Aðalfundur HS 2010

Fundargerð

Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 23. mars 2010 í félagsheimili Hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf


Dagskrá:


1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
2. Skýrsla stjórnar, formaður HS
3. Ársreikningur
4. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
5. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2010, tillaga frá stjórn
6. Kosningar, kosið verður um tvo menn í aðalstjórn og þrjá varamenn
7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
8. Kosning  um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurl.
9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda.
10.  Kynning á Heimarétt í Worldfeng / Hallveig Fróðadóttir
11.  Tillaga frá stjórn lögð fram og kynnt
12.  Umræður og afgreiðsla
13.   Önnur mál


 


1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
Sveinn Steinarsson setti fundinn kl. 20:00. Stakk upp á Hrafnkeli Karlssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.


2. Skýrsla stjórnar, Sveinn Steinarsson
Síðastliðið starfsár stjórnar samtakanna er búið að vera með svipuðu sniði og undangengin ár. Við höfum fundað 7 sinnum til að  fjalla um þau verkefni og þá viðburði sem við höfum staðið fyrir á hverjum tíma. Haustfundinn héldum við í október og voru framsögumenn Guðlaugur Antonsson sem fór yfir kynbótasýningar  sl. liðins árs og árangur þeirra og Þorvaldur Kristjánsson  sem var með  fróðlega kynningu á hestatengdri starfsemi Lbhí.

Í byrjun árs vorum við með fræðslukvöld um litaerfðir og gerði Guðni Þorvaldsson þeirri fræði góð skil. Þetta fræðslukvöld var ákaflega vel sótt  en tæplega 40 manns skráðu sig til leiks. Fannst okkur eftir þetta kvöld að það að halda stutt fræðslukvöld með afmörkuðu efnisvali geti verið skemmtileg viðbót við það sem Hrossaræktarsamtökin hafa verið að standa fyrir.

Námskeið í byggingadómum kynbótahrossa var haldið  í Hestamiðstöðinni Dal og voru kennarar Jón Vilmundarsson og Þorvaldur Kristjánsson. Námskeiðið tókst vel og var ágætlega sótt. Námskeið í hæfileikadómum kynbótahrossa sem átti að halda í Rangárhöllinni  var látið niður falla þar sem  þátttaka  var ekki fullnægjandi. Þar skráðu sig 11 manns og fáir úr Rangárvallasýslu.

Á aðalfundi Félags hrossabænda sl. haust var breytt sýningarform kynbótahrossa talsvert til umræðu. Tillaga kom fram af hálfu fagráðs um það að halda eina kynbótasýningu, eingöngu með nýju sýningarformi þar sem hringvöllur er notaður að hluta til. Þetta yrði fullgild kynbótasýning og eldra hefðbundið form væri ekki í boði. Þetta yrði síðsumars-sýningin á Hellu 2010. Þessi tillaga tók breytingum í meðferð fundarins og var það að lokum niðurstaða fundar Félags hrossabænda að leggjast ekki gegn því að sýning með nýju sniði færi fram en að það væri val hvers og eins knapa hvort þeir sýndu hrossin eftir nýju sýningarformi eða eins og gert hafði verið fram að þessu, á beinni braut. Samþykkt var að á síðssumarssýningu á Hellu 2010 yrði nýja formið reynt en að knapar hefðu val um sýningarform og kæmi þá einnig í ljós áhugi knapa á nýju útfærslunni. Ekki var full sátt um niðurstöðu aðalfundar Félags hrossabænda. Í framhaldinu leitaði Kristinn Guðnason formaður Félags hrossabænda til stjórnar HS og óskaði eftir því við okkur að við endurskoðum afstöðu okkar um tvíhliða sýningarform  þ.e. að það væri val knapa með hvaða hætti þeir kysu að ríða þessa tilteknu sýningu á Hellu. Þótti nauðsynlegt af þeirra hálfu að öll hross sem sýnd yrðu á þessari tilraunasýningu yrðu sýnd með sama hætti þ.e.með hringvallaútfærslunni. Féllumst við í stjórn HS á að ef boðið yrði uppá  hefðbundna kynbótasýningu á svipuðum tíma og á svipuðum slóðum, þá gæti það orðið. Niðurstaðan var sú að vikuna á undan Hellusýningunni 3.-6. ágúst verður  kynbótasýning á Miðfossum í Borgarfirði þar sem sýningarform verður á beinni braut.
Mikil umræða hefur verið uppá síðkastið vegna staðarvals á landsmóti 2012. En eins og mönnum er kunnugt gekk stjórn LH frá samningi við hestamannafélagið Fák þann 5. mars. sl. um að landsmótið verði haldi á þeirra svæði í Víðidal í Reykjavík. Í framhaldi af þessari umræðu hafa komið fram vangaveltur um breytingar á fyrirkomulagi landsmóta. Meðal annars að skipta því upp, þ.e.a.s. taka kynbótahlutann frá og halda sérstakt kynbótalandsmót.
Stjórn HS ákvað á fundi sínum að koma fram með tillögu að ályktun sem þessi aðalfundur tekur afstöðu til. Veður sú tillaga kynnt hér á eftir.

Það sem næst er á döfinni hjá HS er ungfolasýning 27. mars en núna ætlum við að bjóða unghryssu eigendum einnig upp á að koma með gripi sína í sköpulagsmat. Það verða kynbótadómararnir Halla Eygló og Jón Vilmundarson sem meta gripina og raða þeim upp til verðlauna. Einnig gefst áhorfendum kostur á að velja þann grip sem þeim líst best á. Síðan en ekki síst er það sýningin okkar Ræktunn 2010 sem haldin verður 17. apríl í Ölfushöllinni. Vonum við að ræktunarfólk verði duglegt að melda sig inn til þátttöku og að sýningin verði okkur til sóma.
Vona  ég að við eigum  málefnalegan og góðan  fund hér í kvöld.


3. Ársreikningur
María Þórarinsdóttir fór yfir reikninga samtakanna.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld:    4.271.290 kr
Tekjur:    5.626.073 kr
Hagnaður:   1.354.783 kr


Eignir: 26.451.612 kr
Skuldir: 384.677 kr


4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Engar umræður. Kári Arnórsson þakkaði stjórn gott starf. Reikningar afgreiddir og samþykktir samhljóða.


5. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2010, tillaga frá stjórn
Tillaga frá stjórn um að árgjald verði óbreytt 5.000 kr (+seðilgjald). Hrafnkell Karlsson las upp tillögu um félagsgjaldið og hún var samþykkt.


6. Kosningar, kosið verður um tvo menn í aðalstjórn og þrjá varamenn í stjórn
Úr stjórn eiga að ganga Bjarni Sigurðsson og Bertha Kvaran. Bjarni gefur ekki kost á sér áfram. Tillaga kom um að kjósa Berthu Kvaran og Maríu Þórarinsdóttur í aðalstjórn. Samþykkt með lófaklappi. Tillaga kom um að kjósa Sigrík Jónsson, Hannes Sigurjónsson og Birgi Leó Ólafsson sem varamenn. Samþykkt með lófaklappi.


7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.


8. Kosning  um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands (6)
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Helgi Eggertsson, Sveinn Steinarsson,  Þuríður Einarsdóttir, María Þórarinsdóttir, Bertha Kvaran og Sigurður Kristinsson. Til vara verði, Bjarni Þorkelsson, Jón Jónsson og Gísli Kjartansson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda (11).
Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti  aðal- og varastjórn HS, Helgi Eggertsson, Bjarni Þorkelsson og Bjarni Sigurðsson. Til vara, Kári Arnórsson, Gunnar Dungal, Svanhildur Hall, Gunnar Arnarson og Már Ólafsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


10. Kynning á Heimarétt í Worldfeng / Hallveig Fróðadóttir
Hallveig kynnti heimaréttina og fór yfir helstu aðgerðir s.s. eigendaskipti, folaldaskýrslu og afdrifaskráningu.


11. Tillaga frá stjórn HS lögð fram og kynnt
Sveinn Steinarsson kynnti tillöguna:


Tillaga frá stjórn HS
Aðalfundur HS haldinn í félagsheimili hestamannafélags Sleipnis, Hliðskjálf, þann 23. mars 2010.  Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin varðandi landsmótahald skorar aðalfundur HS á forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands, Félags hrossabænda  og Landsambands hestamannafélaga að efna til ráðstefnu hið fyrsta um hvernig staðið skuli að staðarvali og landsmótahaldi til framtíðar.


Greinargerð með tillögu
Skiptar skoðanir eru meðal hestamanna um afgreiðslu stjórnar LH á staðarvali fyrir landsmót 2012. Stjórn LH ákvað í lok síðasta árs að að hefja viðræður við Hestamannafélagið Fák um  Landsmót 2012. Stjórn LH og Hestamannafélagið Fákur skrifuðu síðan undir undir samstarfssamning, þann 5. mars sl., um að Landsmót hestamanna árið 2012 verði haldið á félagssvæði Fáks í Víðidal. Ekki er um það deilt að það var stjórnar LH að gera upp á milli þeirra staða sem sóttust eftir því að halda Landsmót 2012. Hins vegar er veruleg óánægja með það hversu lengi það var dregið að ákveða við hvern yrði samið. Það átti að taka ákvörðun í júní 2009 en stjórn LH virðist ekki hafa virt það.


(Sjá þingskjal nr. 16 frá síðasta LH þingi á Kirkjubæjarklaustri).
„Nefndin leggur fram breytingartillögu 16a. Þar er lagt til að ákvörðun um landsmótsstað
liggi fyrir að minnsta kosti 5 árum fyrir mót. Samningar skulu vera frágengnir og
undirritaðir minnst þremur árum fyrir mót. Ef samningar nást ekki skal staðarval
endurskoðað.
– Þingskjal nr. 16a borið undir atkvæði og samþykkt gegn örfáum mótatkvæðum –„)


Hvers vegna var ekki farið að þessari samþykkt? Ljóst má vera á viðbrögðum hestamannafélaga í LH að þessa hluti á eftir að ræða og fá botn í. Ef til vill þyrftu  fleiri að koma að samningaborðinu þegar valið er á milli landsmótsstaða.


Á Búnaðarþingi í Bændahöllinni í Reykjavík dagana 28. feb.-3. mars sl.var fjallað um þetta mál. Þar var eftirfarandi samþykkt:


„Erindi frá Félagi hrossabænda
Landsmót hestamanna
Búnaðarþing ályktar að stjórn Bændasamtaka Íslands beiti sér fyrir því að landsmót hestamanna verði haldin í dreifbýli, til skiptis á Norður- og Suðurlandi.


Greinargerð
Eftir reynslu undanfarinna ára hefur hið almenna viðhorf verið að farsælast væri að sameinast um tvo mótsstaði, einn fyrir sunnan og annan fyrir norðan. Þannig náist best nýting fjármuna og mannvirkja.
————
Ályktun


Landsmót hestamanna
Búnaðarþing 2010 ályktar að stjórn Bændasamtaka Íslands beiti sér fyrir því að landsmót hestamanna verði haldin á landsbyggðinni. Landsmótsstaðir verði tveir, Vindheimamelar í Skagafirði og Gaddstaðaflatir við Hellu.


Jafnframt að skoðað verði hvort ástæða sé til að endurskoða núverandi tilhögun landsmóta með því að skilja sýningarhald kynbótahrossa frá núverandi fyrirkomulagi og halda sér landsmót fyrir kynbótageirann.


Ágúst Rúnarsson, Baldur Grétarsson, Guðrún Sigurjónsdóttir, Hörður Hjartarson, Sigbjörn Björnsson. „


Það má ljóst vera að töluverð ólga er meðal hestamanna um staðarvalið. Landsmót í þeirri mynd og af þeirri stærðargráðu sem hestamenn hafa staðir fyrir í seinni tíð eru einstakir viðburðir sem við hestamenn getum verið ákaflega stoltir af. Þó að vissulega sé alltaf eitthvað á hverju móti sem betur má fara. Það má öllum ljóst vera að það er mikið verk að koma öllum þeim viðburðum fyrir á dagskrá landsmóta innan þess tímaramma sem því eru sett. Það reynir því á góða samvinnu milli þeirra aðila sem að mótinu standa.


Það er skoðun stjórnar HS að aðalfundur HS þurfi að taka afstöðu til þess hvort þeir vilji hafa einn landsmótsstað á Suðurlandi, þannig hægt sé að horfa til framtíðar með uppbyggingu á staðnum.


12. Umræður og afgreiðsla
Bjarni Þorkelsson. Fundarstjóri,  góðir fundarmenn.
Ég vil byrja á því að fagna þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Fyrri hluti hennar , sem snýr að því  að efnt skuli til ráðstefnu um  landsmótshaldið, er í fullu samræmi við þær hugmyndir sem ég viðraði  á landsþingi  LH á Kirkjubæjarklaustri í október 2008, af fullri yfirvegun og í vinsemd og bróðerni.  Þótt ég sé þess ekki fullviss að inntak tillögunnar eigi jafn vel við núna eins og mér fannst þá, get ég ekki annað en tekið ofan fyrir þeirri bjartsýni og sáttahug sem innihald hennar lýsir. Þótt mínar hugmyndir féllu í grýtta jörð á sínum tíma, má kannski binda vonir við að önnur verði raunin nú.
Tilefnið að mínum tillöguflutningi var að vísu ekki staðarval landsmóta, heldur miklu frekar  sú staðreynd að dagskrá landsmóta er ofhlaðin –  mörgum sjálfsögðum og gamalgrónum dagskráratriðum landsmóta hefur þurft að ýta  út  og önnur eru að verða hornreka í þeirri tímaþröng sem skapast hefur.
Það hefur hins vegar margt verið skrafað og skrifað um staðarval  Landsmóta  að undanförnu.  Ég tel að vakinn hafi verið upp draugur.  Draugur sem hefur lítt verið á sveimi að minnsta kosti síðasta áratuginn, draugur  sem tækifæri hafði skapast til að kveða niður og kyrrsetja með yfirsöng og signingu, ef vilji hefði staðið til. Þessi draugur gengur nú ljósum logum um samfélag okkar hestamanna og eirir engu, situr raunar klofvega á hryggjarstykkjunum í félagskerfinu og ber ákaft fótastokkinn.
Það er spurning hvort það er einhver  ástæða til þess fyrir okkur Sunnlendinga að láta það dragast að taka afstöðu til þess hvort við viljum hafa einn landsmótsstað á Suðurlandi. Er ekki  tími til kominn að taka af skarið og nesta okkar tilvonandi fulltrúa á  ráðstefnuna sem við erum að biðja um?
Um leið og ég mæli með því að  tillaga stjórnarinnar verði samþykkt,  vonast ég til þess að hér fari fram umræða um það hver yrðu næstu skref í málinu. Í trausti þess að svo verði ætla ég að geyma mér að koma með ákveðna tillögu þar að lútandi. Ég ætla þó  að minna á nokkur  grundvallaratriði sem slík tillaga þyrfti að mínu mati að fela í sér:


1. betur tryggð nýting mannvirkja  og  að hyggilega sé farið með fé.
2. gætt  landsbyggðarsjónarmiða
3. höggvið á staðarvalshnútinn hvað okkur Sunnlendinga varðar
4. betur tryggður  rekstrargrundvöllur landsmóta með tilliti til fyrri reynslu um aðsókn og miðasölu
5. komið til móts við kostnaðar- og umhverfissjónarmið vegna hrossaflutninga
6. komið til móts við eindregnar óskir mótsgesta um útilegu- og landsmótsstemningu

Að gefnu tilefni langar mig að rifja upp nokkur  þeirra 40 mála sem komu til kasta Búnaðarþings 2010 og getið er um í Bændablaðinu  11. mars 2010. Hér verður bara stiklað á stóru, vonandi þó nægilega til að sýna fram á þau fjölþættu málefni sem Búnaðarþing lætur sér við koma í hagsmunaskyni fyrir landbúnaðinn og bændastéttina.

Búnaðarþing vill draga ESB – umsókn til baka   
Fyrirhugaðri sameiningu ráðuneyta mótmælt  
Háhraða netsamband í dreifbýli
Hnitsetning á landamerkjum jarða
Raforkuverð
Fjármál bænda og krafa um tafarlausar leiðréttingar á lánum þeirra
Verð og birgðahald á  dýralyfjum , dýralæknaþjónusta í dreifbýli
Landbúnaðarháskóli
Orlofsíbúðir BÍ
Lög og reglur um búfjárhald
Skilgreining á ræktunarlandi og kornrækt
Búnaðarlagasamningur
Varnarlínur vegna búfjársjúkdóma
Tímasetning Búnaðarþings með tilliti til fundahalda í búgreinafélögum í aðdraganda Búnaðarþings.
Uppruni íslenskra búfjárstofna
Ályktun um Landsmót hestamanna, þar sem haldið er á lofti landsbyggðarsjónarmiðum og  hvatt til ábyrgrar meðferðar fjármuna og betri nýtingar mannvirkja – með því að festa í sessi  tvo landsmótsstaði, Gaddstaðaflatir og Vindheimamela. Þá ályktar Búnaðarþing að skoðað verði hvort ástæða sé til þess að endurskoða núverandi  tilhögun landsmóta.
Síðast  en ekki síst af verkefnum Búnaðarþings vil ég nefna:  Afhending landbúnaðarverðlauna til  bændanna á Grænhóli og Hrauni á Skaga.

Ég leyfi mér að nota tækifærið –  ég  vona að ég megi gera það í nafni fundarins – að færa  þeim Gunnari og Kristbjörgu  innilegar hamingjuóskir með viðurkenninguna.  Þetta síðastnefnda  viðfangsefni  og útspil Búnaðarþings er  auðvitað stórkostleg viðurkenning fyrir hrossaræktina sem búgrein, eins og fram mun hafa komið í ræðu Gunnars Arnarsonar við þetta tækifæri.  Það er full ástæða til þess fyrir okkur hrossabændur að fagna þeirri athygli sem Búnaðarþing hefur að þessu sinni veitt búgreininni okkar, íslenskri  hrossarækt. Vil ég hvetja fundarstjóra til þess að íhuga hvort fundurinn ætti ekki að senda frá sér ályktun í þessum anda.

Kristinn Guðnason óskaði fjölskyldunni á Grænhól og hestamönnum öllum innilega til hamingju með landbúnaðarverðlaun 2010 sem veitt voru við setningu Búnaðarþingi 28. febrúar. Félag hrossabænda væri orðið fjölmennasta búgreinafélagið innan Bændasamtaka Íslands. Fagnar tillögunni og er sammála Bjarna Þorkelssyni.

Jón Vilmundarson óskaði þeim hjónum á Grænhól til hamingju með viðurkenninguna. Lýsti fullum stuðningi við tillöguna og sagðist sammála Bjarna Þorkelssyni og Kristni Guðnasyni. Stjórn BÍ mun nýlega hafa lagt til að Bændasamtökin haldi sér mót á hverju ári fyrir kynbótahross. Slíkt væri algjör stefnubreyting og þyrfti að ræða vandlega áður en ákvörðun væri tekin.

Gunnar Arnarson, þakkað hlý orð í sinn garð, vissulega væru þau stolt af þessari viðurkenningu en þetta væru fyrst og fremst verðlaun búgreinarinnar í heild. Hann sagði að Jón Bergsson á Ketilsstöðum hefði komið upp í hugann því hann hefði verið með þeim fyrstu sem reyndi að lifa af hrossarækt.
Hann sagði að hringvalla hugmyndin hugnaðist sér ekki. Með henni væri ekki verið að leggja betra mat á kynbótagildi gripanna. Hrossin yrðu að vera meira taminn og kæmu því síðar til dóms. Hægt væri að breyta þeim brautum sem fyrir væru og gera þær hestvænni.
Landsmót væri mikilvægur markaðsgluggi fyrir greinina. Hann sagðist hafa fylgst mikið með mótahaldi í gegnum tíðina. Áhugi á keppni væri gríðarlega mikil erlendis og þar væri magnað fólk við stjórnvölinn. HM í Sviss hefði verið magnað mót og frábærlega að öllu staðið. Hesthús fyrir 300 hross og reiðgötur um allt. Áhorfendur hefðu mátt vera fleiri en Íslendingar voru örfáir á mótinu. Þegar svona mót er búið hverfur allt nema hugsanlega vellirnir. Nú eru uppi stórar hugmyndir um mót í Berlín, hann sagðist sannfærður um að það yrði vendipunktur í hestamennsku á heimsvísu. Stóra stökkið í Evrópu og víðar. Verðum að vera opin fyrir framþróun í mótahaldi. Tímabært að skoða mótahaldið. Ná sáttum í minnsta kosti 10 ár. Verðum að hugsa um velferð hrossanna. Til hvers að vera að veltast með 80% hrossanna norður í land, mikil breyting frá því sem áður var. Er réttur Sunnlendinga ekki bara orðinn meiri en Norðlendinga. Hægt að vera með mót í Víðidal 2012, og síðan á Gaddstaðaflötum 2014 og 2016. Nauðsynlegt að skoða þetta frá öllum sjónarhornum í sátt. Þurfum að hafa mótin markaðsvæn og þannig að hægt sé að reka þau. Kannski hefðu hrossabændur heldur átt að fá þann pening sem hestamannafélögin fengu til að reisa reiðhallir um allt land. Ingimar Baldvinsson, innilega til hamingju með aðstöðuna í Hólaborg, það þarf kjark til að fara í slíkar framkvæmdir. Verum framsýn og skoðum öll sjónarmið.

Ingimar Baldvinsson sagðist að mörgu leiti sammála vangaveltum Gunnars Arnarsonar, hann væri þó hlynntur tilraun með hringvallareið og myndi mæta með sín hross á síðsumarsýninguna á Gaddstaðaflötum. Það væri markaðsvænna að sýna á hringvelli, því við værum að rækta keppnishross. Sagði að LH hefði ekki staðið lýðræðislega að vali á landsmótsstað og hann væri ósáttur við það. Staðarval þyrfti að fara fram með öðrum hætti framvegis.

Kári Arnórsson lýsti stuðningi við tillöguna. Hann sagði að Gunnar hefði lýst þróun í mótahaldi erlends. Hann minntist á að megnið af hrossunum væri Sunnanlands. Er ekki kominn tími á einn þjóðarleikvang fyrir íslenska hestinn. Verðum að leggja niður hrepparýg. Verðum að hafa í huga sjónarmið þeirra sem eru að sýna hross. Milli landsmóta hægt að vera með mót víða um land. Endilega stefnum á einn þjóðarleikvang!

Haraldur Þórarinsson byrjaði á því að óska hjónunum á Grænhól til hamingju með viðurkenninguna. Varðandi val á landsmótsstað árið 2012 væri verið að hnjóða í LH en því vildi hann mótmæla. Hjörný Snorradóttir hefði verið að vinna að rannsókn á landsmótsstöðum en þeirri vinnu hefði seinkað. LH hefði viljað vanda valið og hinkra með að taka ákvörðun þar til niðurstöður úr þessari rannsókn lægju fyrir. Búið væri að taka út landsmótsstaði víða um land. Hvatti menn til að horfa á viðburði í staðinn fyrir svæðin, taka þyrfti tillit til margra þátta. Til stæði að halda ráðstefnu þann 21. maí þar sem 5 hópar saman settir af knöpum, ræktendum, ferðaþjónustuaðilum og hestamönnum yrðu búin að vinna saman til að koma með innlegg á ráðstefnuna. Hestamenn væru ein stór fjölskylda. Það væru nú ekki nema 60 ár síðan BÍ hefði ekki viljað sjá hrossaræktina. Horfum á heildarhagsmuni en ekki sérhagsmuni!

Hrafnkell Karlsson taldi rétt að hafa í huga að við værum ein stór fjölskylda. Fjöldi félagsmanna í FH  væri einnig í LH. Verðum að gæta þess að taka tillit til hvers annars.

Bjarni Þorkelsson sagðist fyrr hafa heyrt Harald Þórarinsson taka vel í að halda ráðstefnu um landsmót  en ekkert gerðist.

Haraldur Þórarinsson sagði að það væri vegna þess að menn hefðu bara kallast á.

Kristinn Guðnason, hringvallarfyrirkomulagið er hugmynd fagráðs og kominn fram fyrst og fremst til að gera sýningarnar hestvænni. Með því að gera tilraun á Gaddstaðflötum í ágúst verða bæði þeir sem eru með og á móti að taka þátt. Spurning hvort setja á tímamörk frekar en ferðafjölda. Það verður erfiðara að fylgjast með ferðum á hringvellinum. Verðum að setjast niður og  ræða framtíð landsmóta. Væri ánægðastur með einn þjóðarleikvang, næsti kostur eru tveir staðir. Erum það ekki við öll sem höldum þessi mót. Nokkur ár eru síðan Landsmót ehf var stofnað. Hugmyndin var að allir kæmu að þessu þ.e. FH, FT, LH, BÍ og ferðaþjónustan. Úr því varð ekki eins og menn þekkja. Nýverið hefði verið skipt um stjórn í Landsmóti ehf. Það hefði gengið illa að þróa þetta fyrirtæki. Hvort hlutirnir væru lýðræðislegir, það hlýtur að vera eðlilegt að rætt sé við alla rekstraraðila þó svo þeir eigi einungis 1/3 í fyrirtæki. Þýðir ekki að ræða um ráðstefnuna núna því það er alltof seint. Í fagráði eftir LM 2008 var rætt hvað gera þyrfti til að bæta landsmótin. Fagráð vildi koma með innlegg á ráðstefnuna sem aldrei varð af. Félag hrossabænda kom með tillögu um að skipta landsmótinu upp en það var aldrei annað en hugmynd hjá þeim róttækustu. Skoðun keppenda að hesthús þurfi að vera á staðnum er þá ekki hægt að setja upp slíka aðstöðu eins og var á HM í Sviss sl. sumar.
Sveinn Steinarsson þakkaði góðar umræður, það hefði greinilega skilað einhverju að stjórn HS skyldi taka einhverja afstöðu í þessu máli. Hann taldi rétt að slíðra sverðin og ræða málin. Sveinn bað um frekari skýringar á þessari hópavinnu sem LH ætlaði að fara í.

Haraldur Þórarinsson sagði að hóparnir myndu vinna úr spurningum sem þeim yrðu afhentar.

Ólafur Einarsson beindi þeirri spurningu til Haraldar hvort það vekti ekki ugg hjá honum og stjórn LH að 27 hestamannafélög hefðu mótmælt hvernig hefði verið staðið að staðarvali fyrir LM2012.

Haraldur Þórarinsson sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af því að það væri verið að sundra félagsmönnum. Mótmælin hefðu einfaldlega átt að berast fyrr.

Kristinn Guðnason sagði að mikið hefði verið talað um rannsóknina hennar Hjörnýjar og úttekt á landsmótsstöðum. Til hvers er verið að taka út staði sem kannski fá að halda landsmót eftir 20 ár eða meira? Hrossaræktendur þurfa að nýta sína fjármuni vel, verðum að halda áfram að styrkja rannsóknir. Landsmót á Íslandi eiga að gerta rekið sig með sóma.

Guðmundur Viðarsson spurði Harald hvort hann teldi að Landsmót ehf ætti rétt á sér.

Haraldur Þórarinsson sagði að þetta væri góð spurning. Nú vildi enginn koma að landsmóti af því þetta væri ehf. Allir þyrftu að hafa eitthvað út úr fyrirtækinu. Umræða um það á fyllilega rétt á sér.

Guðmundur Viðarsson sagði að sér þætti súrt að það sem miður hefði farið á LM2008 væri klínt á heimamenn. Þeir hefðu t.d. ekkert haft um það að segja að ekki væri selt inn á tjaldstæðið. LH –menn væru ekki að bakka menn upp.

Hrafnkell Karlsson las aftur upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Sveinn Steinarsson sagð að það væri skoðun stjórnar HS að aðalfundur HS þyrfti að taka afstöðu til þess hvort það eigi að hafa einn landsmótsstað á Suðurlandi og hvort hann eigi að vera Gaddstaðaflatir? Eftirfarandi tillaga kom frá stjórn:


Aðalfundur HS haldinn í félagsheimili hestamannafélags Sleipnis, Hliðskjálf, þann 23. mars 2010. Stjórn  beinir því til félagsmanna sinna að taka afstöðu til þess hvort Sunnlendingar eigi að sameinast um einn landsmótsstað á Suðurlandi og hvort hann eigi að vera Gaddstaðaflatir. Það er nauðsynlegt að velja stað til langs tíma svo hægt sé að nýta þá fjármuni betur sem settir eru í jafn umfangsmikla uppbyggingu og  þarf þegar búið er til landsmótssvæði.
 
Greinargerð:
Það hefur verið leitað til stjórnar HS með óformlegum hætti og óskað eftir afstöðu stjórnar á vali á landsmótsstað 2012 og einnig til framtíðar. Hluti stjórnar vill  taka afstöðu með Gaddstaðaflötum, þannig að eðlilegast er að leggja það fyrir aðalfund HS og fá afstöðu aðalfundar. Framundan eru umræður  um fyrrkomulag og staðarval landsmóta. Það væri því gott fyrir stjórn HS að fá afstöðu aðalfundar HS á því hvort það sé vilji hans að Gaddstaðaflatir við Hellu sé sá landsmótsstaður sem þeir vilja sameinast um.


Haraldur Þórarinsson vildi minn fundarmenn á að svæðið næði frá Lómagnúp að Hvalfjarðarbotni.

Bjarni Þorkelsson taldi þetta ljómandi gott innlegg og í raun fela í sér hugmynd Kára Arnórssonar um einn þjóðarleikvang.

Sveinn Steinarsson sagðist halda að það róaði umræðuna ef fundurinn tæki afstöðu til þess.

Gunnar Arnarson taldi að til þess að fundurinn gæti ályktað í svo mikilvægu máli þyrfti að kynna það sérstaklega í fundarboði. Á fundinn vantaði mikið af félagsmönnum af Suðvesturhorninu.

Hrafnkell Karlsson sagði að það væri sjónarmið út af fyrir sig.

Jón Vilmundarson sagði að hans persónulega skoðun væri sú að landsmót á Suðurlandi ættu að vera á Gaddstaðaflötum en sagðist samt sem áður taka undir það sem Gunnar Arnarson hefði sagt. Tillögu sem þessa þyrfti að kynna sérstaklega í fundarboði.

Hrafnkell Karlsson sagði að staðan væri viðkvæm og þetta þyrfti að skoða vel.

Páll Stefánsson sagðist sammála Jóni og Gunnari í þessu máli. Ekki væri tímabært að taka ákvörðun um slíkt á þessum fundi. Hann myndi ekki styðja þessa tillögu.

Bjarni Þorkelsson sagði að sér þætti undarlegt að sunnanmenn mættu ekki á fundinn því það hlyti að hafa verið mönnum ljóst að þessi mál bæru á góma. Sagðist hafa verið tilbúinn með tillögu í þessa veru en ákveðið að bera hana ekki upp. Það væri sáttatónn í mönnum og því ekki rétt að bera hana upp.

Sveinn Steinarsson lagði til að tillaga yrði dregin til baka. Held þó að það hafi verið gott að hún var borin upp því hún væri gott veganesti í þá umræðu sem þyrfti að fara fram.


13. Önnur mál
Ingmar Baldvinsson skoraði á fagráð að skoða það að nota þá tækni sem til væri við kynbótadóma s.s. hraðamæla.

Bjarni Þorkelsson bar upp eftirfarandi tillögu:
 „Aðalfundur HS, haldinn á Selfossi 23. mars 2010, færir Gunnari Arnarsyni og Kristbjörgu Eyvindsdóttur, ábúendum á Grænhól í Ölfusi, hamingjuóskir með landbúnaðarverðlaunin 2010. Um leið fagna fundarmenn þeirri athygli sem Búnaðarþing hefur að þessu sinni veitt búgreininni, íslenskri hrossarækt.“

Hrafnkell Karlsson vildi taka undir hamingjuóskir til þeirra hjóna. Að því búnu las hann tillögu Bjarna upp og var hún samþykkt með lófaklappi. Hrafnkell vildi að lokum upplýsa þá fundarmenn sem hugsanlega vissu ekki hvernig það fjármagn sem HS ætti í sjóð væri til komið um að samtökin hefðu verið að bakka út úr miklum rekstiri og þannig væru þessir fjármunir tilkomnir. Aðalfundur hefði samþykkt árið 2008 að ekki mætti ganga á höfuðstólinn.

Kristinn Guðnason sagði frá því að Þorvaldur Kristjánsson væri með rannsókn í gangi sem hugsanlega yrði hægt að nýta seinna meir við kynbótadóma. Fagráð væri opið fyrir því að nýta sér nýja tækni. Að lokum sagði hann að þó svo rannsókn Hjörnýjar væri ekki lokið hefði hún komist að því að hinn almenni hestamaður vildi að landsmót væru haldin á landsbyggðinni en knapar væru hlynntari Reykjavík.

Sveinn Steinarsson þakkaði fundarmönnum og starfsmönnum fundarins fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 23:00

/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top