir – Sauðburður 10 – 18
Skyr og brauð í hádeginu
Hressing í fjárhúsunum um miðjan daginn
Sveitaveisla á Hótel Varmahlíð kl: 19.00
Lambalæri + ís og ávextir
Mánudagur 12. maí
Morgunverður og heimferð
Sundlaugin opin frá 10 – 15
Takmarkaður fjöldi kemst að. Nánari upplýsingar veita Svanhildur Pálsdóttir, Hótel Varmahlíð – 4538170 og Klara Helgadóttir, Syðri Hofdölum- 4536010.