Eldur í alifuglabúi

Eldur kviknaði í húsi í alifuglabúinu Ásmundarstöðum í Ásahreppi í Rangárvallasýslu á níunda tímanum í gærkvöldi. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var búið að slökkva eldinn áður en slökkvilið bar að garði. Eldurinn var ekki mikill, en mikill hiti og reykur myndaðist í búinu. Um tíu þúsund, 26 daga gamlir ungar voru í húsinu og var hluti þeirra dauður þegar að var komið.

 Dýralæknir var kallaður á staðinn til að meta hvað hægt væri að gera við þá unga sem enn eru á lífi en líklegt er talið að lóga þurfi öllum ungunum.


Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað olli eldsvoðanum. Lögreglan segir hins vegar að ekkert fólk hafi verið í hættu.


Lögreglan segir að aðkoman hafi verið ljót og er málið í rannsókn.


back to top