Uppbygging háhraðanets á góðri leið

Í febrúar og mars s.l. hófst sala á háhraðanettengingum í Hornafirði, Skaftárhreppi og Mýrdalshreppi. Stefnt er að því að hefja sölu á tengingum í síðasta áfanga háhraðanetsverkefnis fjarskiptasjóðs í ágúst næstkomandi í stað desember eins og áður var áætlað, að sögn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Samkvæmt áætlun um framvindu verkefnisins er fyrirhugað að sala á háhraðanettengingum hefjist í maí n.k. á þeim svæðum/bæjum hér sunnanlands sem ekki eiga nú þegar kost á slíkum tengingum. Um er að ræða svæði/bæi í Ásahreppi, Rangárþingi eystra og ytra, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshr., Hrunamannahr., Skeiða- og Gnúpverjahr. og Ölfusi.

Fjarskiptasjóður samdi við Símann hf. í ársbyrjun 2009 um uppbyggingu háhraðanettenginga á þeim stöðum á landinu þar sem slík þjónusta er ekki í boði á markaðslegum forsendum. Um er að ræða rúmlega 1.600 skilgreind lögheimili með heilsársbúsetu eða fasteignir með heilsársstarfsemi sem fá möguleika á háhraðanetstengingu í tengslum við samninginn.


Samkvæmt afmörkun fjarskiptasjóðs eru flestir staðir innan verkefnisins eingöngu með tengingu upp á 128kb/s hámarkshraða í dag. Hraðinn sem boðið er upp á í þessum samning er hins vegar a.m.k 16 sinnum meiri eða 2Mb/s að lágmarki.


Stærsti hluti uppbyggingarinnar háhraðanets verður með þráðlausri 3G tækni. Einnig verður uppbygging með ADSL tækni þar sem aðstæður bjóða. Í jaðartilfellum verður um WiFi- og gervihnattalausnir að ræða. Síminn, sem verktaki fjarskiptasjóðs, metur og ákveður hvaða hvaða tækni hentar  hverju sinni.


Hægt er að nálgast frekari upplýsingar, m.a. lista yfir þá staði sem eru á áætlun, á vef Fjarskiptasjóðs.


back to top