Mikil andstaða við Reykjavík sem landsmótsstað

Stjórnir 26 hestamannafélaga hafa undiritað mótmælaskjal þar sem mótmælt er hvernig staðið var að vali á Reykjavík sem staðsetningu landsmóts hestamanna árið 2012. Alls eru 47 félög aðilar að Landssambandi hestamannafélaga (LH). Búið var að ákveða fund með Haraldi Þórarinssyni formanni LH 5. mars síðastliðinn þar sem afhenda átti mótmælaskjalið en Haraldur aflýsti þeim fundi að kvöldi 4. mars en boðaði til fundar 9. mars í staðinn. Hinn 5. mars skrifuðu Haraldur, forsvarsmenn Fáks í Reykjavík og fulltrúar Reykjavíkurborgar síðan undir samning um að landsmót skyldi haldið í Reykjavík.

Hestamannafélögin Geysi, Léttfeti, Sindri og Stígandi sendu í kjölfarið frá sér fréttatilkynningu þar sem þau furða sig á vinnubrögðum formanns LH, telja þau ólýðræðisleg og ekki sé unnið af heilindum. „Ljóst er að geysileg andstaða ríkir meðal hestamanna um val á Reykjavík sem landsmótsstað 2012,“ segir jafnframt í tilkynningunni.


Haraldur hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann hafnar því að hafa beitt ólýðræðislegum vinnubrögðum. Beðið hafi verið um fundinn með sólarhringsfyrirvara og hafi hann átt erfitt um vik að verða við því, enda hafi verið stefnt að fundi með Fáksmönnum á svipuðum tíma. Hafi síðar komið í ljós að fundartíminn hefði ekki hentað og hann tjáð formanni Stíganda það í síma. Ákveðið hafi verið að sá fundur færi fram 9. mars. Þá segir Haraldur í tilkynningu sinni: „Undirritaður vill taka skýrt fram að miðað við þann stutta fyrirvara sem hér um ræðir þar sem óskað var eftir fundi með stjórn LH, með sólarhrings fyrirvara, tel ég mig hafa lagt mig allan fram um að leysa úr óskum félaga okkar hvað það varðar og vann að því af heilindum.“


Jónína Stefánsdóttir formaður Stíganda undrast framgöngu Haraldar. Hún segir jafnframt að hún telji afar ólíklegt að af fundi þeirra verði á morgun, 9. mars. „Okkur finnst við nú ekki hafa erindi til að fara suður eftir þessa ákvörðun um Landsmót í Reykjavík, trúlega sendum við þessar undirskriftir bara í ábyrgðarpósti.“ Jónína segir að þessi 26 félög setji sig á móti Reykjavík sem landsmótsstað en ekki síður þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafi verið. „Ákvörðun um landsmótsstað á að taka á aðalfundi eða formannafundi og í raun átti að vera búið að taka þessa ákvörðun í júlí síðastliðnum. Í þessu ljósi þykir mér mjög ólýðræðislega staðið þessari ákvarðanatöku. Það eru meira en helmingur hestamannafélaganna í LH sem að eru mótfallnir þessu.“ Spurð hvort hún telji að kominn sé upp trúnaðarbrestur milli stjórnar LH og aðildarfélaga þess sagði Jónína að henni fyndist það. „LH er samnefnari fyrir öll hestamannafélögin í landinu og þau virðast ekki vera að starfa eftir því.“


Haraldur Þórarinsson segist undrast hversu seint þessi mótmæli komi fram. „Það var vitað að við vorum búin að gefa okkur tíma til 26. febrúar að klára málið en síðan framlengdum við það um viku. Þetta var úrslitastundin þarna á föstudaginn.“ Haraldur segir það ekki hafi komið fram í samtali hans við formann Stíganda að 26 félög hefðu undirritað mótmælaskjalið. Spurður hvort það hefði breytt einhverju um undirritun samningsins segir hann ómögulegt að segja til um það. Haraldur segir að þessi mótmæli verði rædd á stjórnarfundi LH á föstudaginn. „Auðvitað skoðum við þetta, við tökum tillit til þess sem félögin vilja, það er skyld okkar.“



Þess er skemmst að minnast að Búnaðarþing samþykkti s.l. miðvikudag einróma ályktun þess efnis að halda eigi landsmót á landsbyggðinni og að mótsstaðirnir skuli vera tveir, Vindheimamelar og Gaddstaðaflatir. Sigurbjartur Pálsson fulltrúi Bændasamtaka Íslands í stjórn Landsmóts ehf. segist mjög undrandi á þessari niðurstöðu. „Það kemur mjög á óvart í ljósi niðurstöðu Búnaðarþings að menn skuli gera þetta. Verandi með þá ályktun tæplega sólarhringsgamla fyrir framan sig, samhljóða samþykkta, tel ég ljóst að þetta hljóti að kalla á einhver viðbrögð af hendi Bændasamtakanna. Ég ætla kannski ekki að úttala mig um hver þau verða, Landssamtök hestamannafélaga munu væntanlega skýra sitt mál og hvað rekur þá til að ganga frá þessu með þessum hætti í dag. Við hljótum að ráða ráðum okkar hjá Bændasamtökunum í framhaldinu, þessi ákvörðun er í engum takti við það sem Búnaðarþing ályktaði.“


back to top