Kölkun er víða nauðsynleg

Oft á tíðum er nauðsynlegt að kalka íslenska gróðurmold svo að sáðgresinu líði þar sem best og endist sem lengst. Jarðvegur þar sem rækta á gras gerir kröfu um sýrustig að lágmarki í kringum pH 5,3 á meðan korn og belgjurtir gera kröfu um að jarðvegurinn sé með pH 6,0 ef vel á að vera. Margar grænfóðurtegundir gera kröfu um sýrustig þarna mitt á milli, repja t.d. þrífst best þegar sýrustig er uppundir pH 6,0. Á sama hátt getur sýrustig jarðvegsins verið óheppilega hátt en sunnanlands má kalka töluvert mikið áður en við förum að hafa áhyggjur af því í hefðbundinni ræktun.

Langvirkustu áhrifin af kölkun fást með dreifingu á skeljasandi. Alla jafna er heppilegast að kalka með skeljasandi í flög áður en því er lokað sem túni. Með því móti má koma talsverðu magni í flagið sem ætti að duga líftíma túnsins (8-10 ár). Sömuleiðis þarf að kalka spildur með reglulegu millibili þar sem ræktað er grænfóður ár eftir ár. Mismunandi gerð jarðvegs gerir ólíkar kröfur um magn skeljasands svo að sambærilegur árangur náist og ræður magn lífræns efnis í jarðveginum mestu þar um. Þannig þarf mest magn skeljasands í mýrarjarðveg en minnst í sandjarðveg.

Fyrirtækið Björgun í Reykjavík er langstærsti aðilinn sem útvegar skeljasand sem nýta má í þessum tilgangi. Björgun býður bændum harpaðan skeljasand, 0-8 mm á 2.180 kr/tonn með vsk. Sömuleiðis getur fyrirtækið einnig boðið upp á sekkjun í u. þ. b. eins tonns sekkjum. Verð fyrir sekkjun er 1.800 kr/sekk ásamt 500 kr. skilagjaldi pr. sekk sem fæst endurgreitt ef sekkjum er skilað. Þessi möguleiki getur e.t.v. nýst einhverjum.

Þá er rétt að benda á að bændur eiga möguleika á styrk vegna kölkunar í gegnum jarðabóta- og þróunarstyrki. Samkvæmt vinnureglum um framlög getur styrkurinn numið allt að 10 krónum á hvert tonn flutningsvegalengdar. Ekki er nauðsynlegt að sækja um þennan styrk fyrirfram heldur er nóg að skila inn til Búnaðarsambandsins afrit af flutningsnótu næsta haust þar sem fram kemur hversu mikið magn af sandi hefur verið flutt.

Dæmi:
Bóndi kaupir 25 tonn af skeljasandi og býr í 150 km. fjarlægð frá Reykjavík þaðan sem skeljasandurinn kemur. Styrkurinn getur þvi verið: 10 kr x 25 tonn x 150 km = 37.500 kr.

Ástæða er til að hvetja bændur til að nýta sér þetta nú í vor…

Reglur um jarðabóta- og þróunarstyrki 2009


back to top