Bú sem voru rekstrarhæf fyrir hrun verði tryggður rekstrargrundvöllur

Aðalfundur Landssambands kúabænda var settur í morgun á Hótel Sögu í Reykjavík. Í setningarræðu sinni við upphaf aðalfundar Landssambands kúabænda ræddi Sigurður Loftsson formaður, um skuldastöðu kúabænda í kjölfar bankahrunsins. „Það hefur verið skilyrðislaus krafa Landssambands kúabænda í þessu efni, að öll þau bú sem voru rekstrarhæf fyrir hrun verði það áfram. Undir þessu liggur krafa um að leiðréttur verði eftir því sem aðstæður leyfa sá forsendubrestur sem þarna varð“. Formaður kom einnig inn á í ræðu sinni að mikilvægt væri að jafnræðis verði gætt við úrlausn þessara mála, „miklu skiptir við aðstæður eins og nú að viðhalda trú þeirra, sem þennan rekstur stunda, á framtíðina.

Því skiptir miklu hvernig staðið verður að úrvinnslu skulda greinarinnar hjá lánastofnunum og að jafnræðis sé gætt“. Um breytingarnar á mjólkursamningnum sem gerðar voru á síðasta ári sagði Sigurður: „Kosið var um þessar breytingar í almennri atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda og voru þær samþykktar með 83% greiddra atkvæða. Í framhaldi af því samþykkti Alþingi svo samninginn fyrir sitt leiti með verulegum meirihluta allra þingflokka. Með þessu má segja að bændur hafi slegið tóninn í þeirri sátt sem nauðsynleg er í efnahagslífi landsins svo að hér náist á ný efnahagslegur stöðugleiki. Framlag kúabænda í þessu samhengi er umtalsvert, en nærri lætur að umræddar breytingar á mjólkursamningnum kosti greinina 400 milljónir á árinu 2009“ og áfram „Í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á Mjólkursamningi lýsti þáverandi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  yfir vilja til að gerðar yrðu nauðsynlegar breytingar til að styrkja ákvæði Búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Það er þó fyrst nú eftir áramót sem málið fer fyrir ríkisstjórn. Þaðan var það afgreitt til þingflokka stjórnarinnar í byrjun þessa mánaðar. Þar hefur það setið síðan þá. Kúabændur undirgengust skerðingu á samningum sínum m.a. í trausti vilyrða um að gengið yrði frá lausum endum í lagaumhverfi þeirra og ekki verður við annað unað, en að því máli verði lokið frá hendi stjórnvalda„. Um aðlögunarviðræður Íslands við Evrópusambandið sagði formaður LK þetta: „Engum vafa er undirorpið að þessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda, er einhver sú stærsta sem tekin hefur verið hin seinni ár. Það hlýtur því að vekja athygi að ákvörðunin er tekin á sama tíma og stjórnsýsla og atvinnulíf landsins háir harða baráttu við endurreisn efnahagslífsins. Samhliða þessu er mikill niðurskurður á fjárlögum sem augljóslega mun veikja stjórnsýsluna í þessu vandasama verkefni“ og áfram segir „niðurfelling tolla mun leiða af sér verulegan markaðssamdrátt íslenskra mjólkurafurða og þar með munu núverandi rekstarforsendur greinarinnar bresta. Verst er þó að aðildarumsóknin sem slík skapar óvissu í starfsumhverfi greinarinnar, því ekki mun liggja fyrir fyrr en við undirskrift, hvað leynist í mjölpoka aðildarsamningsins“.


Setningarræðu formanns Sigurðar Loftssonar á aðalfundi LK 2010 er að finna á vef Landssambands kúabænda.


back to top