Að afla geldstöðufóðurs

Heyskapur er nú hafinn á allnokkrum bæjum á Suðurlandi. Einkum eru það kúabændur sem hefja slátt svo snemma til að ná lystugu og orkuríku heyi sem þarf að vera til staðar á hámjaltaskeiði mjólkurkúnna. En slík hey þurfa ekki að vera nema hluti heyfengsins. Geldstöðufóður t.d. þarf að uppfylla allt aðrar þarfir, þ.e. vera gróft, orkusnautt en þó lystugt. Fyrir ári skrifaði undirritaður grein í Fréttabréf BSSL um öflun geldstöðufóðurs sem enn á fullan rétt á sér. Greinin er því birt hér á nýjan leik.



Fóðrun mjólkurkúa á geldstöðu hefur fengið aukna athygli kúabænda undanfarin misseri. Lengi hefur verið þekkt að ekki er rétt að fóðra allar kýr á sama gróffóðri og mismuna þeim aðeins í kjarnfóðri eftir stöðu á mjaltaskeiði/geldstöðu. Fóðurfræðingar og aðrir fóðrunarráðgjafar hafa lengi talað fyrir sérstakri geldstöðufóðrun, oft fyrir daufum eyrum. Trúlega var um að kenna að á kúabúum með um 30 mjólkandi kýr í básafjósi voru alla jafna fáar geldkýr hverju sinni og ekki hagkvæmt að hafa sérstaka heygerð fyrir 2-3 kýr. Þarna skildi því e.t.v. á milli fræðimennskunar og raunsæis.

Með stækkandi kúabúum á liðnum árum hefur hins vegar orðið grundvöllur fyrir sérstakri geldstöðufóðrun. Þannig er t.d. grundvallaratriði í legubásafjósum að taka geldkýr frá mjólkandi kúm og fóðra þær sérstaklega. En hvernig gróffóður á að gefa geldkúm? Grundvallarforsendan er sú að kýrin nái að fylla sig vel. Markmiðið er ekki að geldkýrin éti minna magn en mjólkandi kýrin, heldur að hún innbyrði minni orku. Ef geldkýrin fær að éta eins mikið og hún vill og nær góðri fylli helst vömbin stór í geldstöðunni. Vömbin er þar með tilbúin til að innbyrða mikið af orkuríku fóðri strax þegar kýrin þarf á því að halda eftir burðinn. Geldstöðufóðrið þarf því að vera gróft til að auka fyllina en samt sem áður lystugt til að kýrnar éti það.


Að þessu sögðu má ljóst vera að það er rangt að gefa geldkúm hey af elstu og lélegustu túnunum eins og algengt er, þar sem heyið af þeim er oft fíngert og ólystugt. Vallarfoxgras sem slegið er nokkru eftir skrið hentar aftur á móti einkar vel sem geldstöðufóður. Það heldur lystugleikanum ágætlega þrátt fyrir að orka þess (meltanleikinn) minnki mjög eftir skrið. Það verður einnig ágætlega gróft.


Annað atriði sem máli skiptir er kalíinnihald geldstöðufóðursins. Kalí er í flokki frumefna sem hafa s.k. katjónir, en það eru frumefni sem hafa jákvæða hleðslu (+). Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að of hátt innihald katjóna (kalís) á geldstöðu eykur hættuna á bráðadoða og stálmabólgu og þar með júgurbólgu. Einnig eru uppi kenningar um að hátt innihald katjóna í geldstöðufóðri hafi neikvæð áhrif á lífsþrótt kálfa þó að staðfestar rannsóknir liggi ekki fyrir. Þegar mjólkurmyndun hefst við burð snýst dæmið við. Þá er mjög mikilvægt að fóðra kýrnar á orkuríku heyi með háan meltanleika og eðlilegt steinefnajafnvægi.


Í stuttu máli sagt; Ósaxað vallarfoxgras með lágu kalíinnihaldi (~12 g/kg þe) sem slegið er um eða eftir miðjan júlí ætti því að vera kjörið geldstöðufóður.


Jóhannes Hr. Símonarson


back to top