Kostnaður við landbúnaðarkerfið mun aukast

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði alveg ljóst að kostnaður við stofnanakerfi landbúnaðarins hér á landi muni aukast verulega við aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar muni stjórnvöld reyna að ná fram sem hagstæðastri niðurstöðu í aðildarviðræðum.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að umtalsefni viðtal í Morgunblaðinu við Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, á laugardag. Þar sagði Jón m.a. að Evrópusambandið gerði kröfur um að komið verði á fót stofnunum hér á landi til þess að hafa umsjón með framkvæmd sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar.

Einar spurði hvort Íslendingar ættu að leggja af stað í kostnaðarsamt og tímafrekt ferli sem feli í sér grundvallarbreytingar án þess að þjóðarvilji sé skýr í þessum efnum.


Össur lagði áherslu á, að það væri Alþingis að taka ákvörðun um hvort hætt verði við aðildarferlið. Hann sagði að það sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setti fram í  skýrslu nýlega væru samningskröfur þess. Íslendingar muni setja fram sínar gagnkröfur og síðan verði niðurstaða.


Össur sagði hins vegar alveg ljóst að aðild að Evrópusambandinu geri kröfur um gríðarlega uppstokkun á stofnanakerfi landbúnaðarins og að settar verði á fót tilteknar mannfrekar stofnanir. „En við ætlum að ná sem hagstæðasti niðurstöðu. og munum berja fótastokk smæðar okkar og sérstöðu,“ sagði Össur.


 


back to top