Formannafundur 2002

Fundargerð formannafundar Búnaðarsambands Suðurlands 2002.

Haldinn 27. nóvember 2002 á Hótel Selfossi.

Fundarsetning.
Þorfinnur Þórarinsson, formaður BSSL., bauð fundarmenn velkomna og kynnti dagskrá fundarins.  Hann gerði að umtalsefni slæmar horfur á kjötmarkaði og hjá íslenskum blómaframleiðendum.  Þorfinnur benti á að ferðaþjónustan í landinu væri annar stærsti tekjuliður þjóðarinnar og aukning sé framundan.  Þetta þurfi bændur að hafa í huga þegar breytingar eru fyrirsjáanlegar í hefðbundnum greinum landbúnaðarins.  Hann ræddi einnig um umhvefismál og að bændur sem vörslumenn landsins eru mikilvægir þegar hættan á smitsjúkdómum eykst samfara auknum ferðamannastraumi.  Þorfinnur skýrði fundarmönnum frá mjög jákvæðum fréttum í sölu lambakjöts á bandaríkjamarkaði og hugsanlegri nýtingu á íslensku byggi til notkunar í lyfjagerð.  Hann gerði að tillögu sinni að Eggert Pálsson yrði fundarstjóri og Unnsteinn Eggertsson fundarritari og samþykkti fundurinn þá skipan.

 
Af starfsemi Búnaðarsambandsins.
Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdasjóri Bssl., skýrði frá breytingum á húsnæði Bssl og nýju nafni á því, en það ber heitið Búnaðarmiðstöð Suðurlands í daglegu tali nefnt Búnaðarmiðstöðin.  Hann fór yfir helstu atriði varðandi rekstur fyrirtækja Búnaðarsambandsins á undanförnum mánuðum og væntingar um rekstrarniðurstöðu þeirra í árslok.  Sveinn fór í meginatriðum yfir starfið í búgreinunum.  Í því sambandi sagði hann stöðu svínabænda hafa gjörbreyst á undanförnum árum á verri veg fyrir bændur.

Sveinn ræddi um styrki til þróunarverkefna og beindi spurningu til Sigurgeirs Þorgeirssonar, frkvstj. BÍ varðandi það hve mikil nýtingin sé í einstökum verkefnaflokkum, þ.e. hve mikil uppsöfnum vannýtra fjármuna er orðin.

Sveinn fór yfir breytingar á starfsliði Bssl. og gerði að umtalsefni aukinn kostnað við dreifingu á fréttabréfi Bssl. vegna hækkunar á póstburðargjöldum.

Gjaldskrármál, námskeið.  Sveinn sagði það umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að taka gjald fyrir þá þjónustu Bssl. sem tekjur af búnaðargjaldi og framlög ríkisins ná ekki að dekka og nefndi ómmælingar sem dæmi.  Hann sagði mörg önnur búnaðarsambönd vera lengra komin í gjaldtöku.  Hann skýrði frá því að Upplýsingatækni í dreifbýli (UD) styrkir námskeiðahald fyrir bændur þar sem kennd er notkun á forritum, t.d. Word og Excel, dkBúbót og NPK.

 
Námsferð ráðunauta til Danmerkur í nóvember sl.

Sveinn Sigurmundsson, frkvstj. Bssl. sagði miklar breytingar hafa átt sér stað í danskri nautgriparækt á undanförnum árum og kynnti margvíslegar tölulegar staðreyndir um danska og íslenska nautgriparækt.  Þar kom m.a. fram að dönsk mjólkurframleiðsla nemur um 4.300 milljónum lítra sem er 40 sinnum meira en á Íslandi.  Hann dró einnig upp mynd af skipulagi ráðunautakerfisins og þar kom fram að 80% af tekjum ráðgjafamiðstöðvanna er í formi útseldrar þjónustu.  Ráðunautar þar eru orðin mjög sérhæfðir í störfum sínum.

Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur skýrði frá starfsemi ráðgjafamiðstöðvar í Viborg sem er alfarið í eigu bænda.  Þar geta bændur valið um mismunandi þjónustustig og heimsóknir ráðunauta til bænda eru unnar á mjög markvissann hátt.  Aðgengi að nýjustu upplýsingum er lykilatriði í starfseminni og eftirfylgni er mikilvægur hluti af starfi ráðunautanna.

Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur lýsti starfsumhverfi danskra bænda.  Þeir búa við mun minna landrými er bændur hérlendis og eru bundnir af mengunarkröfum með fjölda gripa.  Framlegð er svipuð þar og hjá okkur eða á milli 60-70%.  Danskri bændur einbeita sér að starfinu í fjósinu og nota aðkeypta vinnu í miklum mæli.  Skuldsetning er mikil hjá dönskum bændum og lánakjör svipuð og hérlendis.  Hann fór yfir upplýsingar um afurðaverð hjá dönum og styrki vegna jarðræktar sem þeir fá frá ESB.  Guðmundur rakti þá liði sem bændur greiða fyrir í starfsemi ráðgjafamiðstöðva og nefndi þar skýrsluhald og áætlanagerð.  Búfræðimenntun er skilyrði í Danmörku, ætli menn sér að fara út í búfjárrækt.

Pétur Halldórsson, ráðunautur fór yfir breytingar á sérhæfingu danskra ráðunauta frá árinu 1975.  Nýir ráðunautar fá sérstaka þjálfun áður en þeir taka til starfa.  Hann vakti athygli á þróun í fjósbyggingum og talda aukna sérhæfingu framundan hjá íslenskum ráðunautum og þ.a.l. þarf meiri endurmenntun að koma til.

 
Framtíðarhorfur í íslenskum landbúnaði með tillti til alþjóða og verðlagsmála.

Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri BÍ, þakkaði framkomin erindi og fyrir að vera boðinn til fundarins.  Hann svaraði fyrirspurn Sveins og sagði 30 milljónir vera til ráðstöfunar frá árinu 2001.  55 milljónir eru lagðar til verkefna fyrir árið 2002 og eru þannig 85 milljónir til ráðstöfunar í heild.  Hann gang mála í gæðastýringur í sauðfjárrækt, en verkefninu hefur verið frestað til árins 2004 og verður tíminn notaður til frekari undirbúningsvinnu.  Sigurgeir rakti skuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), en leyfilegur stuðningur, þ.e. framleiðslustyrkir og innflutningsvernd má ekki fara yfir 13,5 milljarða á ári.  Ísland er í dag með sinn stuðning við þessi mörk.

EES-samningurinn frá 1994 er útrunninn og ný samningalota er hafin.  Nýr samningur gæti tekið gildi árið 2005 og gilt í 10 ár.  Sigurgeir sagðist sannfærður um að krafan verði sú að stuðningur við landbúnað lækki um 20-25%, en einnig er krafa hér innanlands mikil um lækkun og jafnvel meiri en hjá alildarþjóðunum.

Sigurgeir rakti áhrifin á finnskan landbúnað við inngöngu þeirra í ESB árið 1995.  Verð til framleiðenda lækkaði samstundis um 50% og teknir voru upp meiri styrkir.  Tekjur að frádregnum gjöldum hjá finnskum bændum hafa lækkað um 19% og tekjur bænda um meira en 5%.  Aðrir þjóðfélagsþegnar hafa hækkað um 25% í tekjum.  Þessi þróun hefur verið erfið fyrir finnska bændur þrátt fyrir að hagræðing hafi átt sér stað í fækkun og stækkun búa.  Stuðningur frá ESB er í raun mjög lítill miðað við styrki frá finnska ríkinu.  Hann skýrði frá framgangi stækkunar ESB til austurs og frá endurskoðun á landbúnaðarstefnu ESB sem Íslendingar þurfa að fylgjast með og aðlaga sig að.  Hann fór yfir verðlagsmál í Noregi, Danmörku og Íslandi skv. upplýsingum frá Eurostat.

Sigurgeir gerði að umtalsefni stöðuna á kjötmarkaðinum og sagði ógn stafa að innanlandsaðstæðum, a.m.k. til skemmri tíma litið.  Hann sagði aukningu á kjötframleiðslu í kjúklingum og svínum vera á óeðlilegum forsendum og offramleiðslan kæmi til með að þýða verðfall á öllu kjöti allt næsta ár, ef allt fer fram sem horfir.  Hann brýndi fundarmenn til að hafa áhrif á SS til að draga úr áformum sínum og skýrði frá því að Bændasamtökin hafa rætt við Móa um málið.  Framleiðslan í þessum greinum er nú rekin með halla.

 
Umræður.
Fundarstjóri gaf orðið laust til að ræða framkomin erindi.

Sigurður frá Villingavatni spurði hvort ráðunautar hefðu kynnt sér sveiflur á hitastigi í Danmörku í tengslum við búfjárræktina þar.  Runólfur sagði Dani hafa aukið við maísræktunina sem ber vott um hlýrra loftslag þar, en ekki hefði sérstaklega verið aflað upplýsinga um hitastig í Danmörku á undanförnum árum.

Guðmundur frá Stekkum þakkaði framkomin erindi og sagði mikilvægt að sækja þekkingu erlendis.  Hann spurði hvað Bssl. hefur hugsað sér að gera við þessa þekkingu og upplýsingar?  Hann var sammála því að þrýstingur innanlands sé alvarlegri en krafa aðildarþjóða, en spurði jafnframt hvað Bændasamtökin ætli sér að gera varðandi stöðuna sem komin er upp á kjötmarkaðinum?

Daníel í Akbraut spurði um endingu danskra kúa.

Egill á Berustöðum spurði um hvers konar rekstrarform er á ráðgjafamiðstöðvunum, þ.e. hvernig fjárhagslegri ábyrgð er háttað og hvernig vaxtakjör eru í Danmörku.  Hann beindi spurningu til Sigurgeirs um þróunarféð, þ.e. þarf að taka samninginn til þess að búa til nýjan flokk og nefndi þar sérstaklega frárennslismál í sveitum.

Sveinn Sigurmundsson.  Hann sagði endingu mikilvæga í kynbótastarfinu í Danmörku og einnig heilsufarsskráningar gripanna.  Ráðgjafamiðstöðvarnar eru í eigu bænda eingöngu og er framkvæmdastjórar þeirra einu starfsmennirnir sem ekki selja út þjónustu.  Hugmyndafræðin gengur út á að reka þessar stöðvar á rekstrarjafnvægi, þ.e. á núllinu.  Hann sagði vinnubrögð starfsmanna miðstöðvanna markviss og að við getum nýtt okkur ýmislegt í þeirra starfsemi.

Guðmundur Jóhannesson.  Hann sagði endingu mjólkurkúa í Danmörku vera um 2-3 mjólkurskeið sem er svipað og hérlendis.  Í Danmörku er um að ræða niðurgreidda vexti og þar reka lánasjóðirnir sig ekki með hagnaði og taka vextirnir mið að því.

Sigurgeir Þorgeirsson.  Hann sagði ungbændur í Danmörku eiga kost á niðurgreiddu lánsfé.  Sigurgeir sagði heildsöluverðlagningu verða gefna frjálsa hérlendis árið 2004.  Sú ákvörðun var kærð til Samkeppnisstofnunar sem sagði ákvörðunina ekki standast samkeppnislög, en þar sem um sérlög sé að ræða hafi stofnunin ekki lögsögu í málinu.  Hann taldi þetta atriði eiga eftir að gera samningamálin erfiðari við gerð næsta búvörusamnings.  Bænda treysti á að aðilar vinnumarkaðarins verði þátttakendur við stefnumótun nýs búvörusamnings, en þeirri vinnu verði að öllum líkindum ekki lokið fyrir kosningar.  Varðandi kjötmarkaðinn sagði Sigurgeir að þar hefði BÍ ekkert boðvald, en ljóst er að menn hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og vitnaði í þar í fund Búnaðarráðs.  Hann sagði ekki endanlega ljóst hvernig lamba- og nautkjötsframleiðendur fari út úr þessu.  Sigurgeir benti á að sauðfjárbændur þurfa að hugsa um að hafa lömb til slátrunar í ágúst til útflutnings.  Hann sagði nýja flokka vera að koma inn í þróunarverkefnin, t.d. kölkun jarðvegs og á von á því að uppsöfnun á styrkfé minnki á næstunni og þeir gangi e.t.v. að mestu út á næsta ári.

Birgir Guðmundsson, mjólkurbússtjóri MBF sagði í áliti samkeppnisstofnunar komi fram að stofnunin hefur ekki lögsögu í málinu varðandi frestun á heildsöluverði mjólkur, þar sem sérlög gangi framar.  Hann taldi eitt mjólkurbú ekki vera svarið við frjálsri heildsöluverðlagningu á mjólk vegna þess að slíkt fengi á sig einokunarstimpil og innflutningur mundi koma til.

Ágúst V-Fíflholti spurði um landvinninga í útflutningi á lambakjöti til Bandaríkjanna.

Sigurgeir sagðist hafa varann á sér með slík tíðindi, en skýrði frá því að aukningin sé til verðslunarkeðju sem býður upp á mikla þjónustu og framstilling sé vönduð.  Þar af leiðandi sé um að ræða dýra matvörukeðju.  Útflutningurinn hefur aukist um helming á þremur árum og viðkomandi keðja óski eftir meira magni.  Sigurgeir sagðist vona að þetta muni aukast og vonast er til að framlegðin af þessu útflutta kjöti verði sambærileg við innanlandsmarkaðinn.

 
Ný staða í þjóðlendumálum.
Björn Sigurðsson, bóndi í Úthlíð, rakti gang þjóðlendumála, en byrjað var í Árnessýslu.  Þjóðlendunefnd dró línu hjá um 70 jörðum og málið kom síðan til kasta Óbyggðanefndar.  Um 50 – 70% af þessum jörðum voru teknar undir þjóðlendur og bændur tóku í kjölfarið til varna.  Óbyggðanefnd var 2 ár að yfirfarið málið, en um er að ræða annars vegar eignalönd bænda og hins vegar afrétti sveitarfélaganna.  Nefndin úrskurðaði að þinglýstur eignarréttur skuli virtur, en í dag hefur ríkið áfrýjað málinu til hérarsdóms þar sem tekist er á um þennan rétt.  Björn sagði bændur tilbúna að fara með máli alla leið til Mannréttindadóms Evrópu.  Fyrir héraðsdómi verða tekknar fyrir um 10 jarðir sem allar eru í Biskupstungum.  Kostnaður við málareksturinn er kominn í 153 milljónir króna.

 
Umræður og önnur mál.

Fundarstjóri gaf orðið laust.

Páll á Mýrum sagði sinn skilning á þjóðlendumálinu vera þann að bændur ættu beitarrétt á afréttum.

Björn í Úthlíð sagði sveitarfélögin ekki eiga gögn yfir þinglýstan eignarrétt afréttanna og þá liti nefndin svo á að um væri að ræða þjóðlendur.

 
Fundarslit.

Þorfinnur Þórarinsson, formaður Bssl., þakkaði fundarfólki fyrir góðann fund og fyrirlesurum fyrir sín innlegg.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17.30

Unnsteinn Eggertsson, fundarritari.

back to top