Aðalfundur BSSL mótmælir hugmyndum um útjöfnun sæðingagjalda

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands var haldinn 15. apríl s.l. á Hótel Selfossi. Fundurinn var með hefðbundnu sniði utan þess að nefndastörf voru nokkuð breytt frá fyrri fundum. Þannig var nefndum nú skipt eftir búgreinum. Auk þessa fór Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, yfir varnarlínur BÍ varðandi aðildarviðræður við ESB. Rekstur Búnaðarsambandsins á síðasta ári var í samræmi við áætlanir og skilaði Búnaðarsambandið ásamt dótturfyrirtækjum hagnaði upp á 2,2 milljónir kr. Guðbjörg Jónsdóttir og Gunnar Kr. Eiríksson voru endurkjörin í stjórn og hefur stjórn þegar skipt með sér verkum þannig að Guðbjörg er áfram formaður Búnaðarsambandsins. Fjöldi ályktana var samþykktur á fundinum og má sjá þær hér á eftir:

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15.apríl 2011 beinir því til LBHÍ að rekið sé öflugt tilraunastarf á Stóra-Ármóti og þar sé ætíð til staðar nægileg starfslið til að sinna tilraunum.
  


Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15.apríl 2011 beinir því til Bændasamtaka Íslands að þau  hlutist til um að hafa áhrif á  framkvæmd fóðureftirlits hjá bændum  sem  MAST er falið að hefja í sveitafélögunum Ölfusi, Ásahrepp og Rangárþingi eystra. Bændabýli munu framvegis  teljast fóðurfyrirtæki.
Eftirlitið er í samræmi við reglugerð nr. 107/2010, en þar er innleidd reglugerð EB nr. 183/2005 um kröfur er varða hollustu fóðurs. Mótmælt er framkvæmd eftirlitsins sem fer af stað án kynningar svo og gjaldtöku. Í reglugerðinni er ekki tiltekið gjaldskrá fyrir eftirlitið eða kostnað sem bændur eiga að bera.  Könnuð verði forsenda gjaldtöku.  



Tillaga nr. 3 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15.apríl 2011 átelur þann seinagang sem viðgengist hefur við lausnir á skuldamálum bænda. Fundurinn telur afar brýnt að lánastofnanir hraði úrlausnum þessara mála. Jafnframt að jafnræði lánþega verði tryggt gagnvart lánastofnunum varðandi aðferðafræði við lausnir. Litið verði á verðmæti rekstrar sem grundvallaratriði að lausn í einstökum málum.


Greinargerð:
Nú eru liðnir rúmlega 30 mánuðir frá því bankahrun átti sér stað á Íslandi. Enn eru skuldamál margra bænda í óvissu. Nýlega fór af stað endurútreikningar á gengistryggðum lánum bænda sem eru í viðskiptum við Landsbanka Íslands og  Íslandsbanka. Grundvöllur þeirra byggir á lögum nr. 151/2010 um uppgjör lána einstaklinga sem samþykktar voru á alþingi 22. desember 2010. Ekkert slíkt virðist vera í gangi hjá Arionbanka. Það er ólíðandi að  ekki sé unnið á samræmdan hátt að þessum málum meðal fjármálafyrirtækja.



Tillaga nr. 4 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15.apríl 2011 lýsir yfir fullum stuðningi við afstöðu og vinnu Bændasamtaka Íslands vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.  Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir  um að hafna beri aðild að ESB.  



Tillaga nr. 5 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15 apríl 2011 hvetur stjórn Bændasamtakanna að endurskoða tímasetningu  Búnaðarþings með það að markmiði að aðalfundir aðildarfélaganna og búnaðarsambanda sé lokið fyrir Búnaðarþing.


Greinargerð:
Mikilvægt er að inn á Búnaðarþing komi þau mál sem aðildarfélögin og búnaðarsambönd  hafa fjallað um á aðalfundum sínum.



Tillaga nr. 6 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur  Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 beinir því til stjórnar að kynna sér nýútkomin drög að breytingum á jarðalögum og nýta umsagnarrétt sinn. Að BSSL standi fyrir kynningu meðal félagsmanna.



Tillaga nr. 7 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2011



Tillaga nr. 8 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011  leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2011 verði sæðingagjöld  kr. 1.200,- á kú.



Tillaga nr. 9 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr. 1.000,- á félagsmann.



Tillaga nr. 10 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna.  Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minns 10 tíma ferðalag (nú kr. 8.750,-) x 2, (þ.e. nú kr 17.500,-)



Tillaga nr. 11 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi 15. apríl 2011 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknað með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu í apríl 2005.  Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs.  Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.



Tillaga nr. 12 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að gefa út árlega, rit með ítarlegum upplýsingum um yrki á grastegundum, korni, belgjurtum og grænfóðri. Einnig ætti ritið að innihalda mikilvægar upplýsingar eins og niðurstöður jarðræktarrannsókna, þarfir fyrrgreindra plantna og skortseinkenni með myndrænum hætti. 



Tillaga nr. 13 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, leggur þunga áherslu á að Bændasamtök Íslands vinni úr framkomnum athugasemdum varðandi umbætur á jarðræktarforritinu jörð.is.  Að Bændasamtök Íslands leggi jafnframt áherslu á að haldið verði áfram vinnu við frekari þróun forritsins. Að einnig verði gerð aðgengileg handbók eða leiðbeiningar um notkun á forritinu.



Tillaga nr. 14 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, skorar á alla áburðarsala að lengja þann tíma frá því að áburðarverð eru birt, þar til bændur þurfa að skila inn pöntun í að lágmarki 1 mánuð. Einnig að áburðarsalar standi við gefin loforð hvað varðar pantanir á áburði. Að áburðarsalar hafi meira samráð við fagaðila í jarðrækt hvað varðar innihald og efnahlutföll í áburði.



Tillaga nr. 15 frá jarðræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, hvetur Landbúnaðarháskóla Íslands til jarðræktartilrauna á Stóra-Ármóti, með áherslu á áburðartilraunir. Einnig til frekara samstarfs milli bænda og rannsóknaraðila í jarðrækt um rannsóknir eða athuganir sem víðast á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands.



Tillaga nr.16 frá sauðfjárræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, lýsir óánægju með að vorfundir voru ekki haldnir og skorar á stjórn BSSL að það komi ekki fyrir aftur.



Tillaga nr.17 frá sauðfjárræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, beinir því til sveitastjórna á starfssvæðinu að fylgja eftir lögbundnum skyldum varðandi fjallskil á afréttum og heimalöndum.



Tillaga nr.18 frá sauðfjárræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, beinir því til stjórnar að flýta birtingu á upplýsingum úr afkvæmarannsóknum á sínu starfssvæði.



Tillaga nr.19 frá sauðfjárræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011 beinir því til sauðfjárræktarnefndar BSSL að endurskoða útreikninga á veturgömlum hrútum fyrir verðlaunaafhendingar.  Þá sérstaklega að taka tillit til þroska lambanna.



Tillaga nr.20 frá hrossaræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, lýsir yfir þeirri skoðun sinni að gott samræmi á dómum á milli kynbótasýninga sé grundvallaratriði, og fagnar þeim skrefum sem stigin hafa verið í þá átt með því að formenn dómnefnda dæmi saman í upphafi dómsárs.



Tillaga nr.21 frá hrossaræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands varðandi sýningarhald kynbótahrossa:
a) Að aðstæður á sýningarstöðum kynbótahrossa séu samræmdar, svo sem lengd sýningarbrauta og fjarlægð dómpalls frá sýningarbraut.
b) Að aðstæður og upplýsingaflæði til áhorfenda sé með sem bestum hætti.
c) Að afhendingu verðlauna verði gert eins hátt undir höfði og hægt er.



Tillaga nr.22 frá hrossaræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands að beita sér fyrir því að Bændasamtök Íslands geri það  mögulegt að skrá kynbótahross í kynbótasýningu í gegnum Worldfeng.



Tillaga nr.23 frá hrossaræktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, tekur undir tillögu landsmótsnefndar þar sem lýst er yfir þeirri skoðun að eðlilegt sé að halda tvö landsmót sunnan heiða á móti einu landsmóti norðan heiða.



Tillaga nr.24 frá nautgriparæktarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi þann 15. apríl 2011, mótmælir hugmyndum um útjöfnun á sæðingagjöldum á landinu öllu.  Telur fundurinn að lítil þátttaka á ýmsum landssvæðum sé m.a. ástæða hárra sæðingagjalda þar og ekki sanngjarnt að það sé borið uppi af þeim sem hafa náð upp góðri þátttöku í sæðingastarfseminni.


 


back to top