Stórauknar lánveitingar til landbúnaðar

Á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór s.l. föstudag kom fram að meginbreyting hefur orðið á útlánastarfsemi Byggðastofnunar og lánveitingar í landbúnaði hafa aukist mjög, enda lánar stofnunin nú til hefðbundins landbúnaðar sem ekki var gert áður fyrr. Fjöldi umsókna frá bændum hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum mánuðum og mest vegna kaupa á mjólkurkvóta og stækkunar á fjósum og öðrum búnaði þeim tengdum.
Heildarupphæð útgefinna lánsloforða Byggðastofnunar fyrstu fjóra mánuði þessa árs eru um 3.000 milljónir króna, þrír milljarðar, en voru 917 milljónir á sama tíma í fyrra. Nú í lok apríl nema útgefin lánsloforð nánast sömu upphæð og allt árið 2007. Líklegt er að vextir af útlánum verði hækkaðir.
Sjávarútvegur á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra sækir mest í lánin og landbúnaður og þjónustugreinar á Norðurlandi vestra. Þetta kom fram hjá Aðalsteini Þorsteinssyni, forstjóra Byggðastofnunar, á ársfundi hennar sem haldinn var á Egilsstöðum sl. föstudag. Stofnunin hefur það sem af er ári afgreitt fleiri lánsumsóknir en nokkru sinni fyrr á heilu ári í sögu hennar. Um sprengingu er að ræða, sem Aðalsteinn segir að ekki hafi verið unnt að sjá fyrir og erfitt geti reynst fyrir stofnunina að vaxa svo hratt, haldi þessi þróun áfram. Þetta muni reyna mjög á eiginfjárhlutfall hennar, sem setur takmörk á heildarútlán. Því kunni að reynast nauðsynlegt að hægja ferðina það sem eftir er ársins. Útlánastarfsemin er fjármögnuð með lántökum á innlendum og erlendum markaði á grundvelli lántökuheimilda í fjárlögum þessa árs. Sú fjármögnun verður mun dýrari en í fyrra og því ekki ólíklegt að grípa þurfi til þess ráðs að hækka vexti af útlánum. Stefna stofnunarinnar hefur verið að halda um 2% vaxtamun til að mæta áföllum í útlánastarfseminni.

Áberandi erfiðleikar í fjármögnun birgða og afurða fiskvinnslunnar
Aðalsteinn sagði starfsmenn Byggðastofnunar verða þess mjög áskynja í störfum sínum að þrengst hefði um aðgengi íslenskra fyrirtækja að lánsfé undanfarna mánuði eftir veisluhöld undanfarinna missera. Í þessu fælust mjög mikil umskipti fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni og á landinu öllu. Nú væri farið að bera á erfiðleikum fyrirtækja í fiskvinnslu hvað varðaði fjármögnun birgða og afurða og gæti það haft alvarlegar afleiðingar ef ekki rættist úr.
Hann sagði hækkandi vaxtakostnað valda erfiðleikum í rekstri margra skuldsettra fyrirtækja. „Við verðum töluvert vör við það hjá Byggðastofnun að gamlir viðskiptavinir okkar sem greiddu upp lán við stofnunina þegar samkeppni bankanna stóð sem hæst, vilja nú koma aftur.“
Aðalsteinn sagði rekstur hennar hafa verið mjög þungan síðari hluta ársins 2007 en þá urðu stórir viðskiptavinir stofnunarinnar á sviði sjávarútvegs gjaldþrota. Enn sjáist merki kvótaniðurskurðarins og svo verði væntanlega fram eftir árinu, en þó séu ákveðin teikn um bata og verði ekki vart við miklar uppsagnir hjá þeim fyrirtækjum sem stofnunin er í viðskiptum við. Staða sjávarútvegsins vegi jafnan þungt í afkomu hennar.
Skv. rekstrarreikningi Byggðastofnunar fyrir árið 2007 er bókfært tap tæpar 180 milljónir króna. Alls greiddi Byggðastofnun í fyrra út tvo milljarða í ný lán, sem er hækkun um 500 milljónir frá árinu áður. Forstjóri Byggðastofnunar sagðist í framsögu sinni telja að nokkuð skorti á skýra framtíðarsýn stjórnvalda í byggðamálum. Móta þyrfti langtíma byggðaáætlun fyrir allt landið til tuttugu ára.

Morgunblaðið 25. maí 2008, Steinunn Ásumundsdóttir (steinunn@mbl.is)


back to top