Bóndi er bústólpi!

Lánsfjárkreppan sem nú gengur yfir heiminn hefur heldur betur breytt fjármálaumhverfinu hér á landi. Væntanlega hefur enginn Íslendingur farið varhluta af því. Ekki nóg með að erfitt eða ómögulegt sé að fá lán til framkvæmda eða kaupa heldur hafa flestar eða allar vörur hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum. Kaupmátturinn hefur því rýrnað verulega að undanförnu og er sama hvar í stétt menn eru. Vandamálið er allra landsmanna!

Aðföng bænda til rekstrar hefur hækkað eins og annað að maður minnist ekki á greiðslubyrði lánanna. Allt þetta veldur því að bændur heyja nú erfiða baráttu um að ná endum saman og á stundum þurfa bændur að velja á milli þess að standa í skilum með greiðslu á rekstrarvörum eða greiðslu lánanna. En fátt er svo með öllu illt! Á tímum sem þessum skilur þjóðin mikilvægi íslensks landbúnaðar. Orðið „matvælaöryggi“ er ekki bara orðagjálfur heldur raunveruleg nauðsyn. Bændur, sem frumframleiðendur matvöru, eru því lífsnauðsynlegir þjóðinni og virðing fyrir íslenskum landbúnaði mun hefjast til vegsemdar á ný!

En hvað er hægt að gera í stöðunni?


  • Haltu áfram eins og áður! Samfélagið stöðvast fyrst fyrir alvöru ef allir ætla allt í einu að hætta við kaup á vörum og þjónustu. Gjaldþrot fyrirtækja vegna verkefnaskorts og uppsagnir starfsmanna gera kreppu fyrst raunverulega. Vertu hins vegar meðvitaður um hvað þú getur greitt fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustukaup og náðu samningum um verð áður en kaupin fara fram.
  • Ekki láta leika á reiðanum! Hafðu samband við lánadrottna að fyrra bragði ef þú sérð fram á að geta ekki greitt allan reikninginn. Með því sýnir þú ábyrgð í þínum fjármálum og auðveldara mun reynast að komast að samkomulagi um greiðslu en eftir að skuldin er fallin á eindaga.
  • Talaðu við þjónustufulltrúann þinn í bankanum. Mögulegt er að fresta greiðslu afborgana um nokkurra mánaða skeið en greiða þess í stað aðeins vexti. Af nýlegum lánum sem menn hafa tekið borga menn reyndar að stærstum hluta aðeins vexti en allt hjálpar. Mundu að þjónustufulltrúinn þinn er fórnarlamb aðstæðna eins og þú, ekki sökudólgurinn.
  • Ekki skipta um lánategund!. Þeir bændur sem tekið hafa erlent lán eiga alls ekki að skipta á þessum tímapunkti yfir í íslenskt lán. Með því eru þeir að festa gengistapið og höfuðstóllinn mun ekki lækka þegar krónan styrkist og gengisvísitalan lækkar á nýjan leik.
  • Leitaðu þér aðstoðar ef þú þarft! Á þessum breytingartímum er ekki óeðlilegt að einhverjir finni til depurðar eða jafnvel þunglyndis. Ekki hika við að leita þér aðstoðar, það er enginn minni maður fyrir það. Ráðgjafar Búnaðarsambandsins eru boðnir og búnir að veita þá aðstoð sem þeim er kleyft, einnig minnum við á félagslega aðstoð sóknarpresta og síma sérstakrar sálfræðiaðstoðar en hann er 458-9999. Vinalínan er einnig opin á kvöldin í síma  800-6464 þar sem hægt er að ræða við ókunnugan um sín hjartans mál. Sumum finnst það betra.


back to top