Aðalfundur FKS 28. jan. 2003

ÚR FUNDARGERÐ AÐALFUNDAR FKS 2003


Haldinn að Laugalandi í Holtum 28. janúar  2003 og hófst fundur kl. 12 á hádegi.


Formaður Sigurður Loftsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann gat um gest fundarins sem var Pálmi Vilhjálmsson framvæmdastjóri SAM. 
Bað síðan Bjarna Jónsson á Selalæk að stjórn fundi.
 


Sigurður bar upp tillögu um uppstillingarnefnd.   Í henni áttu sæti  Halla Guðmunsdóttir,
Grétar Einarsson og Elvar Eyvindsson formaður.
Tillagan var samþykkt.


Næst á dagskrá var ársskýrsla formanns.   Hann rakti helstu málefni ársins (sjá skýrslu).
Kom inn á helstu fundi, mjólkurframleiðslu, kjötmál og vinnu við nýjan búvörusamning.
Hann taldi hæpið að samningar næðust á næstu mánuðum og alls ekki fyrir kosningar.
Sigurður taldi illt að fulltrúar bænda töluðu ekki máli meirihluta þeirra. 
Kom inná kjötmálin. Sagði stjórn FKS hafa þrýst á um hækkun afurðastöðva á verði kýrkjöts og nautakjöts, m.a. með harðorðari ályktun s.l. vor sem vakti athygli fjölmiðla og fleiri. Lítill árangur hefði náðst en segja mætti að unnist hefðu vissir varnarsigrar miðað við fyrri áform og yfirlýsingar afurðastöðva. Boðaðar voru verðlækkanir og þær hefðu m.a. spáð minnkandi sölu nautgripakjöts vegna stöðunnar í öðrum kjötgeirum. Slíkt hefði þó ekki gerst enn.


Næst fór gjaldkeri Jóhann Nikulásson yfir reikninga ársins 2002.
Helstu liðir voru  til gjalda  kr. 363.074  og einnig til tekna. Rekstrarafgangur kr.  54.824.  Undirritaðir af skoðunarmönnum  Páli Lýðssyni og Guðmundi Lárussyni
Reikningar samþykktir samhljóða.


Erindi Pálma Vilhjálmssonar var næst á dagskrá.
Hann rakti helstu horfur í mjólkuriðnaðinum, verkaskiptingu, alþjóðasamninga og fleira.
Fór yfir helstu ákvæði síðustu búvörusamninga.  1992 til 1998 og 1998 til 2005.
Hagræðing sérhæfing og fækkun afurðastöðva væri staðreynd.  Af 17 afurðastöðvum 1992 væru 9 starfandi í dag.
Heimild frá  1997 til greiðslu hærra afurðaverðs hefði verið nýtt, frá einni krónu til ríflega þriggja per líter. Ríflega 900 milljónir hafa verið greiddar  á yfirverði til bænda og  væru tilkomnar m.a. vegna fækkunar afurðastöðva.
Hann sagði framleiðendur hafa þrýst á forræði yfir sínum málum í afurðageiranum .  Fyrsta skrefið hefði verið að eignarhald hefði farið yfir á herðar framleiðenda.
Pálmi taldi í raun skref hafa verið stigin til baka varðandi hagræðingu síðustu ár.  Þar kæmu til m.a. samkeppnisyfirvöld og væri í mörgu vandlifað i þeim málum í dag.
Undanfarin sex ár hefði hækkun mjólkurverðs verið einu sinni á ári.   Í hvert skipti hefði verið unnið aftur í tímann varðandi þau mál.
Samdráttur í sölu drykkarmjólkur er um 7%  á samningstímanum. Staðan væri nú þannig að stöðugt þyrfti meiri mjólk til framleiðslu á ostum þar sem mikil söluaukning hefur átt sér stað.
Þróun á greiðslumarki yfir landið er sú að einungis er aukning á svæðum KS og MBF á tíma núverandi búvörusamnings.
Getið var um í síðasta búvörusamningi að heildsöluverðlagningu skildi hætt 1.júlí 2001.
Framlenging fékkst síðan til 1.júlí 2004 sem kunnugt er.  Samkeppnisstofnun hefur gefið út að ef þessu ákvæðu verður breytt þá heyrir mjólkuriðnaður undir samkeppnislög en ekki búvörulög eins og staðan er í dag.  Pálmi taldi að með þessu væri mönnum í raun settur stóllinn fyrir dyrnar varðandi umtalsverða hagræðingu.
Hann sagði sína skoðun að meðan opinber stjórnun er  á framleiðslu mjólkur og hún er undir stuðningi ríkisins,  þá væri ekki mögulegt að gefa verð að fullu frjálst.
Kvað nauðsynlegt að tekið yrði á þessu í vinnu við nýjan búvörusamning.
Sú skylda hlyti að hvíla á okkur að magnið dekkaði innanlandsþörf. Ljóst væri t.d.  að erfiðara yrði að stýra birgðahaldi við breyttar aðstæður.  Jafnvel væri nú ljóst að viðfangsefnið þyrfti að taka á félagslegum grunni. Hugsanlega einungis gegnum sölu hráefnis.  Þá hluti væri verið að kanna í dag. Aðalatriði væri að mjólkuriðnaður lenti ekki í sömu stöðu og kjötiðnaður í dag. Krafan væri lægra matvöruverð hjá neytendum og þá umræðu þekkja flestir. Í framtíðinni yrði þrengra um greiðslu yfirverðs til bænda.  Hagræðing gæti náðst í lokun tveggja þriggja vinnslustöðva, en sú hagræðing væri aðeins kringum 30 til 50 aurar á lítra.
Innflutningur  mjólkurvara er í raun hömlulaus  í dag, en jöfnunargjöld eru lögð á.
Við hugsanlega inngöngu í ESB myndi það óhjákvæmilega leiða til minnkandi tekna hjá afurðastöðvum og bændum. 
Nýjar tilllögur í alþjóðasamningum nú eru innflutnings tolla minnkun um 36%, markaðstruflandi stuðnings um 55%. Ekkert væri neglt eða ákveðið  en allir sæju að þetta hefði mikil áhrif hér ef af yrði.   


Varðandi samkeppnislög þá sagði hann t.d. nýbúið að sameina 90% mjólkuriðnaðarins í Noregi. Það hefði fengist með skilyrðum .


Hann taldi líklegast að ef innflutningur ykist þá myndu vörur með lengst geymsluþol verða fyrst fluttar inn. Sú staða gæti komi upp ef afurðastöðvar yrðu ekki sameinaðar að þær færu að keppa sín á milli.


Spurningu Elvars á Skíðbakka varðandi útflutningsbætur erlendis, sagði Pálmi að verð myndi óhjákæmilega hækka við afnám þeirra.   Þá kæmi framleiðslukostnaður fyrr í ljós.   Fjarðlægðarverndin kæmi hér á mót.  Hann taldi víst að spænskt jógúrt sem selt hefði verið hérlendis, nyti útflutningsbóta í sínu heimalandi.


Gunnar í Hrosshaga óttaðist að vinna við búvörusamning myndi teygjast langt fram á næsta ár.   Hugsanlegt væri að teygja sig jafnlangt og Norðmenn í sameiningu afurðastöðva með samningum við tilheyrandi yfirvöld.  Þá ætti þeirri stöð að vera leyfilegt að hagræða innan síns rekstar.


Egill á Berustöðum sagði alvarlegast með búvörusamning að óvissan næði bæði fram að gerð alþjóðasamninga og breytinga varðandi samkeppnislög.  Við lok núverandi samnings er einnig útlit fyrir breytingar í alþjóðasamningum.  Hann spurði einnig um tollverndina og minnkandi innanlandsstuðning, hvað það þýddi, jafnvel þó aðeins næðist hluti þeirra krafna sem uppi væri á alþjóðavísu í dag.


Guðmundur Lárusson  vék að ágreiningi meðal bænda sjálfra og að slæmt væri að bændur kæmi með tvenns konar sjónarmið varðandi framtíðina og skipulag mála í nýjum búvörusamningi.    Reynslan væri góð og sú forsjárhyggja sem hefði verið hjá sauðfjárbændum væri víti til varnaðar. Andinn í landinu væri sá  að krafa um samkeppni væri mikil og ekki þýddi fyrir bændur annað en að taka þátt í því. Ekkert vit væri í 9 afurðastöðvum í mjólk yfir landið. Einnig þyrfti að aðild fleiri bænda á Suðurlandi að FKS.


Magnús  í Birtingaholti sagði ekki sparast stórar upphæðir  við að leggja niður mjólkurbú á Ísafirði og á Vopnafirði vegna fjarlægðar.  Eflaust kæmi þó að því.  


Karl Jónsson á Bjargi sagði málin innávið á búunum líka skipta máli. Dauðfæddir kálfar væru t.d. vandamál.   Þarna væri náttúran að segja að kálfar ættu að fæðast á vorin.  Í raun væri merkilegt hvað þó lifði, miðað við hvað margir kálfar fæðast snemma vetrar.


Pálmi taldi erfitt að meta áhrif þessara kröfu um minnkandi alþjóðastuðning.  Þær væru á efa tilkomnar að hluta vegna innkomu austur evrópu þjóða í ESB.


Valdimar í Gaulverjabæ kom inná framtíðina og að sigla þyrfti bil frjálsræðis og þess stuðnings sem er við greinina sem er í dag. Algert frelsi væri óhugsandi dæmi hérlendis rekstrarlega í mjólkurframleiðslu, en hin hliðin væri forræðishyggja sauðfjárframleiðslunnar er ekki hefði reynst vel.


Næst á dagskrá  kom Elvar Eyvindsson með tillögu uppstillingarnefndar.
Lagði  hann fram eftirfarandi tillögu:

Fullltrúar í  félagsráð til tveggja ára:
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Sigurjón Eyjólfsson, Pétursey
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Elín Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru Mástungu
Sigurjón Hjaltason, Raftholti
Einar Haraldsson, Urriðafossi
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum

Varamenn:
Ragnar Magnússon, Birtingaholti
Ólafur Helgason, Hraunkoti
Gunnar Sverrisson, Hrosshaga

Fulltrúar á aðalfund Landsambands kúabænda:
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð
Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti
Grétar Einarsson,  Þórisholti
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru Mástungu
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Jóhann  Nikulásson, Stóru Hildisey
Katrín Birna Viðarsdóttir,  Ásólfsskála
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum

Til vara:
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Gunnar Sverrisson, Hrosshaga
Sigurjón Hjaltason, Raftholti
Björn Harðarson, Holti
Þórarinn Eggertsson, Hraungerði
Sæmundur B Ágústsson, Bjólu
Þorsteinn Markússon, Eystra Fíflholti
Baldur Bjarnason, Múlakoti
Sigurður Loftsson, Steinsholti

Fulltrúar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands 2003:
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Ágúst Dalkvist, Eystra Hrauni
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru Mástungu

Til vara:
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum
Bertha Kvaran, Miðhjáleigu
Gunnar Sverrisson, Hrosshaga
Sigurjón Eyjólfsson, Pétursey

Skoðunarmenn:
Páll Lýðsson, Litlu Sandvík
Guðmundur Lárusson, Stekkum

Til vara:
Friðgeir Stefánsson, Laugardalshólum
Daníel Magnússon, Akbraut

Tillögur uppstillinganefndar samþykktar án athugasemda.


Snorri Sigurðsson ávarpaði fundinn og sagði frá heimsókn sinni til Danmerkur.  Þar væri mikil þróun í gangi,  stórar sameiningar og stækkun búa.


Sigurður Loftsson tók næst til máls þakkað góð orð um störf félagsins. Mjólkurframleiðendum hefði fjölgað í félaginu síðustu ár og væri það vel, en betur mætti gera. Varðandi hugmyndir um að félagsráðsfundir væru opnir þá taldi hann að slíkt mætti vel ræða en húsnæði setti stundum skorður.

Formaður flutti því næst tvær tillögur og bar undir fundinn.
“Aðalfundur FKS haldinn að Laugalandi 28. janúar 2003 lýsir fullum stuðningi við þá ályktun sem samþykkt var á aðalfundi LK að Laugum í Sælingsdal 20. til 21. ágúst sl.  varðandi samning um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar.  Jafnframt krefst fundurinn þess að fulltrúar bænda í samninganefndinni tali einu máli og fylgi þeim vilja greinarinnar  sem þar birtist.”


“Aðalfundur FKS haldinn að Laugalandi 28.janúar 2003 átelur þann drátt sem orðinn er  á undirbúningsvinnu við gerð nýs búvörusamnings í mjólk. Fundurinn minnir á að mjólkurframleiðsla er viðkvæmur rekstur sem krefst  mikillar fjárfestingar miðað við veltu og því er eignarmyndun hæg.  Því  er bændum nauðsyn að sjá nokkuð langt fram í tímann varðandi það rekstarumhverfi sem þeir búa við þegar áætlanir um rekstur og fjárfestingar eru gerðar.
Jafnframt er orðið brýnt að leysa þau mál sem snúa að verðlagningu mjólkur og rekstaraumhverfi mjólkuriðnaðarins þegar ákvæði um frjálsa verðlagningu á heildsölustigi taka gildi hinn 1.júlí 2004.
Núverandi búvörusamningur rennur út 1. september 2005 og því styttist sá tími sem til stefnu er.  Það er því krafa fundarins að þessi vinna hefjist nú þegar og verði hraðað sem kostur er.”

Báðar tillögur samþykktar samhljóða.


Daníel Magnússon í Akbraut ávarpaði fundinn næst og bar upp eftirfarandi  tillögu:
“Aðalfundur FKS haldinn að Laugalandi 28. janúar 2003 samþykkir að beina því til Fagráðs í nautgriparækt að bændur í nautgriparæktarfélögum undir Eyjafjöllum og  V-Skaftafellssýslu fái að velja þrjá til fjóra nautkálfa á ári á nautastöðina. Þeir hafi forgang um notkun á þessum nautum.”
Greinargerð: Bændur á þessu svæði hafa ekki jafna stöðu og aðrir bændur vegna sauðfjárveikivarna. Inn á þetta svæði má ekki flytja lifandi gripi til ræktunar. Ræktunarstefnan hefur miðast við að rækta meðalgrip, ekki þann besta.”


Guðmundur á Stekkum steig í pontu og taldi nauðsynlegt hjá Daníel að sýna þeim er stjórna ræktun í dag lágmarks virðingu.


Egill á Berustöðum tók undir sjónarmið Guðmundar og kvaðst ekki geta stutt tillöguna óbreytta.

Sigurlaug í Nýjabæ kvað menn misskilja tillögu  Daníels að sumu leyti og þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Daníel væri misskilinn.  Hún sagði hömlur á flutningi gripa á sínu svæði mjög hamlandi í nautgriparæktinni.


Gunnar í Hrosshaga taldi rétt að vísa tillögunni til stjórnar.


Egill kvaðst alveg taka undir hugmyndir varðandi breyttar varnarlínur í Rangárþingi. Það mætti alveg verða eitt varnarhólf.


Sigurður í Steinsholti lagði til að þessi tillaga yrði rædd og afgreidd á næsta Félagsráðsfundi.


Tillaga Egils á Berustöðum um frávísun á tillögu Daníels, borin undir atkvæði.    Samþykkt með meginþorra atkvæða gegn þremur.


Sigurjón Hjaltason kom inn á mælingu á  brjóstmáli í lausagöngufjósum.  Því væri nú hætt og taldi hann það galla.  Spurði einnig um nýframkomnar tillögur um stuðning við nautaeldi.


Snorri Sigurðsson var farinn af fundi og svaraði Egill á Berustöðum varðandi nautkjötið og tillögur um styrki á holdagripi.  Hann sagði nú þetta hugsað sem stuðning á hverja kú en ekki kg.   Tilkomið vegna  þess að þessi grein stefndi í þrot að óbreyttu. Eftir væri þó að útfæra form stuðnings endanlega .
 
Fleira ekki rætt og sleit formaður fundi kl. 16.00


Valdimar Guðjónsson,  ritari FKS.


back to top