Aðalfundur BSSL 2005

97. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn 20. apríl 2005 að Goðalandi, Fljótshlíð

1. Fundarsetning, Þorfinnur Þórarinsson formaður.
Þorfinnur setti fund og bauð sérstaklega velkomna forsvarsmenn Búnaðarsambands A.-Skaftafellssýslu. Þá minntist Þorfinnur látins félaga, Kristins Jónssonar fyrrv. ráðunauts. Kristinn hóf störf hjá BSSL strax eftir nám árið 1953 og starfaði á sviði jarðræktar þar til hann tók við starfi tilraunastjóra á Sámsstöðum 1963. Kristinn lést þann 12. apríl 2005. Fundarmenn minntust Kristins með því að rísa úr sætum.
Þorfinnur kynnti tillögu að starfsmönnum fundarins; Eggert Pálsson, Kirkjulæk sem fundarstjóra og þá Jóhannes Hr. Símonarson og Runólf Sigursveinsson sem fundarritara. Tillagan var samþykkt.

2. Skipan kjörbréfanefndar
Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að kjörbréfanefnd; Jón Jónsson, Prestsbakka, Kristinn Jónsson, Staðarbakka og Helgi Eggertsson, Kjarri. Tillagan var samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Þorfinnur Þórarinsson, formaður
Formaður fór yfir helstu verkefni stjórnar á liðnu starfsári en haldnir voru sjö stjórnarfundir, þar af einn á Hunkubökkum í Skaftárhreppi. Af helstu verkefnum stjórnar minntist Þorfinnur á árlegan formannafund búnaðar- og búgreinafélaganna í nóvember þar sem m.a. var rætt um íslenskan landbúnað í hlýnandi veðurfari. Stjórn og starfsmenn fóru í kynnisferð að Hvanneyri í nóvember og funduðu með Búnaðarsamtökum Vesturlands, skoðuðu nýtt kennslu- og rannsóknarfjós á staðnum og fóru að Tilraunabúinu að Hesti. Stjórnin fundaði með með nýjum rektor Landbúnaðarháskóla Íslands um framtíð Stóra-Ármóts í nýjum skóla og um endurmenntun til bænda.

BSSL tók við leiðbeiningaþjónustu og bókhaldi Búnaðarsambands A.-Skaftafellssýslu frá áramótum með sérstökum samstarfssamningi sem framlengist sjálfkrafa til eins árs í senn nema annar hvor aðili segi honum upp. Leiðbeiningastörfin eru að breytast í meira mæli yfir í rekstrarleiðbeiningar og fjármálaráðgjöf. Frumkvöðlanámskeið var haldið að frumkvæði Valdimars Bjarnasonar á Selfossi í janúar síðastliðnum. Námskeiðið þótti takast mjög vel. Reynt var að halda slíkt námskeið á Kirkjubæjarklaustri en ekki fékst næg þátttaka. Kúasýningin KÝR 2004 tókst mjög vel í ágúst og virðist þessi sýning komin til að vera. Á þessu ári er 100 ára afmæli Rjómabúsins á Baugsstöðum og verður þess minnst á ýmsan hátt. Þá hefur BSSL tekið að sér kynbótadóma á höfuðborgarsvæðinu og í A.-Skaftafellssýslu í vor.

Á Tilraunabúið að Stóra-Ármóti var á haustmánuðum settur upp búnaður til heilfóðrunar. Samstarf er við LBHÍ um rannsóknir á búinu og fram kom á í máli Torfa Jóhannessonar, rannsóknastjóra LBHÍ, á opnu fjósi að Stóra-Ármóti þann 1. apríl að Landbúnaðarháskólinn hefði áhuga á að fara í frekari rannsóknir þar.

Formaður greindi frá ferð formanna búnaðarsambandanna til Danmerkur og Noregs í byrjun apríl til að skoða uppbyggingu leiðbeiningaþjónustu þar. Íslenska leiðbeiningaþjónustan líkist nokkuð leiðbeiningaþjónustunni í Danmörku. Danskir bændur eru eigendur, notendur og viðskiptavinir þjónustunnar. Ráðgjafarnir eru óháðir og stefnt að núllrekstri í starfsseminni. Áhersla er lögð á einstaklingsráðgjöf og að ráðgjafar skoði reksturinn á vettvangi.

Kúa- og svínabúskapur eru langstærstu landbúnaðargreinarnar í Danmörku. Athygli vakti að ¾ hlutar mjólkurframleiðslunnar fer á erlendan markað og að meðalstærð kúabúa eru 95 kýr og 782.000 lítra kvóti. Gert er ráð fyrir mikilli fækkun kúabúa í Danmörku á næstu árum. Þau voru um 7.000 árið 2004 en reiknað er með að þau verði um 3.000 árið 2015. Afurðaverð í Danmörku er um 20 kr/l. ISK. Gert er ráð fyrir að svínakjötsframleiðslan á sama tíma verði svipuð og nú er. Í Danmörku eru aðeins tveir sauðfjárræktarráðunautar en þar er sauðfjárrækt aðeins stunduð sem frístundabúskapur með 12 ær að meðaltali á hverju búi.

Í Noregi er skipulag leiðbeiningaþjónustunnar með öðrum hætti. Landbúnaðarskrifstofa sveitarfélaganna sér um umsóknir og eftirlit með styrkjum. Afurðastöðvarnar sjá um leiðbeiningaþjónustuna auk þess sem starfandi eru ræktunar- og búfjárhringir meðal bænda. Um það bil helmingur af tekjum bænda kemur frá ríki. Bæði í Danmörku og í Noregi eru starfandi kvótamarkaðir en mismunandi reglur gilda í hvoru landi um sig um viðskipti með kvóta í mjólk.

Að lokum ræddi formaður sína framtíðarsýn. Breytingar í landbúnaði eru hraðari en oft áður. Hvernig á BSSL að bregðast við? Á það að fara út í að selja meiri þjónustu, s.s. á þjónustupökkum eða taka að sér fleiri verkefni. Bókhald og sæðingar fyrir bændur mjög hagkvæmt og ekki séð að það verði gert á betri hátt.
BSSL er vel í stakk búið að takast á við breytingar. Nú þegar er fyrirtækið deildarskipt og hver eining gerð upp sérstaklega. Hlutverk stjórnar er að fylgjast með nauðsynlegum breytingum og bregðast við þeim.

4. Reikningar Búnaðarsambands Suðurlands og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson
Framkvæmdastjóri fór yfir reikninga BSSL og dótturfélaga sem sjá má í ársriti BSSL 2004, 35. árgangi, bls.147-157. Tap ársins 2004 á samstæðureikningi BSSL, Stóra-Ármóts ehf. og dótturfélaga er 545.948 kr. Á árinu 2004 voru að meðaltali 28 starfsmenn þegar allt er talið og voru heildarlaunagreiðslur ársins um 80,5 milljónir króna. Eigið fé samstæðunnar er 106 milljónir.

Í máli frkv.stjóra kom fram að raunávöxtun á sjóðum samstæðunnar var 4,27% á liðnu ári en rætt hefur verið um að fjárfesta í öruggum verðbréfum sem hafa verið að gefa um 7% raunávöxtun. Frkv.stjóri fór yfir samsetningu tekna en 36% teknanna koma frá búnaðargjaldi. Frá ríki koma 34% tekna vegna launa, aksturs o.fl., húsaleiga skilar 5%, seld þjónusta 16% og annað 9%.

Bændabókhaldið stendur vel og styður við ráðgjöfina. Ráðgjöf vegna bókhalds í gegnum síma er gjaldfrjáls og mikið notuð.

Frkv.stjóri kynnti nýjan starfsmann, Grétar Má Þorkelsson fyrrverandi starfsmann hjá BASK sem kom til starfa í kjölfar samstarfssamnings milli BSSL og BASK frá sl. áramótum. Grétar er í hlutastarfi hjá Landgræðslu ríkisins og sinnir forðagæslumálum í A.-Skaftafellssýslu. BSSL verður með kynbótasýningar á höfuðborgarsvæðinu og nýtist þar þekking og þjálfun starfsfólks BSSL.

Friðrik Eysteinsson er hættur hjá Sambandi garðyrkjubænda og ekki hefur enn verið ráðinn starfsmaður í hans stað. Mögulegt er að framkvæmdastjóri SG verði í framtíðinni á skrifstofu BSSL líkt og áður var.

5. Umræður um skýrslur og reikninga
Sigurður Loftsson þakkaði framlagðar skýrslur um starfssemi BSSL og þakkaði samstarf Félags kúabænda á Suðurlandi s.s. vegna KÝR 2004 og vegna afmælisrits félagsins. Hann bauð félaga úr A.- Skaftafellssýslu velkomna í það öfluga starf sem unnið er hjá BSSL. Mikil reynsla hefur skapast á skrifstofu BSSL í rekstrartengdri ráðgjöf á liðnum árum sem þörf sé á, ekki síst nú þegar stefnir í að Lánasjóður landbúnaðarins verði seldur. Erfitt er hins vegar að meta raunverulega þörf ráðgjafarinnar þegar hluti teknanna kemur frá búnaðargjaldi en ekki úr markaðsumhverfinu. Þá leyfði Sigurður sér að efast um að útdeiling á fé til markmiðstengdra búrekstraráætlana sé rétt framkvæmd sem og hin sjálfvirka gjaldtaka búnaðargjalds.
Sigurður taldi grunneiningar í félagskerfi BSSL vera umdeildar og verða það áfram. Ítarleg skoðun á félagskerfinu hafi þó nýlega farið fram og ákveðið í kjölfarið að halda í svipað skipulag um sinn. Sigurður minntist á uppbyggingu leiðbeiningaþjónustunnar á landsvísu og lagði áherslu á nauðsyn þess að vinna að slíkum málum m.a. með þarfir stærsta landbúnaðarsvæðis landsins í huga.
Þórir Jónsson þakkaði fyrir skýra skýrslu og reikninga. Spurði um tillögur sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi, hverjar voru afgreiðslur þeirra?
Þorfinnur Þórarinsson þakkaði Sigurði hlý orð í garð BSSL og starfsmanna og svaraði Þóri að svör við spurningu hans sé að finna í skýrslu formanns í ársriti BSSL auk þess sem afgreiðslur tillagna séu kynntar í fréttabréfi og á heimasíðu BSSL.

6. Matarhlé

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Helgi Eggertsson kynnti álit nefndarinnar:
Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Bragi Ásgeirsson, Selparti
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Sigurfinnur Bjarkarsson, Tóftum
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Páll Lýðsson, Litlu-Sandvík (varam.)
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Ketill Ágústsson, Brúnastöðum
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Ólafur Einarsson, Hurðarbaki
Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Einar Gestsson, Hæli II (varam.)
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Hjörleifur Ólafsson, Fossi
(1 fulltr. mættur af 2)
Búnaðarfélag Biskupstungnahrepps
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti
Eiríkur Jónsson, Gýgjarhólskoti
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Enginn fulltrúi mættur.
Búnaðarfélag Laugardalshrepps
Jón Þormar Pálsson, Böðmóðsstöðum
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Ágúst Gunnarsson, Stærribæ
Búnaðarfélag Grafningshrepps
Enginn fulltrúi mættur.
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Þórarinn Snorrason, Vogsósum
Búnaðarfélag Eyrarbakka
Enginn fulltrúi mættur.
Búnaðarfélag A.-Eyjafjallahrepps
Kristinn Stefánsson, Raufarfelli
Búnaðarfélag V.-Eyfellinga
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, Nýjabæ
Búnaðarfélag A.-Landeyjarhrepps
Elvar Eyvindsson, Skíðbakka 2
Búnaðarfélag V.-Landeyjarhrepps
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Kristinn Jónsson, Staðarbakka
Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi mættur.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Þórir Jónsson, Selalæk
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Hannes Ólafsson, Austvaðsholti
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Óskar Ólafsson, Bjóluhjáleigu (varam.)
Búnaðarfélag Ásahrepps
Jón Þorsteinsson, Syðri-Hömrum
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Jón Jónsson, Prestsbakka
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Helga Jónsdóttir, Þykkvabæ I
Búnaðarfélag Álftavers
Kristbjörg Hilmarsdóttir, Þykkvabæjarklaustri
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Sigursveinn Guðjónsson, Lyngum
Búnaðarfélag Skaftártungu
Enginn fulltrúi mættur.
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Guðni Einarsson, Þórisholti
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Margrét Guðmundsdóttir, Vatnsskarðshólum
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti
(1 fulltr. mættur af 2)
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
Baldur Björnsson, Fitjamýri
(2 fulltr. mættir af 3)
Félag sauðfjárbænda í V.-Skaftafellssýslu
Jónas Erlendsson, Fagradal
(1 fulltr. mættur af 2)
Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Enginn fulltrúi mættur.
Félag skógarbænda á Suðurlandi
Enginn fulltrúi mættur.
Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal
Helgi Eggertsson, Kjarri
Hrafnkell Karlsson, Hrauni
Bergur Pálsson, Hólmahjáleigu
(4 fulltr. mættir af 5)
Félag kúabænda á Suðurlandi
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Ágúst Dalkvist, Eystra-Hrauni
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum (varam).
Samband garðyrkjubænda
Enginn fulltrúi mættur.
Félag svínabænda á Suðurlandi
Enginn fulltrúi mættur.

Alls mættir 42 fulltrúar af 57 sem kjörgengi eiga.
Reikningar bornir undir atkvæði og þeir samþykktir samhljóða.

8. Verðlaun fyrir besta nautið í árgangi fæddum 1998.
Gunnar Guðmundsson BÍ.

Skilaði kveðju frá Haraldi Benediktssyni formanni BÍ og Sigurgeiri Þorgeirssyni framkv.stjóra BÍ sem áttu ekki möguleika á að mæta vegna annarra starfa. Í máli Gunnars kom fram að nautaárgangur fæddur 1998 er sá stærsti sem hingað til hefur komið á stöð. Nautið Fontur 98027 frá Böðmóðsstöðum II í Laugardal ber þar höfuð og herðar yfir aðra gripi með 118 í kynbótaeinkunn og hlýtur því verðlaunin að þessu sinni. Hjónin Hörður Guðmundsson og María Pálsdóttir á Böðmóðsstöðum II tóku við verðlaununum úr hendi Gunnars.

9. Ávörp gesta. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra.
Minntist á að hann hefði mælt fyrir frumvarpi um að Lánasjóður landbúnaðarins verði lagður niður og eignir hans seldar. Meirihluti bænda virðist vilja búnaðargjaldið í burtu. Fari svo munu tekjur sjóðsins af búnaðargjaldinu, um 140 millj., falla niður og rekstrargrundvöllur fyrir starfsemi Lánasjóðsins þar með bresta. Hefur átt gott samstarf við forystumenn landbúnaðarins um þetta mál.
Vinna við nýjan búnaðarlagasamning er í gangi. Ráðherra tók skýrt fram að Mjólka getur starfað á grundvelli atvinnufrelsis. WTO-samningar eru í gangi og ríkisstjórnin vinnur hörðum höndum að kynningu á sjónarmiðum Íslands. Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins hefur leitt starfið fyrir hönd ráðuneytisins. Samningaviðræðurnar ganga út á að vestræn ríki dragi úr stuðningi við sinn landbúnað.
Ráðherra ræddi um Kjötmjölsverksmiðjuna. Minnti á að forsvarsmenn verksmiðjunnar voru varaðir við áður en ráðist var í byggingu hennar vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika í sölu afurða. Ákvörðun um framtíð verksmiðjunnar liggur ekki fyrir en rætt um að þar verði starfrækt förgunarverksmiðja. Landbúnaðar- og Umhverfisráðuneytin vinna nú sameiginlega að framtíðarlausn hennar. Framtíð íslensks landbúnaðar er björt.

10. Ávörp gesta. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.
Flutti stutta kynningu á Landbúnaðarháskólanum sem stofnaður var 1. janúar 2005 við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rala og Garðyrkjuskólans á Reykjum. Við sameininguna tók við stofnun með 130 starfsmenn og 300 nemendur. Starfsstöðvar LBHÍ eru að Hvanneyri, Hesti, Reykjum í Ölfusi, Keldnaholti, Korpu, Möðruvöllum og Stóra-Ármóti.
Skipurit skólans samanstendur af þremur deildum, Starfs- og endurmenntunardeild á framhaldsskólastigi og umhverfisdeild og auðlindadeild á háskólastigi. Þrjú svið ganga síðan þvert á deildirnar, rekstrar og þjónustusvið, kennslusvið og rannsóknasvið.
Auðlindadeildin hlaut nafn sitt til að vekja athygli á að skólinn fæst við nýtingu auðlinda sem er íslensk náttúra. Hin hefðbundna búvísindabraut sem og skógfræði og landgræðsla heyrir undir auðlindadeild. Umhverfisdeildin er stofnuð á grunni umhverfissviðs sem var til áður og hefur vaxið mjög mikið síðustu ár. Þar eru sóknarfæri framtíðarinnar.
Í háskólaumhverfi skipast saman rannsóknir og kennsla og eru hlutföllin nú þannig að rannsóknir taka 60% tímans og kennsla 40%. Tekjuáætlun 2005 er þannig að framlag af fjárlögum skila 64% tekna, seld þjónusta o.þ.h. um 24% og rannsóknastyrkir 12%. Framtíðin nú er að þróa mastersnám (MSc.) við skólann, t.d. í auðlindahagfræði og fleiri greinum. Endurmenntun við skólann á að efla og nýta þar reynslu Garðyrkjuskólans á Reykjum.

11. Nefndir hefja störf.
Formenn nefnda: Sigríður Jónsdóttir fagmálanefnd, Sigurður Loftsson allsherjarnefnd og Gunnar Kr. Eiríksson, fjárhagsnefnd.

12. Afgreiðsla mála
Tillaga 1. Nautauppeldisstöð BÍ
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 bendir á mikilvægi þess að uppeldi nauta annars vegar og sæðistaka hins vegar sé aðskilin, með hliðsjón af öryggisþáttum s.s. sjúkdómum, eldsvoða og annarri hugsanlegri vá. Fundurinn leggur því áherslu á, að Nautauppeldisstöðin verði áfram starfrækt í Þorleifskoti og að endurbótum á húsnæðinu verði hraðað til að uppfylla skilyrði aðbúnaðar¬reglu¬gerðar. Jafnframt telur fundurinn eðlilegt að haft verði fullt samráð við Búnaðarsamband Suðurlands um framgang málsins“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 2. Fiskræktarsjóður
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 leggur mikla áherslu á mikilvægi Fiskræktarsjóðs í stuðningi við rannsóknir og fiskrækt í ám og vötnum landsins og varar við öllum hugmyndum um að svifta sjóðinn þeim tekjustofnum, sem nú eru markaðir í lögum“.

Greinargerð:
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um efnahagsleg áhrif veiða sem kom út á sl. ári kemur m.a. fram að um 60 þúsund manns stunduðu einhverja lax- og silungsveiði árið 2003. Talið er að möguleikar til laxveiða séu um það bil fullnýttir og tæplega sé hægt að auka laxveiðar á stöng. Hins vegar má auka silungsveiði á stöng verulega.
Niðurstöður skýrslunnar sýna að stangveiði leggur verulegar upphæðir til þjóðarbúsins, bæði með beinum og óbeinum hætti. Tekjur þær, sem verða til við sölu á veiðileyfum, eru taldar hafa verið 5% af heildar verðmætasköpun landbúnaðarins árið 2000. Tekjur vegna stangveiða skipta umtalsverðu máli fyrir fjölda fólks í dreifbýli. Lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og að til þess að svo megi verða þarf að stunda rannsóknir og vöktun sem eru undirstaða skynsamlegrar nýtingar.
Ástand fiskstofna í íslenskum ám og vötnum er almennt talið gott en ekki er sjálfgefið að svo muni verða á komandi árum. Virkjun fallvatna og rekstur vatnsaflsvirkjana hafa í för með sér rask sem getur komið niður á fiskstofnum þeirra. Samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði er orkufyrirtækjum sem vinna orku úr vatnsafli skylt að greiða gjald til Fiskræktarsjóðs.
Lög um lax- og silungsveiði hafa verið til endurskoðunar undanfarið ár. Einn liður í þeirri endurskoðun er ákvæði um Fiskræktarsjóð. Frumvarpið náði ekki afgreiðslu á Alþingi vorið 2004, m.a. vegna andstöðu Landsvirkjunar, sem virðist leitast við að ná fram þeim breytingum, að ekki verði greitt gjald vegna sölu á raforku frá vatnsaflsvirkjunum. Nái slík sjónarmið fram að ganga er ljóst að grundvöllur sjóðsins er brostinn. Þýðing Fiskræktarsjóðs fyrir rannsóknir og uppbyggingu veiðivatna fer sífellt vaxandi. Því er nauðsyn að standa vörð um Fiskræktarsjóð og efla hann enn frekar.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 3. Sala og dreifing raforku
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 leggur áherslu á að þær skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á dreifingu og sölu raforku hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir notendur í dreifbýli“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 4. Olíugjald
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 leggur áherslu á að staðið verði við þau loforð að ný lög um olíugjald auki ekki útgjöld bænda. Jafnframt tekur fundurinn undir ályktun Búnaðarþings 2005 um sama efni“.

Greinargerð:
Búnaðarþing 2005 varar alvarlega við því að upptaka olíugjalds í stað þungaskatts leiðir til verulegs kostnaðarauka fyrir notendur olíu. Talið er að kostnaðurinn vegna kerfisbreytingarinnar sjálfrar geti orðið allt að 2 kr/ltr. hjá olíufélögunum sem væntanlega kemur til hækkunar á vöruverði. Þá mun umrædd breyting einnig leiða til lakara þjónustustigs í dreifbýli. Verði umrædd breyting samt sem áður gerð, er það krafa búnaðarþings að heimilt verði að nota litaða olíu á öll landbúnaðartæki þar með taldar vsk. bifreiðar. Þau bú sem ekki nota vsk-bifreið en mundu njóta endurgreiðslu á þungaskatti samkvæmt núgildandi kerfi haldi þeim rétti og fái heimild til að nota litaða olíu á einn skráðan bíl.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 5. Kjötmjölsverksmiðjan í Hraungerðishreppi
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 lýsir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem komin er upp varðandi rekstur Kjötmjölsverksmiðjunnar í Hraungerðishreppi.
Bendir fundurinn á mikilvægi verksmiðjunnar við eyðingu úrgangs og þar með hreinleikaímynd landbúnaðarins. Skorar fundurinn því á hlutaðeigandi að leita allra leiða til að tryggja starfsemi hennar“.

Nokkrar umræður urðu um tillöguna, Ólafur á Hurðarbaki lagði áherslu á að Kjötmjölsverksmiðjunni yrði ekki lokað. Kanna þyrfti hvort ekki mætti nota landbúnaðar¬plast til að knýja verksmiðjuna áfram og eyða þar með hvoru tveggja. Sigurlaug í Nýjabæ viðraði þá hugmynd að í Kjötmjölsverksmiðjunni yrði öllum hræjum frá bæjum einnig eytt. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Tillaga 6. Samstarf við LBHÍ
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 leggur áherslu á að komið sé á viðræðum við LBHÍ um samstarf við BSSL um endurmenntun bænda á starfssvæði þess“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 7. Erfðabreytt ræktun
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 telur brýnt að fram fari almenn umræða um ræktun erfðabreyttra afurða og áhrif hennar á ímynd og hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða.
Fundurinn telur mikilvægt að fram fari óháð athugun á áhættu sem ræktun erfðabreyttra lyfjaplantna hefur í för með sér fyrir umhverfi, heilsufar og landbúnað sem ekki er erfðabreyttur. Fundurinn hvetur til ítrustu varúðar í þessum málum og að ekki verði veitt frekari leyfi til erfðabreyttrar ræktunar utandyra fyrr en nauðsynleg umræða og óháðar athuganir hafi farið fram á kostum og göllum þessarar ræktunar“.

Fagmálanefnd lagði jafnframt til að tillögunni yrði beint til landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Landbúnaðarháskóla Íslands, landbúnaðarnefndar Alþingis og Bændasamtaka Íslands. Tillagan samþykkt með einu mótatkvæði.

Tillaga 8. Úrvinnslugjald á landbúnaðarplasti
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 skorar á stjórnvöld og sveitarfélög að tryggja að það gjald sem sett hefur verið á rúlluplast skili sér til bænda í aukinni þjónustu við söfnun og eyðingu. Mjög mikill munur er milli sveitarfélaga hvernig staðið er að þessum málum.
Einnig er allt of mikill munur á eyðingu og urðunargjaldi þar sem stjórnvöld hafa ekki unnið við að aðstoða sveitarfélög við þróun á vistvænni úrvinnslu á plastinu“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 9. Árgjald til BSSL
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr. 1.000 á félagsmann“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 10. Þóknun aðalfundarfulltrúa
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 samþykkir að þóknun fulltrúa á aðalfundi verði kr. 10.000“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 11. Laun stjórnar BSSL
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 samþykkir að laun stjórnarmanna verði 10.000 kr. á hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs skv. ríkistaxta. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur 150.000 krónum m.v. árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 12. Fjárhagsáætlun BSSL
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 leggur til að fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2005 verði samþykkt“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga 13. Fjárhagsáætlun Kynbótastöðvar
„Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Goðalandi, Fljótshlíð 20. apríl 2005 samþykkir fjárhagsáætlun Kynbótastöðvar Suðurlands og þar með óbreytt sæðingagjöld á komandi starfsári“.

Tillagan samþykkt samhljóða án umræðu.

13. Kosningar. Kosið er um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Árnessýslu, 2 skoðunarmenn reikninga auk varamanna og löggiltan endurskoðenda.
Stjórnarkjör: Þorfinnur Þórarinsson kosinn með 36 atkvæðum og Guðmundur Stefánsson með 25 atkvæðum. Réttkjörnir stjórnarmenn til næstu þriggja ára.
Skoðunarmenn reikninga: Elvar Eyvindsson og Vilhjálmur Eiríksson kosnir með 38 atkvæðum hvor. Einn seðill auður.
Varaskoðunarmenn reikninga: Ólafur Einarsson og Guðrún Stefánsdóttir kosin með lófaklappi.
Löggiltur endurskoðandi: Arnór Eggertsson.
Varastjórn: Helgi Eggertsson kosinn með 28 atkvæðum og María Hauksdóttir með 25 atkvæðum.

14. Önnur mál
Páll í Litlu-Sandvík bar kveðju Guðmundar Lárussonar en Páll kom sem varamaður hans. Minntist þess að hann hefði síðast verið fulltrúi á aðalfundi BSSL árið 1963 og þá borið fram tillögu um námskeið í notkun dráttarvéla. Tillagan var samþykkt þá en komst aldrei til framkvæmda. Talaði um að ef til vill ætti að bera tillöguna aftur upp nú. Páll ræddi sameiningu búnaðarfélaga og taldi erfitt um vik að þvinga félögin til sameiningar, þau myndu gera það þegar þess þyrfti á eigin forsendum líkt og nautgriparæktarfélögin hefðu gert. Lýsti yfir áhyggjum að félögin skuli ekki öll senda fulltrúa á aðalfund BSSL og fannst að aðalfundur þurfi að taka á því.

Sigríður í Arnarholti fannst ótrúlegt ef Páll hefði ekki setið aðalfundi BSSL síðan 1963 og taldi sig aldrei hafa verið á fundi þar sem Páll Lýðsson hefði ekki verið.

Daníel í Akbraut spurði um séreignasjóð MBF. Vill meina að bændur hafi verið arðrændir með töku í séreignasjóð. Hvað gera bændur þegar búin eru orðin fá og stór? Séreignasjóður sé eign MBF en ekki eign bænda.

Egill á Berustöðum svaraði orðum Daníels og taldi sér málið skylt sem stjórnarmaður í MBF. Bændur eigi sinn séreignasjóð en þegar bændur hætti að leggja inn mjólk fái þeir sinn séreignasjóð greiddan út ásamt vöxtum og hætta þar með sem félagsmenn MBF.

Daníel í Akbraut kom upp aftur og taldi Egil rugla saman stofnsjóði og séreignasjóði.
Þórir á Selalæk ítrekaði nauðsyn þess að bændum yrði kynnt hvernig tillögum aðalfundar væri fylgt eftir og hver afgreiðsla þeirra væri.

Jóhannes Hr. Símonarson ráðunautur, ræddi réttindi ökumanna dráttarvéla út á þjóðvegum þ.e. ef viðkomandi tæki sé tengt aflúrtaki eða vökvakerfi dráttarvélar sé dráttarvélin orðin vinnuvél í skilningi Vinnueftirlitsins. Á slíka vinnuvél þurfi tilhlýðileg vinnuvélaréttindi en almennt ökupróf dugi ekki. Málið er í nokkurri óvissu en unnið sé að því að skýra og samræma reglur þar að lútandi.

Sigurlaug í Nýjabæ ræddi gjaldtöku BSSL m.a. á hrossasýningum, skurðamælingum og fleiru. Talaði um búnaðargjald og vildi vita hve margir bændur nýttu sér ekki starfsemi Búnaðrsambandsins á ársgrundvelli.

15. Fundarslit, Þorfinnur Þórarinsson.
Þakkaði góðar umræður og tillögur. Alls voru samþykktar 13 tillögur á fundinum sem stjórnin mun vinna úr á næstu mánuðum. Afgreiðsla tillagnanna muni koma fram á heimasíðu BSSL og í fréttabréfi en væntanlega ekki í héraðsfréttablöðum. Formaður lagði áherslu á við fundarmenn að starfsfólk BSSL væri undirstaða starfseminnar á hverjum tíma og að BSSL hefði á að skipa mjög hæfu starfsfólki til að takast á við verkefni morgundagsins. Þá minntist formaður á að unnið væri að afmælisriti BSSL vegna 100 ára afmælisins árið 2008.

Fundi slitið kl. 18.20

 

Jóhannes Hr. Símonarson
Runólfur Sigursveinsson
fundaritarar.

back to top