Aðalfundur FKS 28. janúar 2013

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum, Hellu, mánudaginn 28. jan. 2013. Fundur hófst kl. 12:00
Samúel U. Eyjólfsson, starfandi formaður, bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu um fundarstjóra Bóel Anna Þórisdóttur og fundarritara Runólf Sigursveinsson. Tillaga formanns samþykkt samhljóða.
Bóel Anna tók við stjórn fundarins og kynnti dagskrá.

1. Skýrsla formanns, Samúel U. Eyjólfsson.
Ágætu kúabændur og aðrir fundarmenn.
Þann 3. desember síðastliðinn lét Þórir Jónsson á Selalæk af störfum sem formaður félagsins af heilsufarsástæðum. Sem varaformaður tók ég við af honum fram að þessum fundi. Ég vil við þetta tækifæri þakka honum vel unnin störf fyrir félagið. Við sendum honum og fjölskyldu hans bestu óskir um góðan bata.
Ég ætla hér á eftir að stikla á stóru á því sem hefur á daga félagsins drifið frá síðasta aðalfundi. Tíðarfar ársins má segja að hafi verið gjöfult á þessum landshluta, ekkert eldgos þetta árið en Eyfellingar og Skaftfellingar hafa ennþá þurft að glíma við afleiðingar gosanna sem voru 2010 og 2011. Starfsemi félagsins var með svipuðu sniði og undanfarin ár. Haldnir voru 4 félagsráðsfundir á árinu 2012 og 1 núna í janúar á þessu ári. Einn formlegur stjórnarfundur var haldinn auk tölvupósts-samskipta og símafunda. Á fyrsta félagsráðsfundi sem haldinn var 13. febrúar var kosinn ritari og gjaldkeri félagsins. Voru þau Samúel í Bryðjuholti og Elín í Egilsstaðakoti endurkjörin í þau embætti. Einnig voru á þessum fundi kosnir 5 fulltrúar á aðalfund Bssl. Þar sem aðalfundur LK og árshátíð var haldin á Selfossi kom það í hlut okkar að annast árshátíðina. Var skipuð árshátíðarnefnd og í henni sátu Björn í Holti, Pétur í Hvammi og Sigríður á Fossi. Ólafur í Geirakoti var fenginn til að sjá um makaferð. Bæði árshátíð og makaferð heppnuðust mjög vel og vil ég þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn kærlega fyrir.
Annar félagsráðsfundur var haldinn 8. mars. Á honum var nær eingöngu verið að semja tillögur fyrir aðalfund LK á Selfossi. Út úr þessari vinnu komu 14 tillögur sem 13 fulltrúar FKS fóru með á fundinn.
Á þriðja fundi félagsráðs 11. júní var fjallað um breytingar á ráðgjafaþjónustu landbúnaðarins,  niðurstöður úr Sunnu verkefnunum og Sigurður í Steinsholti fjallaði um málefni LK.
Fjórði fundurinn var svo haldinn 3. október. Á hann mættu Egill á Berustöðum og Einar Sigurðsson, forstjóri MS. Fóru þeir yfir stöðu mjólkuriðnaðarins og málefni MS.
Fimmti fundurinn var svo haldinn 10. janúar 2013.  Á hann fengum við Eirík Blöndal til að segja okkur frá nýju ráðgjafaþjónustunni. Einnig kom Ólafur K. Ólafs framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bænda og fræddi okkur um sjóðinn og stöðu hans.
Ég hef þá farið lauslega yfir þessa fimm fundi félagsráðs, en allar fundargerðir er að finna á vef Búnaðarsambands Suðurlands.
Stjórn Fks hélt einn fund með Bssl þann 19. september sl. með framkvæmdastjóra Bssl og ráðunautum sem koma nálægt nautgriparækt. Þar var farið yfir öll helstu mál, sem snúa að nautgriparæktinni s.s. Stóra-Ármót, NorFor, rekstrarráðgjöf, ræktunarstarfið og kynbótastöðina. Þessi fundur var mjög upplýsandi.
Stjórn og félagsráð sendi frá sér tvær ályktanir á árinu. Önnur var um verðlagningu mjólkur og var hún send verðlagsnefnd. Hin var um breytingar á lögum um háskóla landsins, en við þessar breytingar eiga sérlög um Stóra-Ármót að falla úr gildi og var hún send til Landbúnaðarháskólans.
Félagar í FKS eru 247 nú um áramótin, en innleggjendur á nautgripaafurðum í þessum þrem sýslum eru 323 og þar af eru 236 sem leggja inn mjólk. Það hefur fækkað um 5 mjólkurframleiðendur á síðasta ári. Á síðasta ári og núna um áramótin eru skráðar hjá MS 11 innleggsbreytingar. Þarna er bæði verið að breyta yfir í hlutafélög og nýtt fólk að koma inn í búskap. Það er alltaf gaman að fá nýtt fólk í þessa búgrein.
Félagið tók þátt í Sunnlenska sveitadeginum og Kótilettunni á Selfossi í samstarfi við sláturhúsið á Hellu og Landssambands kúabænda. Á báðum hátíðunum var heilgrillað naut og átust þau hratt og vel upp. Kúabændur sáu um að framreiða kjötið til hátíðagesta. Þess má geta að það fóru 25 dósir af sósu með öðru nautinu sem var 230 kg að þyngd.
Nautakjötsverð hækkaði tvisvar á árinu. Fyrst í mars um 3,3% og síðan í júní um 4,1%. Á árinu 2012 var mesta nautakjötssala sem verið hefur, en ásetningur á árinu hefur dregist töluvert saman svo það er áhyggjuefni ef við náum ekki að anna eftirspurn!
Verðlagsnefnd kom sér einu sinni saman um verðhækkun á mjólk á síðasta ári. 1. júlí hækkaði mjólkin um 2,80 kr eða 3,6%. Manni sýnist að aðfangahækkanir síðustu mánaða séu búnar að éta þessa hækkun vel upp og gott betur.
Svo má nefna að ríkið er hætt að greiða mótframlag í lífeyrissjóð bænda þannig að þar kemur bein skerðing á launalið bænda.
Aðalfundur LK verður haldinn á Egilsstöðum 22.-23. mars nk. Félag kúabænda á Suðurlandi á rétt á 12 fulltrúum á þann fund. Á fundinn mæta 40 fulltrúar þannig að við eigum 30% af fulltrúunum og ættum því að geta haft heilmikil áhrif á starf LK.
Að lokum vil ég þakka öllum kærlega fyrir samstarfið á árinu. Góðar stundir.

 

Fundarstjóri þakkaði  Samúel fyrir og kynnti næsta dagskrárlið.

2. Reikningar félagsins, Elín Bjarnveig Sveinsdóttir.
Kynnti og lýsti reikningum (ársreikningur/efnahagsreikningur) –  sem þegar hafði verið dreift  til allra fundarmanna. Rekstrarhagnaður árið 2012 alls  132.998 krónur. Eignir alls þann 31.12.2012 voru 2.325.254 krónur. Eigið fé var í árslok 2012 1.710.336 krónur og skammtímaskuldir,(ógreidd árgjöld) 614.918 krónur. Endurskoðendur reikninga voru María Hauksdóttir og Einar Helgi Haraldsson.

Fundarstjóri þakkaði Elínu fyrir og gaf orðið laust um skýrslu formanns og reikninga félagsins. Enginn bað um orðið.

Fundarstjóri bar reikninga undir atkvæði – með handauppréttingu. Reikningar samþykktir samhljóða.

3. Kosningar (fyrri hluti)
a) Formaður kosinn leynilegri kosningu en talning atkvæða í heyranda hljóði.
Valdimar Guðjónsson: 33
Jóahnn Nikulásson: 2
Kjartan Magnússon: 1
Bóel Anna Þórisdóttir 1
Elvar Eyvindsson: 1
Fundarstjóri lýsir Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ, réttkjörinn formann félagsins.
Valdimar þakkaði traustið sem sér hafði verið sýnt með þessu kjöri.

 

b) Kjör 9 fulltrúa í félagsráð og 3 varamanna.
Kjörnefnd hefur undirbúið kjörseðil. Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 9 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 3 næstu varamenn.

 

Tilbúnu kjörblaði dreift meðal fundarmanna til kosningar. Fundarstjóri ítrekar að allir félagsmenn séu  í kjöri þó tillaga hafi verið lögð fyrir um fólk sem sé tilbúið að takast starfann á hendur.  Skipuð talningarnefnd en hana skipa Áslaug Bjarnadóttir Miðfelli 1, Jóhanna Gunnlaugsdóttir í Stíflu og Guðmundur Jóhannesson frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.  Meðan talið var, var gengið til næsta liðar dagskrár.

Niðurstöður kosninga í félagsráð:
Elín B. Sveinsdóttir: 36 (1)
Ásmundur Lárusson: 34 (2)
Borghildur Kristinsdóttir: 28 (3)
Ólafur Helgason:  27 (4-5)
Ágúst Sæmundsson: 27 (4-5)
Reynir Þór Jónsson: 25 (6-7)
Sigríður Jónsdóttir: 25 (6-7)
Arnfríður S. Jóhannesdóttir: 22 (8)
Berglind Bjarnadóttir: 20 (9) – hlutkesti réð um röð
Eyvindur Ágústsson: 20 (1. varam.)
Einar Magnússon: 19 (2. varam.)
Karel G. Sverrisson: 18 (3. varam.)

 

4. Kynning á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf – Karvel Lindberg Karvelsson, framkvæmdastjóri.
Karvel ræddi tilurð félagsins, félagið byrjaði starfsemi þann 1.janúar sl. Á síðasta Búnaðarþingi var samþykkt tillaga um að stefnt skyldi að sameiningu ráðgjafar búnaðarsambanda og Bændasamtakanna. Aukabúnaðarþing sem haldið var í október sl. samþykkti síðan stofnun félagsins. Karvel fór síðan yfir markmið félagsins sbr. ályktanir Búnaðarþings. Kynnti núverandi skipurit félagsins og helstu stjórnendur og ábyrgðarmenn.
Til að byrja með  hefur mestur tími farið í að skipa fólki til starfa í nýju fyrirtæki eftir óskum starfsmanna eins og kostur var. Lokið er að mestu  ráðningum starfsmanna innan fyrirtækisins.
Nú er unnið að undirbúningi símsvörunar, tölvumála, heimsasíðu og gjaldskrármála auk skiptingu fjármuna úr búnaðarlagasamningi og af búnaðargjaldi. Öll þessi mótunarvinna er í  gangi og fer fram meðal starfsfólks sjálfs og stjórnar félagsins.

Ari Páll í St-Sandvík spurði nánar um stjórnendur fyrirtækisns og skilgreiningu starfa þeirra.

Höskuldur Gunnarsson á St-Ármóti  spurði um starf á sviði þekkingaryfirfærslu og erlend samskipti sem Gunnar Guðmundson stýrir.

Karvel  svaraði því til að Gunnar hefði margskonar reynslu úr fyrra starfi og hann myndi eins og  nafnið benti til, vera í tengslum við erlenda ráðgjafa og stuðla að sí- og endurmenntun starfsmanna.

Einar i Egilsstaðakoti ræddi skipan stjórnenda innan fyrirtækis og taldi hlut Suðurlands fyrir borð borinn.

Ari á Helluvaði spurði um starfskiptingu, yrði svipaður fjöldi starfsmanna og starfsstöðva áfram ?

Ómar í Lambhaga spurði um lengd boðleiða innan fyrirtækis, væri  ekki of langt milli yfirstjórnar og almennra starfsmanna fyrirtækisins ?

Karvel  sagði að ekki mætti horfa um of á skipuritið, viljinn væri til að sérhæfa starfsemina eins og kostur er með núverandi starfsmönnum.

Guðmundur í Hraungerði spurði um fjárhagsgrunn fyrirtækisins.

Karvel sagði að sú skipting væri ekki ljós, vinna væri í gangi um þessi mál og væntanlega verður það kynnt á næsta Búnaðarþingi.

Jóhann í St-Hildisey spurði um þátt búnaðargjalds einstakra búgreina m.t.t gjaldskrár og verð á seldri þjónustu.

Kristinn á Þverlæk spurði um þær „vörur“ sem verða til sölu – Eru þær tilbúnar ?

Karvel sagði frá því að þessa vinnu ætti eftir að vinna en fljótlega kæmi í ljós hvað væri í boði og á hvaða verði.

Valdimar í Gaulverjabæ hvatti til þess að vandað yrði til gerð heimasíðu fyrirtækisins, hún yrði  ásýnd fyrirtækisins og mikilvæg fyrir notendur þjónustunnar.

5. Kosningar (seinni hluti)
c) Kjör 12 fulltrúa á aðalfund LK og 12 varamanna.
 Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 12 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 12 næstu varamenn.

 

Fundarstjóri gerir fundarhlé meðan á leynilegri kosningu stendur.

 

Niðurstaða:
Elín B. Sveinsdóttir: 37 (1)
Valdimar Guðjónsson: 35 (2)
Bóel Anna Þórisdóttir 34 (3)
Jóhann Nikulásson: 32 (4)
Ásmundur Lárusson: 29 (5)
Pétur Guðmundsson: 27 (6)
Ólafur Helgason: 26 (7)
Björn Harðarson: 25 (8)
Jórunn Svavarsdóttir: 24 (9)
Sævar Einarsson: 22 (10)
Guðbjörg Jónsdóttir: 17 (11)
Samúel U. Eyjólfsson: 16 (12)

 

Kjartan Magnússon: 15 (13) – 1. varam. – eftir hlutkesti
Borghildur Kristinsdóttir 15 (14) – 2. varam.
Elín Heiða valsdóttir: 11 (15) – 3. varam.
Reynir Þór Jónsson: 9 (16) – 4. varam.
Sigríður Jónsdóttir: 8 (17) – 5. varam. – eftir hlutkesti.
Ómar Helgason: 8 (18) – 6. varam.
Ágúst Sæmundsson: 7 (19) – 7. varam.-eftir hlutkesti
Katrín Birna Viðarsdóttir: 7 (20) – 8. varam.
Daníel Magnússon: 6 (21) – 9. varam. – eftir hlutkesti
Karel G. Sverrisson: 6 (22) –  10. varam.
Inga Birna Baldursdóttir: 3 (23)  – 11. varam. eftir hlutkesti
Andrés Andrésson: 3 (24) 12. varam.

 

d) Kjör 5 fulltrúa á aðalfund BSSL og 5 til vara.
Stjórn  gerir tillögu til aðalfundar um að vísa kjöri þessara fulltrúa til félagsráðs.
 Tillagan samþykkt samhljóða með þorra atkvæða.

e) Kjör 2 skoðunarmanna reikninga og 2 til vara.
Fundarstjóri stýrir þessara kosningu án sérstaks undirbúnings.

 

Fundarstjóri ber upp tillögu um skoðunarmenn: María Hauksdóttir og Einar H. Haraldsson. Til vara: Rútur Pálsson og Daníel Magnússon.

Tillaga fundarstjóra samþykkt samhljóða.

 

6. Staða nokkurra verkefna hjá LK – Sigurður Loftsson formaður LK
Sigurður þakkaði Þóri Jónssyni fráfarandi formanni FKS fyrir vel unnin störf og bauð Valdimar velkominn til starfa
Formaður LK ræddi síðan nokkuð hækkanir á aðföngum síðasta árs, þar ber hæst hækkun á kjarnfóðurverði um allt að 20 til 30%. Áburðarverð virðist ætla að vera á svipuðu róli og var á síðasta ári.
Verð til bænda á mjólk hækkaði síðast 1.júlí sl. Svo virðist að launaliðurinn hafi setið eftir í verðlagsgrundvellinum, þó breytilegi kostnaðurinn hafi hækkað, þá hefur fastur kostnaður lækkað á móti, þar er það fyrst og fremst fjármagnskostnðurinn sem hefur lækkað.
Framleiðsla og sala nautgripakjöts hefur verið í jafnvægi  eða um 4.100 tonn á ári og aldrei verið meiri sala á einu ári. Hins vegar er ásetningur minnkandi og því líklegt að innflutningur nautgripakjöts aukist næstu misseri. Ásetningurinn um 7% minni árið 2012 en var árið 2011. Ræddi síðan störf starfshóps um innflutning á nýju erfðaefni í  holdnautastofninn, jafnframt hefur verið unnið að innleiðingu EUROP matskerfisins. Gera þarf átak í ráðgjöf  til bænda í sem stunda kjötframleiðslu af nautgripum.
Ræddi síðan aðbúnað nautgripa og fréttaflutning af slíkum málum síðustu vikur. Mestu skiptir að við, sem einstakir bændur, vinni sem best að okkar málum varðandi aðbúnað gripa. Miklvægt er að viðhalda góðri ímynd greinarinnar.
Nýr sjúkdómur,  smitandi barkarbólga,  kom upp á einu kúabúi á liðnu ári. Nauðsynlegt er að  koma upp bótasjóði vegna slíkra mála.
Þá ræddi Sigurður um viðhorfskönnun meðal kúabænda sem LK  ætlar að leggja fyrir núverandi greiðslumarkshafa um  framtíðarskipulag mjólkurframleiðslunnar og ýmis álitamál greinarinnar. Könnunin verður gerð nú í febrúar og niðurstöður kynntar á aðalfundi LK  í vor. Þetta verður framkvæmt sem netkönnun en jafnframt hringt út til þeirra sem ekki eru með netfang.
Ræddi síðan fjármögnun í landbúnaði. LK mun leggja fram á búnaðarþingi tillögu um fjármögnun á jarðnæði.
Þá nefndi Sigurður ályktun síðasta Búnaðarþings um  sæðingarkostnað. Mikilvægt  að  horfa til þess að gjaldskrá  hvetji til þátttöku og ekki verði hrólfað við skipulagi  sem reynst hafi vel.
Að lokum nefndi Sigurður  að aðalfundur LK verður haldinn 22.-23.mars næstkomandi á Hótel Héraði.
Ómar í Lambhaga spurði um innflutning erfðaefnis til holdanautanotkunar
Guðmundur Í Hraungerði spurði um kyngreint sæði, hvort það væri handan við hornið.

 

Sigurður formaður LK sagði að hann hefði séð drög að skýrslu starfshópsins – og  hann væri ekki bjartsýnn á innflutning erfðaefnis  næstu ár, miðað við tillögur hópsins.
Kyngreint sæði er tiltölulega fjarlægt hjá okkur þar sem stofnstærðin er þetta lítil og kostnaður mikill.
Ari á Helluvaði þakkaði  frumkvæði LK að veffræðslu , vonandi verður framhald þar á.

 

7. Viðurkenningar fyrir góðan rekstrarárangur og bústjórn – niðurstöður úr SUNNU-verkefninu. – Runólfur Sigursveinsson fagstjóri rekstrar  hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf.

 

Runólfur sagði frá SUNNU-verkefni Búnaðarsambands Suðurlands en það hefur verið í gangi í 16 ár.  Jafnframt gat hann um niðurstöður rekstrar áranna 2010 og 2011 og árangur bestu búanna. Hann gat  um þær mælistærðir sem miðað er við,  en þær eru framlegðarstig og breytilegur kostnaður. Alls eru  rúmlega 60 bú innan verkefnisins. Unnin er rekstrargreining fyrir hvert bú, SVÓT-greining og síðan svokallað samanburðarblað þar sem þátttakendur geta séð hvar þeir eru í röð búanna.
Að lokum afhenti Rúnólfur fulltrúum eftirtalinna búa viðurkenningarskjal frá Búnaðarsambandi Suðurlands auk ostakörfu frá Auðhumlu sem Guðmundur Geir Gunnarsson mjólkurbústjóri afhenti.
Eftirtalin kúabú fengu viðurkenningu fyrir afburða árangur í rekstri og bústjórn árin 2010 og 2011, raðað í stafrófsröð:
Bryðjuholt, Hrunamannahreppi – Samúel U. Eyjólfsson og Þórunn Andrésdóttir.
Gýgjarhólskot, Bláskógabyggð  – Eiríkur Jónsson.
Miðfell 5, Hrunamannahreppi –  Áslaug Bjarnadóttir og Gunnlaugur Magnússon
Móeiðahvoll, Rangárþingi eystra – Birkir A. Tómasson og Bóel Anna Þórisdóttir
Sel, Rangárþingi eystra – Inga Birna Baldursdóttir og Karel G. Sverrisson

 

8. Önnur mál
a. Fundarstjóri kynnti tillögu að ályktun frá stjórn og félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi um sæðingamál.

 

„FKS telur ekki rétt að sameina sæðingastarfsemi á öllu landinu að svo stöddu. Nýtt ráðgjafafyrirtæki bænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf, hefur litið dagsins ljós. Óljóst er ennþá hvernig starfsemi búnaðarsambandanna verður í framhaldinu og hvernig framlögum til kynbótastarfsins verður varið.  Það er álit FKS að fyrst eigi að sjá hvernig þessi breyting á ráðgjafaþjónustunni kemur út áður en farið er að skoða sameiningar  á sæðingarstarfseminni. Kynbótastöð Suðurlands hefur hagrætt í sínum rekstri og endurskipulagt sæðingarnar. Teljum við nauðsynlegt að aðrir landshlutar reyni einnig að hagræða sem mest í sínum rekstri áður en hægt er að ræða um sameiningar.“

Sveinn Sigurmundsson ræddi forsögu málsins m.t.t. ályktana LK og Búnaðarþings.

 

Tillagan samþykkt síðan samhljóða.

 

b. Egill Sigurðsson formaður Auðhumlu og MS ræddi m.a. sviptingu mjólkurleyfis tveggja búa á liðnum vikum. Annað búið er komið með tímabundið mjólkursöluleyfi. Þessi mál verður að taka föstum tökum.
Þá ræddi Egill einnig sölumálin en þau ganga vel. Nefndi þær umfangsmiklu breytingar sem eru í gangi innan fyrirtækisins.  Þá nefndi Egill gagnrýni á verðlagningu fyrirtækisins til Kú ehf.
Loks ræddi Egill tollamál, bæði m.t.t. verndar hér innanlands og eins varðandi mögulegan aukinn tollkvóta inn á ESB.

Í lok fundar sleit Samúel U. Eyjólfsson fundi og óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar. Fundinum lauk kl 15.

 

Fundargerð ritaði Runólfur Sigursveinsson
 


back to top