Heymiðlun vegna eldgossins

Á vegum samtaka bænda og sveitarfélaganna Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps hefur verið sett á fót heymiðlun með það að markmiði að tryggja þeim bændum sem ekki hafa aðstöðu til þess að afla þeirra viðbótarheyja sem þarf vegna tjónsins af völdum gossins aðgang að góðu heyi.

Auglýst var 18. maí eftir aðilum sem væru tilbúnir til að leggja fram hey ef til kæmi. Niðurstaðan var að fjölmargir aðilar gáfu sig fram. Allt að 4000 rúllur af kúgæfu gæðaheyi er til reiðu. Af viðbrögðum má einnig ætla að menn séu tilbúnir að framleiða um 12.000 rúllur af gæðaheyi í sumar.


Heymiðlunin hefur nú á skrá um 60 aðila sem eru tilbúnir að selja fyrningar inn á gossvæðið og 22 aðila sem eru tilbúnir að heyja umfram eigin þarfir. Þessi listi á eftir að grisjast eitthvað eftir yfirferð MAST á því hvaðan leyfilegt verður að flytja hey. Gæði fyrninga eru misjöfn sem og stærð rúlla og ferbagga. Hugmyndir manna um verð á hverja einingu er því einnig mjög misjafnt. Við gerum ráð fyrir að það viðbótarhey sem verði aflað í sumar verði allt kúgæft hey.


Bændur á gossvæðinu sem sjá fram á vöntun á heyi fyrir veturinn geta fengið upplýsingar hjá heymiðluninni um mögulega seljendur að heyi sem hentar þeirra þörfum. Mismunandi kröfur kaupenda geta m.a. falist í orkugildi, stærð og gerð hverrar einingar, lágmarksfjölda og staðsetningu sölubúsins.


Telji seljandi heys sig ekki hafa gefið upp nægilega ítarlegar upplýsingar um það hey sem hann hefur til boða núna, er honum bent á að hafa aftur samband við heybankann til að koma betri upplýsingum á framfæri. Heymiðlunin hefur það hlutverk að koma á sambandi milli kaupanda og seljanda. Því betri upplýsingar sem hann hefur, því betri verður þjónustan. Frjálsir samningar verða síðan hin almenna regla um heykaupin.


Öllum þeim sem brugðust vel við auglýsingu samtaka bænda vegna heymála er þakkað sérstaklega. Framvinda málsins ræðst nú sem fyrr af þróun mála á gossvæðinu. Þá er þeim bændum sem vilja nýta sér þennan vettvang bænda að einhverju leyti bent á að hafa samband sem fyrst. Ef látið er vita tímanlega er líklegra að hægt sé að útvega gæðahey.


Nánari upplýsingar gefa Runólfur Sigursveinsson hjá BSSL, Borgar Páll Bragason hjá BÍ sem eru faglegir ráðgjafar og Sveinbjörn Jónsson (sími 862-1814) sem mun annast heymiðlunina. Í næstu viku eru ætlaðir kynningarfundir með bændum á gossvæðinu um heymálin og í leiðinni munu fulltrúar Landgræðslunnar verða til svara um ástand á heiðum og beitarlöndum sauðfjár.


back to top