Sauðfjárbændur vilja skoða sameiningu og verkaskiptingu afurðastöðva í kjötiðnaði

Í gærkvöldi hófst afgreiðsla mála á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda en fundurinn hófst kl. 10.00 í gærmorgun. Þá voru afgreidd 17 mál m.a. um ESB, varnarlínur, sameiningu ráðuneyta og margt fleira.
Fundurinn stendur til kl. 12.00 en eftir hádegi hefst málþing í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna. Dagskrá og önnur gögn vegna aðlfundarins er að finna á vefsíðu LS, www.saudfe.is.
Hér fyrir neðan má lesa samþykktir gærdagsins:

Samþykktir aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda 2010
Birt með fyrirvara um prentvillur
Þessi mál voru afgreidd 8. apríl en afgreiðslu mála er ekki lokið


Samþykkt frá fagnefnd


1.4. Um eyrnamerkingar
Aðalfundur LS 2010 skorar á Landbúnaðarráðherra, við innleiðingu nýrra ESB-reglugerða um merkingar gripa, að fylgja eftir ítrekuðum óskum sauðfjárbænda um undanþágu frá ákvæðum um merkingu með tveimur plötumerkjum í sauðfé, vegna sérstöðu landsins.


Greinargerð:
Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um þessar undanþágur virðist, af hálfu stjórnvalda, ekki ennþá hafa verið tekið tillit til sjónarmiða íslenskra sauðfjárbænda í málinu. Fullyrt er að Ísland eigi góða möguleika á undanþágu frá þessum ákvæðum sé þess óskað og gild rök lögð fram til stuðnings málinu.  


Meðal þess sem sauðfjárbændur  krefjast er að fá íslensku eyrnamörkin viðurkennd sem aðra merkinguna og þar sem lambamerkingar innan ESB virðast yfirleitt ætlaðar sem búsmerkingar ættu íslensku mörkin að halda fullu gildi, líkt og tattóvering er viðurkennd merkingaraðferð í annað eyra innan ESB. Flutningar á lifandi fé inn og út úr landinu eru ekki fyrir hendi þar sem Ísland er afskekkt eyland og ekki er hefð fyrir viðskiptum með sláturlömb milli búa innanlands eins og tíðkast í ESB-löndunum. Ein sérstaðan er sú að ríflega 90% íslenska sauðfjárstofnsins er skráður í opinbert skýrsluhald Bændasamtaka Íslands. Í ljósi ofantalinna atriða telur fundurinn algerlega óþarft að hérlendis verði merkingarreglum ESB fylgt út í æsar.


1.9. Um flokkun á ull
Aðalfundur Landssamtaka Sauðfjárbænda 2010 beinir til stjórnar Landssamtaka Sauðfjárbænda að hún beiti sér fyrir því að tekinn verði upp nýr ullarflokkur fyrir svartflekkótta og gráflekkótta ull.


Greinargerð.
Þessir litir eiga að nýtast Ístex sem efniviður í gráan lit og því synd að setja þetta hráefni í ruslflokk sem er nánast verðlaus.


1.10. Um kjötmat
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 ítrekar fyrri ályktanir um vandað samræmt kjötmat hjá afurðastöðvum sauðfjár.


Greinargerð:
Enn virðist vera misbrestur á eðlilegu samræmi milli kjötmatsmanna.  Hægt er að benda á dæmi því til staðfestingar.


Samþykkt frá allsherjarnefnd


2.1 Varnarlínur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja nægt fjármagn til viðhalds varnarlína. Aflagðar varnarlínur skal bjóða sveitarfélögum til yfirtöku, að öðrum kosti verði aflagðar girðingar fjarlægðar. 


2.3 Um líflambasölusvæði
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 beinir því til Matvælastofnunnar að leggja ríka áherslu á að verja viðurkennd líflambasölusvæði fyrir sjúkdómum sem ekki eru þekktir á viðkomandi svæði. Mikilvægt er að fyllstu varúðar sé gætt á svæðum næst líflambasölusvæðum til að tryggja heilbrigði sölulamba. Jafnframt er óskað eftir að kanna möguleika á því að taka inn ný líflambasölusvæði sem uppfylla skilyrði reglugerðar um líflambasölu 550/2008.



2.4. Um aðild Íslands að ESB
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 telur að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið utan ESB, hafnar alfarið aðild að sambandinu og styður jafnframt málflutning Bændasamtaka Íslands. Fundurinn skorar á stjórnvöld að draga til baka umsókn að ESB og beina kröftum sínum að uppbyggingu íslensks samfélags.


2.5 Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 telur mikilvægt að afurðastöðvar skoði alla möguleika til hagræðingar, hvort heldur sé með samvinnu þeirra um ákveðin verkefni, s.s. útflutning og/eða með sameiningu afurðastöðva.
Samhliða er nauðsynlegt að óska eftir breytingu á 71. grein búvörulaga, þess efnis að kjötafurðastöðvar fái samskonar heimild og mjólkurafurðastöðvar  til að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu afurða, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.


2.6. Um þjóðlendur
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 hvetur Bændasamtökin til að standa þétt að baki Landsamtök landeigenda á Íslandi í baráttu þeirra í þjóðlendumálum.


Samþykkt frá markaðs- og kjaranefnd


3.1. Um samkeppnislög
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 telur að endurskoða þurfi samkeppnislög.Á sama tíma og bændum er almennt bannað að fjalla um kjaramál sín hefur orðið gífurleg samþjöppun á smásölumarkaði Nú hefur það gerst að bankarnir hafa yfirtekið rekstur nokkurra stórra búa á Íslandi. Það er einnig ljóst að sérstaða landbúnaðarins er slík  að ekki er hægt að fella hann undir samkeppnislög líkt og nú er. Eigi íslenskir bændur að ná árangri með sínar landbúnaðarvörur á erlendum mörkuðum, á grundvelli hreinleika og sérstöðu, er nauðsyn að auka samvinnu afurðasölufyrirækja og jafnvel sameina þau. Ofangreint sýnir að samkeppnislög eru úr öllum takti við raunveruleikann og þarfnast endurskoðunar.


3.2. Um verðmyndun sauðfjárafurða.
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010  beinir því til stjórnar. LS að gera  könnun á verðmyndun á sauðfjárafurðum frá heildsölustigi til neytenda.


3.3. Um raforkuverð
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 mótmælir harðlega miklum hækkunum á rafmagnskostnaði undanfarin ár. Þessi hækkun hefur einkum komið illa við íbúa landsbyggðarinnar. Hún er einnig  óeðlileg í ljósi þess að á mörgum svæðum er einungis boðið upp á eins fasa rafmagn sem er ekki sambærilegt að gæðum og þriggja fasa rafmagn.


3.4 Um verðmyndun olíu
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 skorar á stjórn LS að gera úttekt á verðmyndun á litaðri olíu og verðþróun samanborið við ólitaða olíu og bensín.


Samþykkt frá félagsmálanefnd


4.6 Um söfnun unglambaskinna
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 hvetur alla sauðfjárbændur til  að hirða unglambaskinn af lömbum sem drepast hjá þeim á vorin. Fundurinn fagnar frumkvæði Sjávarleðurs á Sauðárkróki sem hefur gert góða hluti í markaðssetningu og úrvinnslu þessara skinna sem annars færu til ónýtis.


4.7. Um kynjahlutföll í trúnaðarstörfum LS
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 skorar á sauðfjárbændur af báðum kynjum til að taka virkari þátt í félagsmálum í félagskerfi bænda.


4.8. Um sameiningu ráðuneyta
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 tekur undir með ályktun Búnaðarþings 2010 að mótmæla harðlega fyrirhugaðri sameiningu sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneyti.


Samþykkt frá fjárhagsnefnd


5.2. Um búnaðarlagasamninginn
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2010 skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra  að endurnýja búnaðarlagasamninginn sem fyrst og verði hann ekki skertur frekar en orðið er.  Óeðlilegt er að hið opinbera geri auknar kröfur á BÍ á sama tíma og framlög eru skert..  Sú staða sem nú er uppi er óviðunandi.


5.3. Um staðsetning aðalfundar 2011
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda samþykkir að aðalfundur og árshátíð sauðfjárbænda 2011 verði haldin í Reykjavík



 


back to top