Neytendur færa sig yfir í ódýrari mjólkurvörur
Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var sala á mjólkurvörum í fyrra meiri en búist var við í erfiðu efnahagsástandi. Hins vegar breyttist neyslumynstur nokkuð á þann veg að neytendur færðu sig úr dýrari mjólkurvörum í ódýrari mjólkurvörur.
Mjólkurframleiðsla ársins 2009 dróst saman um 0,38% frá árinu á undan og nam tæpum 126 milljónum lítra.
Í febrúar s.l. var heildarsala á mjólkurvörum svipuð og í sama mánuði í fyrra. Sala á rjóma og jógúrt dróst aðeins saman en lítils háttar aukning var á sölu osta. Aðrir vöruflokkar eru í jafnvægi.
Miðað við próteingrunn er heildarsala síðustu 12 mánaða 117,5 milljónir lítra sem er 1,06% aukning en á fitugrunni er sala sama tímabils 115,2 milljónir lítra eða aukning upp á 2,81%.