Hveitibjór ættaður af Skógasandi
Þórarinn kornbóndi Ólafsson í Drangshlíð 2 undir Eyjafjöllum vinnur nú að verkefni sem hann kallar Frá akri í glas. Eftir kornvertíðina í haust sl. snéri hann sér að möltun á bygginu sínu og bruggtilraunum. Nú hefur það verkefni verið fullkomnað og blaðamaður varð þess heiðurs aðnjótandi fyrir skemmstu að fá að bragða á ölafurðum Drangshlíðarbúsins.
Þórarinn var með þrjár tegundir af öli á boðstólum þegar blaðamaður tók á honum hús. Annars vegar voru lagaðar tvær tegundir úr byggmaltinu, Skeglu af ökrum Drangshlíðar, og hins vegar ein tegund hveitibjórs sem upprunninn er af Skógarsandi. Byggbjórarnir eru annars vegar það sem Þórarinn kallar IcePilsner, sem inniheldur ljóst grunnmalt, og svo IceCara sem er karamellað byggmalt. Ekki var komið nafn á hveitibjórinn þegar blaðamaður var þar á ferð.
Rætt er við Þórarinn um ölgerðina í Bændablaðinu sem kemur út í dag.