Aðalfundur FKS 1.febrúar 2016

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 2016
Haldinn á Hótel Stracta, Hellu mánudaginn 1. febrúar 2016. Valdimar Guðjónsson, formaður FKS, setti fund kl. 12.00. Hann tilnefndi Bóel Önnu Þórisdóttur, Móeiðarhvoli, sem fundarstjóra.
Skýrsla stjórnar – Valdimar Guðjónsson
Góðir fulltrúar og gestir. Ég vil bjóða ykkur velkomin á þennan 30. aðalfund Félags kúabænda á Suðurlandi.
Það er við hæfi í upphafi að eyða fáeinum orðum í félagið og tímamót þeim tengdum. Fyrsti aðalfundurinn var semsagt haldinn að Hvoli 2. april 1986. Stofnfundurinn haldinn ári fyrr, þann13. mars 1985. Félagið varð því 30 ára á síðasta ári. Gefið var út veglegt afmælisrit fyrir 10 árum sem enn er fáanlegt hjá formanni. Formenn hafa verið í þessari röð Guðmundur Lárusson Stekkum, Birna Þorsteinsdóttir Reykjum, Hjörtur Hjartarson Stíflu, Egill Sigurðsson Berustöðum, Gunnar Sverrisson Hrosshaga, Sigurður Loftsson Steinsholti og Þórir Jónsson Selalæk. Frá upphafi hefur starfað félagsráð sem var skynsamleg ákvörðun og tengir bændur af öllu svæðinu saman með fundum þrem til sex sinnum á ári. Tilgangur félagsins í upphafi var “að efla samstöðu félagsmanna, beita sé fyrir bættum kjörum kúabænda og auknum upplýsingum um málefni framleiðslugreinarinnar hverju sinni…” svo vitnað sé í brot úr upphafssamþykktum félagsins. Margt hefur á dagana drifið á þónokkuð langri leið en þakkir eiga þeir skilið sem ljáð hafa félaginu krafta sína gegnum árin. Kallar og kellingar á mínum aldri hafa þó lifað mikið þróunar og framfaraskeið á líftíma Félags kúabænda þessi 30 ár fullyrði ég. Í raun hefur orðið bylting verið notað af minna tilefni. Mest þó í heyverkun, mjaltatækni og vinnuaðstöðu.
Inn í félagið kemur stöðugt nýtt fólk. Því unga fólki til fróðleiks skal getið að í félagsráði sitja 18 manns og sex varamenn. Helmingur kjörinn annað hvert ár. Við erum eina félag kúabænda sem innheimtir félagsgjöld á landinu, en það fer trúlega að breytast því allt virðist hníga að brottför búnaðargjalds úr kerfinu. Nú síðast féll héraðsdómur þvi tengdu. Þá þurfa félögin að fjármagna sig á eigin spýtur. Félagið hefur í gegnum árin greitt fyrir akstur á fundi svo fólk þurfi ekki að borga með sér í þessari vinnu. Haldnir voru fjórir fundir á síðasta ári 2015 með aðalfundi. Einnig 5 stjórnarfundir í símum og hjá formanni.
Tíðarfar og framleiðsla
Árið 2015 var kúabændum ekki hlý blómabrekkan ein þó ræst hafi úr. Veturinn illviðrasamur og kalt framan af vori. Rættist úr með heyskap hér sunnanlands en magn misjafnlega mikið. Blautviðrasamt haust, sem var rakt allt fram á jólaföstu, gerði kornslátt og uppskeru því tengdu erfiða viðureignar. Það í bland við sí aukinn ágang fugla hefur dregið talsvert úr kornrækt síðustu árin.
En mjólkurframleiðsla var mikil og náði nýjum hæðum yfir landið allt. Alls 146 milljón lítrar. Eflaust spilar þar inní loforð MS um fullt afurðastöðvaverð, en einnig einnig útgefinn framleiðsluréttur uppá 140 milljónir. Hugsanlega var þar full mikið í lagt.
Fátt bítur á kúabændur við fóðuröflun í misjöfnu árferði og alls jukust afurðir um 130 kg. á kú yfir landið. Afsetning umframjólkur er dýr þessa dagana. Þannig er bara ástandið í augnablikinu. Lág verð á mörkuðum og Rússland lokað. Jafnvel lönd i austurlöndum sem ekki versla lengur mjólkurvörur vegna stríða og upplausnarástands. En við skulum ekki gleyma því að síðasta ár var mesta söluár nokkru sinni á mjólkurvörum. Það eru líka tíðindi og þau ánægjuleg. Á fitugrunni er salan134 milljónir lítra, sem hefði þótt ævintýralegt fyrir örfáum árum.
Tollasamningar
Tollasamningar við ESB voru viss vonbrigði og nokkuð óvænt útspil ríkisins. Virtist koma BÍ og LK í opna skjöldu og allt í einu stóðu menn frammi fyrir orðnum hlut nú á haustdögum. Hann opnar að vísu einhver tækifæri í útflutning. En taka má dæmi þessu tengdu; fjórðungur t.d. nautakjötssölu er innflutt kjöt í dag. Þar eru því sóknarfæri til að auka okkar hlut. Þessi tollarýmkun er mjög nálægt þessu magni. Semsagt þessi rýmkun þegar hún er komin til framkvæmda, virkar strax hamlandi á nýtilkomna stækkunarmöguleika í greininni. Að því gefnu að okkur takist að auka framleiðsluna. Innflutningsaðilar munu ekki liggja á liði sínu við innflutning innan þessara marka og því hætta á að verð sé pressað niður.
Holdanautamál
Vel hefur verið unnið að því máli að mínu mati og skýrist það betur hér á eftir. Það er áhugavert ef áform um að fá aðstöðu og landrými á Stóra – Ármóti til verkefnisins verða að veruleika. Ég er sammála því að svona verkefni, sem er orðið brýnt, sé unnið á félagslegum grunni. Þannig er tryggt betur jafnt aðgengi bænda að gripum og sæði í framtíðinni.
Samningur um starfskilyrði nautgriparæktarinnar
Það hefur ekki farið framhjá neinum hér inni þær viðræður sem hafa farið fram við ríkisvaldið síðustu mánuði. Þar eru álitamál og slíkt verður seint umflúið. En stundum finnst mér í þeirri umræðu, líkt og menn haldi að samið sé við sína eigin spegilmynd, en ekki annan aðila hinum megin borðsins. Verkefni er þvi miður ekki svo einfalt. Hef litið svo á að ég sé formaður fyrir alla félagsmenn sem hafa síðan misjafnar skoðanir. Það er réttur allra. Fyrr hafa komið umdeild mál í okkar hópi, en meirihluta lýðræði hefur verið haft í heiðri samkvæmt minni reynslu.
Hér er margt mjög jákvætt í þeim drögum sem ég hef séð. Það hefur gleymst í umræðunni síðustu daga. Ég þakka fyrir gott hljóð.
Reikningar félagsins
Borghildur Kristinsdóttir, gjaldkeri fór fyrir reikninga félagsins.
Reikningar bornir undir atkvæðagreiðslu. Samþykktir samhljóða.
Tillaga um árgjald FKS og stjórnarlaun
Aðalfundur FKS haldinn á Hótel Stracta 1. febrúar 2016 samþykkir að árgjald verði miðað við útgefið lágmarksverð til bænda með greiðslumar í afurðastöð. Jafngildir 50 lítra mjólkur. Laun formanns verði árlega miðað við jafngildi 2500 lítra mjólkur. Laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við lágmarksverð 1250 lítra mjólkur. Greitt fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta per kílómetra.
Samþykkt samhljóða.
Kosningar – fyrri hluti
Formaður kosinn leynilegri kosningu. Allir félagsmenn í kjöri. Valdimar Guðjónsson býður sig til áframhaldandi, engin bein mótframboð komu fram.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabær: 83 atkvæði
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti: 2 atkvæði
Auðir seðlar: 3
Kosning um 9 fulltrúa í félagsráð FKS og 3 til vara. Búið var að tala við 15 einstaklinga sem eru tilbúnir að vera í félagsstarfi, en allir í kjöri.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti; 80 atkvæði
Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli; 77 atkvæði
Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum; 75 atkvæði
Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum; 71 atkvæði
Ragnar Finnur Sigurðsson, Litla-Ármóti; 67 atkvæði
Sævar Einarsson, Stíflu; 61 atkvæði
Guðmundur Jónsson, Berjanesi; 59 atkvæði (dregið um röð)
Guðfinna Lára Hávarðardóttir; Birtingaholti 4; 59 atkvæði
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey; 53 atkvæði
Bjarni Bjarnason, Hraunkoti; 1. varamaður (52 atkvæði)
Páll Jóhannsson, Núpstúni; 2. varamaður (48 atkvæði)
Anna María Kristjánsdóttir, Helluvaði; 3. varamaður (44 atkvæði)
Aðrir fengu færri atkvæði.
Búvörusamningur – Sigurður Loftsson
Sigurður Loftsson, formaður LK, kynnti helstu þætti er varða yfirstandandi samninga um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Samningaviðræður hafa staðið frá því í lok sumars. Í haust voru kynntar áherslur sem báðir aðilar höfðu unnið að og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Nýjir búvörusamningar eru stórt og víðfemt verkefni, allir samningar landbúnaðarins teknir fyrir í einu og tengdir saman. Miklar breytingar hafa orðið bæði í landbúnaði og í þjóðfélaginu og það er ein af þeim forsendum sem veldur því að lagt er upp með 10 ára samning. Stærsta breytingin er lagt upp með að hverfa frá kvótakerfinu. Hins vegar er það misskilningur að það standi til að leggja niður kvóta á fyrsta degi. Það verður horfið frá kvótakerfi á miðju samningstímabili. Fram að þeim tíma verður kerfið þróað og því breytt svo ekki komi til mikil og varanleg breyting fyrir bændur. Tvö endurskoðunarákvæði eru sett inn í samninginn, árin 2019 og 2023, þar sem 2019 horfi til þróunar greinarinnar fyrstu ár samnings en sú síðari notuð til að marka upphaf seinni hluta samnings. Greiðslumark verði sett fast í upphafi samnings og aflagt 2021. A-greiðslur fylgja greiðslumarki og festast á lögbýlum. A-greiðslur standa óbreyttar fyrstu 3 árin en trappast svo hægt og rólega niður þar til verða að engu einu ári fyrir samningslok. Það verður gert ráð fyrir framleiðsluskyldu á A-greiðslur fyrstu árin og verður aldrei hærri en 80%. Hægt verður að framselja greiðslumark til ríkisins á um 70-71 kr/l. B- og C-greiðslur verða slegnar saman og greiddar á alla innvegna mjólk. Greiðslu fyrir B-C-hluta verður skipt í 12 hluta og greitt fyrir hvern mánuð ársins. Deilist þannig á innvigtun hvers mánaðar fyrir sig. Þannig er kominn hvati til að dreifa mjólkurframleiðslunni yfir allt árið. Gripagreiðslur verða tvöfaldaðar á fyrsta ári samnings. Þá verður gerð krafa um skráningu í afurðaskýrsluhald, Huppu, til að fá gripagreiðslur. Greitt verður út á móðurdýr og þær verða að bera amk. annað hvert ár. Talað um að flokkaskipta gripagreiðslum. Greitt verður út á mjólkurkýr og hins vegar út á holdakýr. Viðmiðið verði út á 25 þús. mjólkurkýr og 3 þúsund holdakýr. Nú eru 27 þús. kýr í landinu, en öfugt hjá holdakúnum og því verður heldur meiri stuðningur á holdakýrnar til að fjölga þeim. Stærðarmörk gripagreiðslna er ófrágengin.
Framleiðslujafnvægi: nýr liður sem verður beitt ef bregðast þarf við breytingum í framboði og eftirspurn á markaði. Getur brugðið til beggja átta, bæði ef framleiðsla fer úr böndunum eða ef vantar mjólk inn í úrvinnsluna. Víki vegið meðalverð mjólkur meira en 5% frá innanlandsverði er hann virkjaður. Framleiðslujafnvægi er hægt að nýta til markaðsfærslu nautgripaafurða, sem sérstakar uppbætur fyrir slátrun kálfa og kúa, sem tilfærslu í aðra framleiðslu á kúabúum og sem tímabundnar býlisgreiðslur óháðar framleiðslu.
Kynbótafé og óframleiðslutengdur stuðningur: verður áfram til staðar en verður sameinaður jöfnunarfé sæðingakostnaðar sem er nú í búnaðarlagasamningi. Jarðræktar-, nýliðunarstuðningur og þróunarfé færist inn í rammasamning. Jarðræktarstuðningur verður tvöfaldaður frá því sem nú er. Aðgengi og möguleikar kúabænda til að hljóta jarðræktarstyrki verða ekki minni en áður þó svo að sá stuðningur sé færður í rammasamning.
Nautakjötsframleiðsla: tekinn upp stuðningur við hana. Eykst hægt og sígandi á samningstímanum. Greiddar verða álagsgreiðslur á ákveðna flokka skv. EUROP-mati. Fjármunir í upphafi samnings eru 75 milljónir en eykst eftir því sem líður á samningstímann. Framlag vegna einangrunarstöðvar (100 milljónir) árið 2017.
Fjárfestingastuðningur: verður til að styðja við nýframkvæmdir eða endurbætur. Verður eingöngu til að endurnýja nærumhverfi gripa, en ekki til tækjabúnaðar. Aðallega verið að styðja við bættan aðbúnað fyrir gripi, skjól eða skýli fyrir gripi á útigangi eða til að bæta geymslurými búfjáráburðar. Hægt að fá allt að 40% af stofnkostnaði sem stuðning.
Tilfærslur og hámarksgreiðslur: framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að færa upphæðir milli einstakra liða samnings, allt að 20% af hverjum lið. Þó ekki greiðslur út á greiðslumark (A-greiðslur). Þó veður sett hámark við heildarstuðning sem hver aðili fær sett við 0,75% (45 milljónir ca).
Verðlagsuppfærsla: árleg framlög í upphafi samnings eru 6.831 milljón á verðlagi 2016. Þar af flytjast 205 milljónir yfir í Rammasamning vegna tilflutnings verkefna. Taka árlega breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Er ákveðin hagræðingarkrafa á upphæð líka.
Afurðaverð: Áframhaldandi heimild til samstarfs skv. búvörulögum. Söfnun, úrvinnsla og dreifing mjólkur og mjólkurafurða. Móttökuskylda og afhendingarskylda til smærri vinnsluaðila. Bókhaldslegur aðskilnaður innlendrar og erlendrar verður tekinn upp. Bændur og iðnaður koma saman ársfjórðungslega og gera sameiginlegar tillögur um verðlagningu: Lágmarksverð mjólkur, heildsöluverð til annarra vinnsluaðila, tekjumörkun mjólkuriðanaðar á innanlandsmarkaði. Tillaga tekin til meðferðar af þar til bæru stjórnvaldi. Hliðstætt t.d. orku og fjarskiptamarkaði. Verðlagsnefnd hefur runnið sitt skeið, ekki pólitískur vilji að viðhalda henni. Tollar á mjólkurvörum verði leiðréttir þannig að tollvernd skv. GATT-samningi frá 1995 haldi verðgildi. 6 mikilvægustu tollflokkar (af 18 í heild) verði færð til samræmis við upphaflegt verðgildi í SDR. Þarf að breyta tollalögum til þess að þetta gangi upp. Ekki heimild að hafa þetta fljótandi eða taka sjálfvirka verðlagsuppfærslu.
Ekki ljóst hvaða stjórnvald mun fara með verðlagningu. Heimild verði að gjaldfæra greiðslumark sem keypt hefur verið eftir 1. janúar 2011. Leitast hefur verið við að koma til móts við þau sjónarmið sem fram komi í kjölfar kynningar á frumdrögum samninganna sl. haust.
Egill Sigurðsson tók við orðinu.
2013 varð hráefnisskortur mjólkurfitu sem leyst var með innflutningi. Nýtt voru um 80 tonn af innfluttri mjólkurfitu. Um jólaleyti 2014 þurfti sérstakan línudans til að hafa nóga mjólkurfitu fyrir rjóma og smjör en 2015 var mikil umframframleiðsla. Greiðslumark var kannski sett óþarflega hátt 2015 en þá hefði líka greiðslumark 2016 verið milljón lítrum hærra en nú er. Þörf var á að styrkja birgðastöðu 2014, en þokkaleg birgðastöð eftir það. Framleiðsluskylda er lækkuð í 80% árið 2016 og greiðslumark ársins verður 136 millj. Meira hefur verið selt af skyri til Bandaríkjanna nú en áður, en í Sviss er líka stöðug aukning en þó kannski ekki alveg nógu hröð. Braggast kannski þegar líður undir vor. Um næstu helgi verður farið inn á Bretlandsmarkað með skyrið. Kannski verið að fara í kjölfarið á Arla. Er búið að ná í einkaleyfi á skyri? Nei, en hvað skráningunni er háttað þá fengu MS lögbann á skyrsölu Arla á Finnlandsmarkaði en ekki í fleiri löndum. Einkaleyfisskráningin mun ekki halda í Bretlandi og alls ekki í Bandaríkjunum. Áform um smjörsölu til Bandaríkjanna, var hætt um tíma vegna skorts á hráefni.
Egill telur rétt að lofa fullu afurðastöðvaverði út árið 2016 og stendur við það. Kannski var hægt að senda út örlítla fitu, en 18 milljón lítra þarf að flytja út á próteingrunni á hrakvirði. Ekki hægt að safna upp undanrennudufti.
Það gengur mjög vel, sérstaklega í Finnlandi, Noregi og Sviss. Noregur og Danmörk skila tekjum sem ekki eru upprunar í íslenskri mjólk (leyfistekjur). Í samningsdrögum vilja menn skilja að erlenda starfsemi og innlenda starfsemi, annað getur ruglað innlenda starfsemi. Þessar erlendu tekjur geta sveiflast mikið milli ára, en skila miklu eins og er. Það kostar að safna birgðum milli ára.
Rekstur MS: ársreikningur hefur ekki farið í gegnum stjórn. Tap um 200-250 milljónir kr, en svf. Auðhumla verði í jafnvægi. Tap af mjólk sem er flutt út innan greiðslumark: 300 millj kr. Tap af mjólk umfram greiðslumark 250 mill kr. Hagnaður af leyfis og framleiðslu erlendis um 300 millj kr. Greiðslugeta síðsta árs var um 2 kr/l minni en af tekjun innan greiðslumark sem var 140 millj. lítra. En þá væri einungis búið að núllstilla fyrirtækið sem er ekki viðunandi til lengdar.
Búvörusamningur: Megináherslur séu að tryggja tollvernd (ostur og duft), áfram verði heimild til samvinnu og verkaskiptingar við mjólkursöfnun ofl., að tekið verði tillit til raunkostnaðar vegna birgðakostnaðar við verðlagninu á mjólkurvörum, eða erlendar tekjur er eiga ekki uppruna í íslenskri mjólkurframleiðslu hafi ekki áhrif á verðlagningu á innlandsmarkaði, að í samningnum verði möguleiki á hvatagreiðlsu til aukningar og minnkunar framleiðslu eftir markaðsþörf hverju sinni. Niðursveifla í fjölda kúabænda getur valdið hráefnisskorti 2018 ef ekki er hvati inni í kerfinun til að bændur geti bætt aðbúnað gripa sinna.
Ef þessi atriði komast í gegnum 10 ára samningsgerð mun það hafa jákvæð áhrif og gera greinina samkeppnishæfari. Þess að auki mun greinin þróast með hagkvæmum hætti. Umhverfið er síbreytilegt, en þetta mun skapa meiri stöðugleika.
Orðið gefið laust um búvörusamning.
Gunnar, Túnsbergi: Ánægður með hvað eru margir mættir. Þakkar fyrir greinargóð erindi Silla og Egils. Tollvernd vegna osta og undanrennudufts, mjög mikilvægt að þetta verði inni. Ekki samþykkja samning nema tollvernd verði með. Var krafa frá ráðuneyti að afnema kvóta? Kýrnar; slátra út af markaði – truflar þetta sláturhús eða verður þetta tekið af markaði? Er þá verið að taka kýr úr framleiðslu eða bara verið að slátra eldri kúm sem átti að slátra hvort eða var? Greinar semji við ríki, dettur búvörusamningur þá út? Hámarksgreiðslur á bú, 45 milljónir, bara mjólkurframleiðslu – hámarksstærð þá ca. 1 milljón lítra – hvernig er bú skilgreint, félag, einstaklingsrekstur?
Jökull, Ósabakka: Hvað er átt við með aukinni hagræðingu? Þekkir ekki bændur sem ekki reka bú sín á sem hagkvæmastan hátt. Kannski með verksmiðjum. Verðlagning þróuð að breyttu fyrirkomulagi, vegna stækkunar búa? Ríkið innleysir kvóta –er ekki hægt að framleiða meira af sama aðila? Hvert er þak stuðnings?
Berglind, Núpi 3: Vill biðja alla um að hætta að tala um að lækka verð, ekki hægt endalaust að lækka verð á matvælum sem kostar eitthvað að framleiða. Miklu frekar halda í horfinu. 0,75% heildargreiðslna verði hámark; er þetta markvisst sett til að koma í veg fyrir risabú? Verðlagning mjólkur; verði endurskoðað eftir því hvernig markmið hafa gengið eftir, hver eru raunveruleg markmið? Hvernig er þessi búvörusamningur öðruvísi en þeir sem gerðir voru í Evrópu og bændur eru þar í sinni stöðu? Hvernig mun þetta heppnast hjá okkur? Undanrennuduft flutt út á undirverði; var einhver möguleiki á að fá duftið á tilboðsverði sem kálfaduft? Er þannig hægt að koma í veg fyrir að svona mörgum nautkálfum er lógað og þannig verði landið sjálfbærara með nautakjöt?
Guðný Halla, Búlandi: Er ekki best að hækka verð á lífrænni mjólk? Var ykkur ekki kunnugt um það 2012 að stefndi í hráefnisskort? Þá var þegar farið að flytja inn smjör. Heimilt verði að gjaldfæra greiðslumark sem keypt hefur verið frá 2011; hvað þýðir það? A-greiðslur sem leystar eru inn til ríkis; 70 kr/l í stað 300 kr/l árið 2012? Við flytjum inn meira af mjólkurduft, bændur sjálfir, en framleitt er hérlendis. Hvað verður gert í þessum málum?
Bjarni Stefánsson, Túni: Nánari útskýringu á 5%-vikmörk með inngrip til að stýra magni. Hvaðan koma peningar ef þarf að bæta í, eins ef þarf að draga úr framleiðslu, verður þá tekið af? Sér sjóður? Um verðlagningu; tollamál og verðlagning sem þessi samningur veltur á. Ef magni er stýrt er verðlagning áhrifamest. Opinber nefnd/stofnun, eru einhver drög að þessu sem hægt er að segja frá? Veit ekki hvernig þjóðfélag bregst við ef bændur og afurðastöðvar koma saman að ákvarða verðlagninu. Þróunarfé úr búnaðarlagasamningi; breyting á faglegu umhverfi landbúnaðar alls frá því samið var síðast. Hjá LBHÍ hefur starfsmönnum fækkað um helming. Okkur veitir ekki af því að fá inn meira faglegt efni í greinina á tímum komandi breytinga. Spurði einnig um það hvernig haldið utan um þróunarféð og hvort sé verið að auka þann pakka?
Egill Sigurðsson svaraði spurningum. Verðlagning; í lok árs 2013 þegar ekki var til nóg mjólkurfita var verið að selja smjör á undirverði og þar er enn undirverðlagt. Vantar sveigjanleika í kerfið. Bara ein leið, hægt að lækka verðið með útsölum og tilboði. Mjólkurduft; fæst 1700 USD/tonn til útflunings. En mikið flutt inn, aðallega í kálfafóður. Við reynum að bregðast við því, farið að selja á heildsöluverði út úr næstu starfsstöð. Er undirverðlagt til bænda, því miður. Tollvernd og verðlagning er það sem máli skiptir. Hitt eru svo stórar stoðir undir kerfinu. Lífræn mjólk; vantar á markaðinn. MS þurfti að draga sig út því allt fór í Bíobú. 44% ofan á afurðastöðvaverð fyrir lífræna mjólk. Að verða lífrænn tekur 2-3 ár og þá er tekjumissir á meðan. Teljum okkar mjólk þola samanburð. Í október 2012 voru til nógar birgðir, varð skortur í lok árs 2013. Það hefði ekki verði hægt að sjá það fyrir. Höfum farið í gegnum skort, sluppum 2014, mikið umfram 2015. 100-120 framleiðendur sem eru að framleiða umfram að einhverju viti, ef ekki verður slegið enn í klárinn verður aftur skortur í bráð.
Erlendur Ingvarsson, Skarði: Ræddi um fjármuni sem fara út úr greininni. Einn hlutur ekki tekið tillit til, hvernig á að ná jafnvægi á framleiðslu. Stýring. Á að fara í beljudráp til að stýra framleiðslunni? Verður þar með offramleiðsla á nautgripakjöti með tilheyrandi verðlækkun á kjöti? Verð til bónda mun lækka í þessum samningi. Eins sé verið að etja bændum saman. Verið að slást um ákveðinn pott. Þeir sem eru öflugastir standa best á einhverju stigi og aðrir tapa. Bændum í Vestur-Skaftafellssýslu verður með þessu samningi ýtt út í horn. Það er ákveðin hagræðingarkrafa, allir eiga að hagræða, en samninganefnd virðist gera ráð fyrir að fækka bændum. Verðum aldrei fullkomlega samkeppnishæf við nágrannaþjóðir, sjáum síðasta sumar, sjáum hvaða breiddargráðu við erum á. Nýi samningurinn eigi að vera svo góður fyrir nýliðun; sér það ekki fyrir sér. Alveg ljóst að landverð og gripaverð hækkar líka. Þeir sem eru ungir og ætla að fara að búa, þá mun alltaf kosta. Það væri mun betra að búa ef lánakerfi landsins væri skárra. Bændur hafa ekki keypt kvóta til að tapa á því heldur til að styrkja sig.
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðakoti: Framkvæmdastyrkur, hvenær tekur hann gildi? Frysta allar framkvæmdir í sumar?
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð: Ef á að fara fram kosning verður að kynna þetta allt til hlýtar. Styðja allt með dæmum. Bændur hafa búið við mjög auðskiljanlegt kerfi. Sumum hefur ekki líkað við kvótakerfið, sérstaklega ekki forystunni. Hverju bjargaði það á sínum tíma? Allt var komið í bullandi óefni. Ýmislegt hefur farið úrskeiðis, svo sem verðlagning kvóta hérna um árið. Fóru með peninga út úr greininni, gerist líka í öðrum greinum. Er ekki hægt að breyta þessu á annan hátt? Flókið kerfi, sýnist ekki hvað það gefi bændum. Það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvað er verið að kjósa yfir sig. Hefur haft áhuga á því að vita hvað er útflutningur á unninni mjólkurvöru að skila bændum, t.d. skyr? Þarf að koma ítarleg úttekt á því hvaða mögulegar eru á að hafa eitthvað út úr útflutningi. Hefur verið sagt að útflutningur muni aldrei standa undir sér. Erfiðleikar vegna aðstæðna, framleiðslan dýrari. Við verðum að standa sterk á innanlandsmarkaði og byggja framtíð greinarinnar á því. Möguleiki á endurnýjun stéttar; hefur áhyggjur ef ekki fæst nýtt fólk. Megin endurnýjun hefur verið innan fjölskyldna. Það sem stendur fyrir endurnýjun eru lánakjör. Er aðkoma fjármálaráðuneytis í takti við það sem þið segið hér? Samningar um launakjör; mun þessi samningur hækka launakjör bænda svo þeir geti lifað mannsæmandi lífi? Bændur í nágrannaríkjum í kröggum; erfitt að stunda útflutning með hagkvæmni. Verðlagning á mjólk; hlýtur að lækka ef tekið er mikið tillit til heimsmarkaðsverðs? Verður hægt að reka búin? Nei, við þolum ekki verðlækkun. Samningar verða að tryggja lágmarksverð. Fyrirkomulagið sem hafi verið hafi hamlandi áhrif á greinina, aðstöðu ábótavant víða en kostar ekki mikið að kippa í liðinn. Mun meiri kostnaður þegar básafjós verða bönnuð.
Sindri Sigurgeirsson, BÍ, svaraði spurningum. Gagnrýnt fyrir samráðsleysi, flókið og erfitt. Hefur gengið hægt að klára samningana upp á síðkastið. Tók mánuð að komast að samráði um hvað ætti að vera mikið fjármagn til samnings. Yfirlýsing birt um hádegi í dag hvernig samningagerð stendur. Starfsskilyrði og samkeppnishæfni fer versnandi. Spurt var hvort það væri krafa af hálfu ríkisins að afnema kvóta. Það var gerð sú krafa að stuðningur sem eigngerist á að hverfa. Þá er möguleiki að hafa framleiðslustýringu án framsals á kvóta. Hefði leitt til minni framleiðni í greininni. Sauðfjár- og mjólkursamningar eru í forgang, en verður allt klárað í einu. Í Búnaðarlagasamning koma meiri fjármunir en áður, s.s. er varðar nýliðun, auka stuðning við lífræna ræktun (10-faldast), koma auknir peningar inn í landgreiðslur (miðast við að það sé einhver uppskerukvöð), inn í geitfjárrækt kemur aukinn stuðningur, eins inn í skógrækt. 700 milljónir að jafnaði á ári sem koma af nýjum peningum. Þó landgreiðslur verði í rammasamningi verða það aðallega nautgripa- og sauðfjárbændur sem fá úthlutað úr því. Fagfé fer í búnaðarlagasamning, greinaskipt. Framleiðnisjóður; kröfur um að hann verði efldur, hugsa víðtækar ofl.
Stjórnvald og verðlagning: horft verður til lausna á borð við þær sem eru hjá Íslandspósti og Mílu þar sem er alþjónustukvöð og lögð á hámarks tekjumörk. Þetta form er sem sagt til. Verðlagsnefnd verði ekki til lengur vegna þess að launþegahreyfingar hafa sagt sig frá þessu. Ekki hægt að sjá bara bændur í nefnd sem mótaðilar vilja ekki vera með. Ekki ákveðið hvaða stjórnvald verður með þetta. Verður hægt að áfrýja ákvörðun.
Kynning á samningi: mikilvægt er að kynna samninginn vel. Verður kynntur með fundarferð, sér kálfi í Bændablaðinu og einnig með kynningarefni inni á Bændatorgi.
Varðandi tollverndina þá er hún í umræðu hjá Fjármálaráðuneyti. Sindri sagðist ekki ætla að spá fyrir endann á því. Skýr og skiljanleg krafa Bændasamtakanna að tollvernd haldi. Náðu saman um meginlínur, búið að ná saman um heildarfjárhæðir. Hefur ekki ástæðu til að áætla að það verði stopp. Ef tollamál verða ekki tekin til endurskoðunar verður að slíta samningum.
Tekin stutt pása til að sinna kosningum.
Kosningar – seinni hluti
Kosning 10 fulltrúa á aðalfund LK. Allir félagsmenn í kjöri. Óskað eftir framboðsræðum. Ragnar Finnur, Litla-Ármóti, stakk upp á Ágústi Guðjónssyni, Læk.
Niðurstöður kosninga á aðalfund LK:
1. Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ, 90 atkv.
2. Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti, 80 atkv.
3-4 Borghildur Kristinsdóttir, Skarði, 61 atkv.
3-4 Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli, 61 atkv.
5. Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð, 54 atkv.
6. Ásmundur Lárusson, Norðurgarði, 53 atkv.
7. Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddstöðum, 52 atkv.
8-9. Ragnar F. Sigurðsson, Litla-Ármóti, 33 atkv.
8-9 Sævar Einarsson, Stíflu, 33 atkv.
10. Pétur Guðmundsson, Hvammi, 32 atkv.
Varamenn:
1. Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey 2, 31 atkv.
2. Ágúst Guðjónsson, Læk 27 atkv.
3. Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti, 27 atkv.
4. Karel G. Sverrisson, Seli, 13 atkv.
5. Jón Viðar Finnsson, Dalbæ 12 atkv.
6. Ómar Helgason Lambhaga 11 atkv.
7. Ágúst Ingi Ketilsson Brúnastöðum 11 atkv.
8. Páll Jóhannsson, Núpstúni, 11 atkv.
9. Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð, 9 atkv.
10. Kjartan Magnússon, Fagurhlíð, 9 atkv.
(Dregið var um sæti á skrifstofu Búanaðarsambands Suðurlands)
Kosning fulltrúa á aðalfund BSSL, vísað til félagsráðs. Engar athugasemdir frá fundarmönnum.
Skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra endurkjörnir með lófataki.
Kaffihlé til kl. 15.15
Búvörusamningur – framhald
Sigurður Loftsson, LK, svaraði spurningum sem til sín var beint. Sýndi skiptingu fjárhæða í búvörusamningi. Greiddar verða premíur á gripi sem fara í slátrun, en sú slátrun má ekki trufla aðra slátrun, verður að flytja út af markaði. Markaðsaðstæður undanfarin ár kalla ekki á tvöföldun. Ákveðinn hluti kúnna fara út úr kerfinu. Hvaðan koma peningar? Til dæmis af B-greiðslum. Verð á mjólk lækkar um það sem því nemur.
Hámarksgreiðslur: Einn aðili eða fleiri? Sami aðili, lögbýli. Reglur hljóta að vera mótaðar til að koma í veg fyrir misnotkun. Stærðarmörk mótast af möguleikum sem til eru. Einhverjir munu reyna á að misnota kerfið. Ræddi um atvinnufrelsi ofl.
Útfærsla á tröppun gripagreiðslna: Þarf að spila í samræmi við þakið. Þetta saman styðji við minni búin meira en stóru búin. Þakið er hugsað til þess að það sé ekki verið að styrkja risabú, heldur sé verið að horfa á eðlilega þróun fjölskyldubú. Hvað er risabú? Er 240 kýr smábú? Þarf að ræða þessi mál öll vel, hvernig er hægt að þétta stuðning við litlu búin? Hvaða skoðun höfum við á því hvað er risabú?
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð: Dreifa búum hæfilega mikið um landið og hámarksframleiðsla 400-500 þúsund á bú. Hagkvæmast þjóðhagslega.
Sigurður Loftsson: Hagræðing: krafa ríkisins um halla á stuðningnum. Minni stuðningur en var í núverandi samningi. Verðlagning verði þróuð; núverandi verðlagningarkerfi er ekki í boði. Verður ekki haldið áfram með sama hætti. Verið að þróa nýtt fyrirkomulag sem gæti unnist út frá því að það sé verið að byrja á kvótakerfinu. Leggja fram rökstudda tillögu um hvað eigi að vera verð til bænda og hvað iðnaður þarf að fá, og hvað eigi að vera verð til 3ja aðila. Verð í lausu máli; stærsti hluti er bændaverð. Uppsetning verðlagsgrundvallarbús verði ekki í myndinni, það sýnir mynd miðað við ákveðinn tíma sem er þá orðið úrelt um leið og gefið er út. Innleysing greiðslumarks: já, hægt að halda áfram framleiðslu þó leyst sé inn. Ekki úreldingarbætur fyrir hann sem bónda, heldur á kvótanum hans. Hann fær ekki lágmaksverð né A-greiðslur, en getur sótt annað. En ekki tækifæri sem margar nýta sér, en útilokar ekkert. Aðalatriðið er að þetta séu úreldingarbætur á framleiðsluaðstöðu.
Hætta að tala um að lækka verð: nálgun okkar á framtíðinni er hvernig við viðhöldum tekjum. Ekki nákvæmlega hvað mjólkin kostar til okkar. Kvótaverð er eitt af þessu.
Samningar, sambærilegt við Evrópu? Það eina sem er sambærilegt er að við hættum í kvótakerfi. Evrópa var farin út úr kvótakerfi fyrir 1-2 árum, lyftu þakinu. En framleiddu í heildina minna en kvótaþakið, þó misjafnt milli landa. Allt annað stuðningskerfi en úti í Evrópu. Verð hefur lækkað mikið í Evrópu en það er ekki enn komið niður í ígripaverð. Þeir bíða eftir að það fari nógu margir á hausinn. Þegar það er yfirstaðið verði komin enn harðari pressa á utanlandsmarkað á okkar markað. Þá verðum við að standa á okkar hvað við getum fengið greitt fyrir okkar framleiðslu til lengri tíma. Samlíking við Evrópu: heitir kvóti en eru samt ólíkir hlutir. Sláturpremíur í BNA, virkaði ágætlega þar.
Heimild til að gjaldfæra greiðslumark: Snýr að þeim aðilum sem keyptu greiðslumar eftir 1. janúar 2011 og hafa ekki fengið að færa kaupverð niður í skattskýrslum síðan þá. Það verði heimilt svo skuldin/eignin verði hægt að gjaldfæra hann á fyrstu 5 árum samning. Skiptir máli fyrir þá sem keyptu á hvað hæstu verði.
A-greiðslur: 70-71 kr/l. Verðum að horfa á þetta eru úreldingarbætur kvótakerfis. Forgjöf þeirra sem eiga greiðslumark inn í nýtt kerfi. Trappast rólega niður, farið út eftir 9 ár. Ekki 300 kr/l eins og margir keyptu kvóta á. Þeir sem keyptu kvóta gerðu það til að framleiða meiri mjólk. Þeir sem nýlega hafa keypt kvóta ætla væntanlega að halda áfram. Það var ekki ákvörðun hins opinbera eða BÍ hvaða verð var greitt fyrir kvóta. Takmörk hvað er hægt að greiða mikið út á þetta.
Kálfaduft: út af fyrir sig mál sem hvert og eitt þarf að velta fyrir sér, hvort sé eðlilegt að kaupa ekki okkar eigin framleiðslu. Hvort við getum þá ætlast til þess að einhver annar geri það ef við gerum það ekki sjálf?
Vikmörk: Hvaðan peningar koma? Koma úr öðrum liðum.
Slátrun kúa vel framkvæmanleg, sérstaklega ef kvöð er um að vera þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi. Eftirlitsaðili þarf að fylgjast með hvort allt sé rétt og fellt. Er stefna að fækka bændum? Hver var tilgangur núverandi kerfis? Er eitthvað í þessu kerfi sem kemur í veg fyrir að bændur verða 100 eftir 10 ár? Væntingar um fulla dreifingu um allt land með bara 400 þús lítra? Er ekki þannig í gamla samningi. Samningur sem nú er verið að búa til er til að nýta færin sem gefast. Vinna með fjölbreyttari hætti en hefur verið gert. Aflagning kvótakerfis; áskorun um hvernig skal staðið að framleiðslu til lengri tíma. Í því felst líka að hafa meira upp úr því sem við erum að gera.
Framkvæmdastyrkir: taka ekki gildi fyrr en nýr samningur tekur gildi. Stopp á yfirstandandi ári; óþægilegt. Getur ekki verið afturvirkt. Árið 2017 kemur þetta inn ef allt fer eins og upp er lagt með. Enginr nýr peningar til að varpa inn í kerfið árið 2016.
Þegar kvótakerfi var sett á voru mikil vandamál, pínulítil bú og margir framleiðendur, sundurtættur mjólkuriðnaður sem var mjög óhagkvæmur. Ögrandi verkefni vegna ákvarðana vegna greiðslu á umframmjólk. Gæti þetta ef hann væri ekki eins samsettur og hann er í dag. Nýta tækifæri, sækja skyrmarkaði; eru allt aðrir en voru. Markaður var líka í samdrætti á þeim tíma sem kvótakerfið var tekið upp, allt annað nú í dag. Verðum seint fullkomlega samkeppnisfær við nágrannana. Eigum tækifæri, fleiri og fleiri lönd að svara skyrsölunni. Ætlum við að nota þessi tækifæri eða ætlum við bara að pakka saman?
Tollar: verðum að styrkja þá. Einhvers konar upplegg í samningum gæti fengið pólitíska velvild, en eins og lagt var upp með af hálfu ríkis byggist á breytingum á öðru, til að við getum fengið að halda tollunum. Verður þungur róður fyrir landbúnaðarráðherra að breyta tollunum. Verður ekki auðveldari ef kúabændur taka ekki nýjan samning í sátt. Tímalengd, fjárhæðir, rekstrarumhverfi og tollvernd er það sem kúabændur leggja upp með. Annars verður samningur ekki samþykktur. Ef við þolum ekki breytingar á afurðaverði, hvað segir það um greinina sem við erum í. Það er helmingi hærra en í Evrópu.
Guðný Halla, Búlandi: Landbúnaðarstefna og byggðartenging. Hefur verið mörkuð landbúnaðarstefna á Íslandi fyrir hreinar afurðir, sjálfbærni, án þess að vera með erfðabreytt matvæli og lífrænu stefnuna? MS eru í vandræðum með lífrænu tankana. Ekki pláss fyrir lífræna framleiðendur, fara undir sömu reglur og aðrir kúabændur.
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu: Útfærsla á þeim sem hafa verið að framleiða utan kvóta undanfarin ár, hvers geta þeir vænt aðlögunarárin? Tvö verð frá afurðastöð, forgangur á innanlandsmarkað og útflutningsverð? Hver er hugsanlega kr/l fyrir þessa aðila? Hvað er ca. vegið meðalverð?
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti: Sagði það þurfa að vera stýringu, ekki gott að kvóta sé kastað fyrir róða. Hvað var mikið skert í lífeyrissjóð þegar ríkissjóður hætti að borga það, hvað misstum við, erum við að fá sömu peninga og áður, eru engir nýir peningar?
Brynjólfur Guðmundsson, Kolsholtshelli: Spurt um hvort þeir sem mundu selja sinn kvóta til ríkis; það væri vonlaust fyrir þá að selja mjólk. Hvernig verður nýliðun inn í stéttina? Er einhver möguleiki að færa sig milli jarða með greiðslumark með þetta greiðslumark sem er í frosti?
Baldur Örn Samúelsson, Bryðjuholti: Gripagreiðslur, vill lækka þak á þeim, nú er svo komið að þær fara ekki að rýrna fyrr en í 120 gripum. Viljum við fækka bændum? Viljum við fækka þeim meira? Erum við að leitast eftir því að vera með fjölskyldbú eða fyrirtækjarekstur? Almenningsálit. Sérstaða, sókn á erlenda markaði, fjölskyldubú en ekki verksmiðjubú. Á að styrkja meira minni búin, ekki fullmynduð skoðun hvar gripagreiðslur verða skertar. Byggðarsjónarmið. Stærðarhagkvæmni, hærri gripagreiðslur fyrir minni búin?
Birkir Tómasson, Móeiðarhvoli: Framleiðslustýring; skal virkja. Er það líka ef verðið hækkar yfir 5%? Er ekki betra að eiga þá sjóð sem gæti virkað eftir því sem sjóður er drýgri? Spurning Rafns; hvernig verður verðlagning næstu 3 ár. Jarðræktarstuðningur; gott þegar kornrækt er búin? Er verið að taka út að svínabændur fái 3-falt á við aðra? Hámarksgreiðslur á beingreiðslur, jafnvel of hátt. Við eigum ekki að setja okkur sem grein sem réttlætir risabú. Betra að byrgja brunninn áður en barnið er fallið ofan í. Aðbúnaðarreglugerðir: margir sem sækja um framkvæmdastyrki út á reglugerðarbreytingar strax á fyrsta ári samnings. Þynnist mikið ef margir sækja um. Hver á að taka út framkvæmdina, hver á að hafa umsýsluna með þessu? Hver á að verðmeta framkvæmd? Er búið að ákveða eitthvað um þetta?
Eyþór Karl Ingason, Bræðratungu/Meiri-Tungu: Ef samningur verður ekki samþykktur, er eitthvað back-up-plan? Hefur eitthvað komið frá ríkinu um það?
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti: Hvernig verður ákveðið með afurðaverð? Þarf að taka tillit til þess að útflutningur hefur aukist, bara eitt verð þó rekstur verður aðskilinn á innanlands- og utanlandsumsvifum? Þarf ekki að taka tillit til þess hvað við fáum fyrir útflutninginn? Byggjum ekki mikið á útflutningnum. Afurðaverð verði fljótandi, þarf að vera stjórntæki sem tryggir að það sé hægt að horfa fram í tímann með áætlanir oþh.
Egill Sigurðsson svarar spurningum. BNA-markaðir staðið yfir í allmörg ár, mest í 130 tonn en í 80 tonn í fyrra. Verið að breyta til þar. Markaðssetning skyrs þar, tvöfalt duftverð fyrir það. Ekki nein framtíð í þeim markaði vegna flutningskostnaðar og takmörkuð flutningsgeta. Markaður í Sviss, inn á fullu afurðastöðvaverði. Smjör til BNA, aðeins verðlagsnefndarverð. Finnland, 380 tonn, fullt afurðastöðvaverð. Vill ekki ofgera útflutningsmarkað. Finnski markaður 5500 tonn, dönsk mjólk og framleiðsla en með leyfi héðan = 300 millj. kr hagnaður. Umframmjólk hefði skilað meira en mjólk innan kvóta ef hefði verið notuð mjólk héðan. Hætta á Finnlandsmarkaði, ætla að fara inn á Bretlandi í staðinn. Breskur markaður er mjög verðdrifinn. Eru að fara í kjölfarið á Arla sem er með gallsúrt skyr. Vinnum allar bragðprófanir, svo við ættum að hafa yfirhöndina þar hvað gæði varðar. Ef við náum ekki að fullnægja Bretlandsmarkaði látum við framleiða upp í þetta. Góður árangur utanlands hjálpar okkur líka innanlands í sölu. Varðandi risabú: hvað er risabú? Gangi ekki of langt í því að skilgreina risabú. Að splundra bændahópnum er mjög vont, en verða samt að vera einhverjar hömlur vegna ímyndar.
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð: Er samstaða í stjórn MS gagnvart samninganefndinni?
Egill Sigurðsson: Hefur átt fundi með samninganefnd, óformlega. KS fer öðruvísi í málið. Ágreiningur ekki í stjórn MS en gæti komið fram á morgun, þá er fundur. Annað: varar mjög við því að fjöldinn allur af afurðastösðvum að þeir séu með í samningum við ríkið. Slæmt ímyndarlega séð.
Sigurður Loftsson: Hver er staða þeirra sem hafa aukið framleiðslu undanfarin ár?: Þeir munu fá það verð sem gefst af útflutningi af viðbættum B- og C-greiðslu auk gripagreiðslna. Einn stór jóker: getur ekki svarað til um hversu margir munu fara út úr kerfinu á fyrstu árum breytinganna. Bendir til þess að það geti verið umtalsverður hópur, minni bú, sem eiga erfitt með að standast aðbúnaðarreglugerð og eiga á brattann að sækja að byggja sig upp. Erfiðasta árið verður 2017 fyrir þessa aðila, hugsanlega 2018. Úr því ættu að gerast breytingar. Það mun gerast hvort eð er, vegna þess að þeir munu annars selja og hinir kaupa af þeim framleiðsluna.
Hvað er í þessu fyrir nýliða? Ekki verið að slá þá út af borðinu. Þarf að hagræða hluti svo allir geti fengið eitthvað út úr þeim. Hvað er í því fyrir nýliða ef kvótaverð hækkar aftur? Núvirt hæsta verð rúmlega 600 kr/l. Ragnar Árnason segir að allir græða alltaf á kvótakerfi, sama hversu hátt það fer. Hversu hátt má verðið fara í þessu vaxtastigi sem við búum við?
Gripagreiðslur; erum að velta fyrir okkur hvar samspilið á milli stærð búa. Hvar á þakið að vera? Ekki allir sammála hvað eru lítil og stór bú. Enginn endanlegur dómur fallinn í því.
Vikmörk; hugsað niður á við, á ekki von á því að menn fari að tempra ef utanlandsverð fer að lyfta meðalverðinu. Ef ekki væri meiri umframmjólk en það myndi það gerast. Hvert er vegið meðalverð? 81,7 kr/l skv. starfsmanni SAM. Misvægi á milli próteins og fitu í kvótamjólk og svo milli í umframmjólkinni. Ekki komið í þessi vikmörk.
Fjárfestingastuðningur: á eftir að útfæra frekar. Verður gert í reglugerð hver fer með þessi praktísku atriði varðandi hann.
Hvernig verður afurðaþróun? Hugsunin er sú að geta temprað framleiðslu með ígripum til að koma í veg fyrir stórkostlegar verðsveiflur. Með því að hafa gott yfirlit og gera framleiðsluspár eigi að verði hægt að tempra sveiflur. Í fyrsta lagi fá tolla stillta í mikilvægustu flokkum, halda utan um verð til 3ja aðila og hafa samstarf svo iðnaður geti starfað saman og haldið þannig utan um til að halda verðinu uppi.
Sindri Sigurgeirsson, BÍ, svaraði nokkrum spurningum. Byggðastefna; vantar upp á að landbúnaður sé settur í samhengi við byggðastefnu. Í rammasamningi er sett byggðaáætlun.
Fjármunir: hvað hefðu þeir átt að vera? Skerðing vegna hruns, aftenging verðtryggingar, líklega um 1200 millj. hærri. Við sömdum, ekki endilega hægt að gera ráð fyrir að það myndi hækka aftur. 900 millj. er ágætis vitnisburður um skilning ríkis en ekki fyllilega nóg miðað við það sem var tekið af. Langstærstur peninga fer inn í ramma sem nýtist öllum.
Jarðræktarstuðningur: svínabændur fá hærra framlag (2,5 sinnum) en aðrir og það breytist ekki. Hins vegar er tækifæri til að ræða þessi mál hvort eigi að ræða um einhverjar aðrar búgreinar. Ekki frágengið ennþá.
Hvað ef samningur verður ekki samþykktur? Er plan B? Já, alltaf til plan B, sest aftur við samningsborð. Kallar á nýtt umboð og nýja stefnumörkun, menn verða að marka stefnuna upp á nýtt. Slíkt tekur tíma. Gott að klára þessa samninga áður en kemur nýr kosningavetur. Munur á Norðmönnum og hér er sá að þar ber norskum stjórnvöldum að semja við bændur, engin lög um það hér á landi.
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð: Hvernig verður kosning framkvæmd?
Sindri Sigurgeirsson, BÍ: Nautgripabændur kjósa sinn samning, rafræn kosning á Bændatorgi.
Nokkur verkefni hjá LK – Baldur Helgi Benjamínsson
Þegar kvótinn var settur á hættu 242 framleiðendur í kjölfarið, 1 á hverjum virkum degi ársins eða svo.
Óheimilt að banna innflutning á hráu kjöti skv. nýjustu fréttum; nú megi fara að breyta inn reglur um innflutning á hráu kjöti.
Framleiðsla nautakjöts fer vaxandi á ný, innflutningur var 1.044 tonn af kjöti í fyrra eða um 1700-1800 tonn af skrokku. Innlend framleiðsla var 3.600 tonn. Eigum talsvert langt í land þó allir kálfar yrðu settir á. 3,2% aukning milli ára á innanlandsframleiðslu.
Settir á 11 þús. nautkálfar 2015 en voru 11.300 árið 2014. Minni ásetningur vegna færri burða nú í haust en haustið á undan. Af nautakjöti er mest flutt inn frá Þýskalandi. Fúkkalyfjanotkun í búfjárrækt; mjög mikil notkun í þeim löndum sem við erum að flytja inn frá.
Holdanautaverkefnið: innflutningur. Kominn farvegur sem heimilar innflutning á fósturvísum og sæði inn til landsins. Má flytja gripi frá einangrunarstöð inn á önnur bú við 9 mánaða aldur. 100 milljón króna framlag árið 2017 til að byggja upp einangrunarstöð. Til að framleiðslan eigi framtíð verður að tengjast við kynbótastarf á Norðurlöndum og flytja reglubundið inn. Búið að panta 11 fósturvísa, verið að vinna heilbrigðisvottorð. Fósturvísar verði sóttir í apríl, þurfa að bíða fram í júní þar til verða settir upp. Verið að breyta aðstöðu á St-Ármóti til að taka á móti þessum fósturvísum.
Nýtt kjötmatskerfi taki gildi um næsta áramót. Betur skilgreint kerfi en það sem er í notkun núna. Hvar falla Íslendingar? Er í gangi tilraun á Möðruvöllum; þeir falla í R- til O. Allir yfir 300 kg (300-340 kg), 600 daga gamlir við slátrun.
Fjármögnun félagskerfis. Búið að dæma innheimtu búnaðargjalds ólöglegt. Allt telst félög, ekki hægt að skilda menn til að vera í félagi, en bjargráðasjóður talinn vera stjórnvald og má því innheimta það. Hálfur milljarður sem þarf að brúa ef á að fjármagna öll verkefni sem búnaðargjald greiðir. Starfshópur LK um búnaðargjald lítið starfað en fer að fara af stað. Bein félagsgjöld. Fá verkefni sem á að sleppa, verður að innheimta af afurðasölu en verður að vera valkvætt.
Viðurkenning fyrir hæsta kúabúið, hæstu kúnna og þyngsta ungneytið.
Sveinn Sigurmundsson, BSSL, veitti verðlaunin.
Afurðahæsta kúabú ársins 2015 á starfssvæði FKS var Efri-Brúnavellir á Skeiðum. Þar mjólkuðu kýrnar að meðaltali 7.667 kg/ári (583 kg MFP).
Afurðahæsta kýrin á Suðurlandi var í Bjólu, það var 1237 sem mjólkaði 12.457 kg (að jafnaði 34 kg/dag allt árið). Hún er dóttir Áss frá Sumarliðabæ.
Þyngsta ungneytið, það var frá Guðnastöðum. Foxtrott, uxi af Galloway-blendingskyni sem 414,4 kg 28 mánaða gamall. Fór í UN1C.
Önnur mál
Hrafnhildur Baldursdóttir, tilraunastjóri á Stóra-Ármóti. Tilraun hófst 11. janúar en hún fjallar um áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur, sérstaklega mtt. fituinnihalds. Bornar saman tvær aðferðir, annarsvegar fituviðbót beint út í heilfóður eða sem hluti af kjarnfóðri. Gróffóður og bygg í heilfóðri ræktað á St-Ármóti. Verið að skoða fjárhagslegur ávinning, með því að prufa bæði duft og köggla er verið að koma á móts við bændur með ólíka fóðrun. Tilraun lokið í maí, uppgjöri lokið í desember.
Jökull Helgason, Ósabakka: Aðvörun til þeirra sem áhrif geta haft:
Gaurinn sá er mjög svo iðinn;
gamli vinur glæpamarðar,
að leggja undir sig land og miðinn,
Pútín Skagafjarðar.
Birkir Tómasson, Móeiðarhvoli: Gerð könnun á kjarnfóðurverði innanlands og erlendis og milli fóðursala. Borgaði 10 kr fyrir Bergafat í Feitum-Róbot miðað við Róbot en 1 kr fyrir Bergafat í Feitum-KK-20 miðað við KK-20. Hver voru svörin? Selst miklu meira af Feitum-Róbot og þar með væri hægt að leggja meira á það.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ: Þakkaði góðan fund. Enn verið að telja og biður fundinn hvort megi bara birta niðurstöður kosninga á heimasíðu BSSL daginn. Samþykkt.
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 17.10.
Fundargerð ritaði Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.


back to top