Aðalfundur FKS 31. janúar 2011

Fundurinn hófst með léttum hádegisverði kl 11:30 í boði félagsins en fundarstörf hófust kl 12:10

Fundarsetning:  Formaður félagsins setti fundinn og gerði tillögu að starfsmönnum fundarins, þannig að fundarstjóri verði Ragnar Magnússon í Birtingarholti og ritari Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum. Tillaga formanns samþykkt og gengið til dagskrár.

1.  Skýrsla formanns: Þórir Jónsson
Ágætu félagar og gestir.
Síðasta ár verður seint  talið venjulegt ár. Eitt  öflugasta eldgos síðari ára gekk yfir Eyjafjöll og nágrenni sem hefur valdið  íbúum búsifjum  og margs háttar tjóni.  Síðan með eindæmum gott sumar og haust með tilliti til heyfengs og kornuppskeru.  Á margan hátt gott búskaparár ef litið er til gróðursfar og búskapar en verðhækkanir á aðföngum höfum við öll fundið fyrir.
Félagar í Félagi kúabænda á Suðurlandi voru nú við síðustu áramót 239 en nautgripabændur á félagssvæðinu eru 303 nú um áramót. Félagsráðið er vel virkt, umræður á fundum félagsráðs góðar eins og sést í fundargerðum félagsins.
Félagsráð hélt 5 fundi á árinu og einn stjórnarfund. Á fyrsta fundi félagsráðs var Arnheiður á Guðnastöðum  endurkjörinn ritari félagsins  og Elín í Egilsstaðakoti endurkjörinn  gjaldkeri. Þá var  gengið til kosninga  um 9 fulltrúa á aðalfund Landsambands kúabænda og 5 fulltrúa félagsins  á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands
Afgreiðsla  tillagna  sem samþykktar voru  á síðasta aðalfundi FKS, önnur um stöðu  mjólkurframleiðslu utan greiðslumarks. Tillagan var send sjávarútvegs- og  landbúnaðarráðherra.
Hin tillagan um laun stjórnar sem vísað var til félagsráðs, hún var afgreidd á félagsráðsfundi 28 sept. s.l.  með  skipan nefndar  sem skyldi  skila tillögu  til næsta aðalfundar félagsins  einnig mundi hún taka fyrir árgjald félagsins og akstur vegna félagsstarfa.  Tillaga nefndarinnar verður lögð fyrir fundinn hér á eftir.
Á fundum félagsráðs á árinu hafa umfjöllunarefni verið æði fjölbreytt , stefnumörkun greinarinnar til næstu ára í samstarfi við Búnaðarsamband Suðurlands, verðlagning afurða, lánamál kúabænda svo og viðbrögð og afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli svo eitthvað sé nefnt.
Það hefur komið fram á fundum félagsráðs að stefnumörkun kúabænda til næstu ára  er  best komin í tengslum við SUNNU -verkefnið. Það er afar mikilvægt að kúabændur skoði þátttöku í þessu verkefni með opnum huga. Uppstokkun á því og áherslubreytingar verða kynntar hér síðar á fundinum af Runólfi Sigursveinssyni.
Áhersla um að ná niður kostnaði við framleiðslu á afurðum nautgripa hefur verið rætt á flestum fundum félagsráðs og á fundi 7. desember sl. lýstu bændurnir í Norðurgarði og Stíflu rekstri og aðstöðu  í búrekstri sínum, en þessi bú eru í hópi 11 best reknu búanna úr rekstrargreiningu SUNNU -búanna.
28. september  flutti Einar Sigurðsson  forstjóri  MS og Egill Sigurðsson stjórnarformaður Auðhumlu erindi á félagsrásfundi um stöðu mjólkurframleiðslunnar í máli þeirra kom fram að árin 2009 og 2010 hafa verið tímamótaár sem m.a. markast af samdrætti í ráðstöfunartekjum almennings, fólksfækkun og erfiðu efnahagsástandi.
7. desember flutti okkur erindi Daði Már Kristófersson hagfræðingur,  ræddi hann um framleiðslukostnað mjólkur milli landa út frá tiltækum gögnum. Ljóst, að kostnaður hér á landi er langtum hærri en annars staðar. Mest munar í fjármagnskostnaði og afskriftum. Ljóst er, að undanfarin ár hafa verulegar greiðslur farið út úr mjólkurframleiðslunni, frá núverandi bændum til fyrrverandi bænda. Breytingar á kerfinu fela í sér eignatilfærslu milli kynslóða.
Formaður LK Sigurður Loftsson hefur verið boðaður á flesta fundi félagsráðs og flutt okkur fréttir af vettvangi Landsambands kúabænda hverju sinni. 
Í lánamálum kúabænda hefur Runólfur Sigursveinsson ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands  unnið eins og áður, en úrlausnir banka hafa ekki verið fýsilegar fyrir alla bændur og mörg mál enn  ekki full afgreidd.
Félagið ásamt fleiri aðilum kom að því, að koma á fót  afleysingarþjónustu á gossvæðinu í nágrenni Eyjafjallajökuls, félagið tók að sér að vera á bakvakt ef afleysingarmaður forfallaðist.
Áhugi er fyrir því hjá  kúabændum að efla og styðja  við tilraunastarfið á Stóra-Ármóti.  Í því sambandi var skipaður hópur úr félagsráði til að vinna að því. Hópurinn hefur fundað tvisvar á árinu með tilraunastjóra Stóra- Ármóts, Grétari Hrafni Harðarsyni.
Aðalfundur Landsambands kúabænda var haldinn á Hótel Sögu 26. og 27. mars þar átti félagið 9 fulltrúa, framtíðarhorfur, stefnumörkun til næstu ára og staðan í lánamálum fengu mikla umræðu. Margar tillögur voru afgreiddar á fundinum,  þeirra merkastar, forgangur greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað, breytingar á samþykktum LK og tillaga um  að koma á fót kvótamarkaði mjólkur. Árshátíð kúabænda  var haldin að fundi loknum, hún  var vel sótt og heppnaðist með ágætum.
Formaður sótti  formannafund Búnaðarsambands Suðurlands  í apríl sem haldinn var á Hvolsvelli en þar var ástand og horfur vegna eldgossins  í Eyjafjallajökli til umræðu.
Stjórn félagsins fundaði með sláturleyfishöfum SS og Sláturhúsinu Hellu  8.júní  um afsetningu nautgripakjöts. Þann sama dag hafði Sláturhúsið á  Hellu  þegar hækkað verðskrá um 8 % og aðrar afurðarstöðvar fylgdu á eftir. Síðan á síðustu mánuðum ársins  hækkaði SS um 2% í tvígang og  aðrir fylgdu   á eftir. Þetta sýnir að einhver samkeppni milli afurðastöðva er að skila sér.
 Það var ánægjulegt  fyrir félagið að taka þátt í Kótelettunni á Selfossi í júní mánuði að undirlagi LK. Í samstarfi við Sláturhúsið á Hellu var þar heilgrillað naut og borið fyrir gesti. Þetta framtak Sláturhússins á  Hellu og LK vakti mikla lukku og þakkar félagið fyrir það.
Stjórn FKS hefur  fundað tvisvar frá síðasta aðalfundi með forsvarsmönnum Búnaðarsambands Suðurlands, efni fundanna var þjónusta og ráðgjöf sem snýr að nautgripabændum og stefnumörkun til næstu ára. Þá er kúasýning fyrirhuguð nú í sumar 27. ágúst á Hellu.
Kjörnir fulltrúar félagsins sóttu aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri 31.ágúst,  frá félaginu komu nokkrar tillögur inn á fundinn. Á fundinum þar voru m.a. samþykktar tillögur um kornrækt, kjaramál og viðbrögð vegna eldgossins.
Haustfundir Landsambands kúabænda  hér á Suðurlandi voru haldnir á Þingborg 14.október og Höfðabrekku  þann 18. sama mánaðar. Þar var mest rætt um kvótamarkaðinn og verðlagningu mjólkur. Þátttaka var góð á Þingborg en dræm á Höfðabrekku.
Félagið hefur staðið fyrir söfnun til Mæðrastyrksnefndar á árinu eins og áður. Í heild hafa safnast  564.300 kr. Félagið vil koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa lagt söfnuninni lið. Það er ekkert til fyrirstöðu með að halda henni áfram og vill félagið hvetja kúabændur til þátttöku í henni.
Framleiðsla nautgripakjöts var á síðasta ári 3.916 tonn .Fyrstu 11 mánuði ársins er ásetningur ívið minni en árið áður  Markaðshlutdeild þess  er  16.4%, sala jókst um 4,3 %. Þá hækkaði verð á árinu um 12 %, en ef litið er til þriggja síðustu ára er raunlækkun á afurðarverði til bænda  um  18 %.
Heildarframleiðsla mjólkur á landsvísu  á liðnu ári  var   123,2 milljónir lítrar    Samdráttur um 1,2% .Hér á Suðurlandi voru framleiddir á  240 búum rúmlega  45,8 milljónir lítra. Greiðslumark mjólkur á Suðurlandi við síðustu áramót  var 43.155.657 lítrar. Verðlagning mjólkur  umfram greiðslumark sem Auðhumla tekur á móti hefur  fylgt því  hvaða verðum er hægt að ná í útflutningi.  Það er íhugunarvert hvers vegna umframmjólk sem Auðhumla tekur á móti er ekki  verðlögð til framleiðenda á sama grunni og mjólk innan greiðslumarks, það er að segja eftir efnainnihaldi.
Það hafa verið væntingar um það á undanförnum mánuðum að leiðrétting á lágmarksverði mjólkur fari að koma í ljós. Á fundi Verðlagsnefndar  21. janúar s.l. var tekinn ákvörðun um að hækka lágmarksverð mjólkur  1. febrúar n.k.  um 3,25 kr. á lítra. Það er minna en búist var við, þetta getur ekki verið annað en áfangi að því,að ná fullri reiknaðri hækkunarþörf fram, miðað við þær skýringar sem fylgja þessari hækkun.
Það er ekki að efa að þeir sem semja fyrir okkar hönd hafa þurft að hafa fyrir því að ná þessu  fram  en viðsemjendur okkar hafa verið nokkuð neðarlega á stikunni  fyrst  ekki náðist nema helmingur af reiknaðri  hækkunarþörf.
 Innganga Íslands í ESB er ekki kúabændum til hagsbóta,  það hefur verið sýnt fram á að íslensk mjólkurvara er mjög háð tollverndinni. Þær vörur sem njóta engrar eða mjög takmarkaðrar fjarlægðarverndar er um 52 % af mjólkurvörusölunni.Það gæti haft  alvarlegar afleiðingar fyrir mjólkurframleiðslu í landinu ef við gengum  þar inn.
 Það kom mjög á óvart sá gjörningur hjá ráðherra landbúnaðarmála þegar hann setti með reglugerð, bann á viðskipti með greiðslumark  í mjólk frá 17.maí á liðnu ári. Þetta kom mjög illa við framleiðendur að skella þessu á. Og ekki nóg með það heldur skildu engin viðskipti fara fram fyrr en 1. desember.  Þessu var mótmælt af stjórn LK og óskað eftir að opnað yrði á viðskipti  ekki seinna en 15. september en undir það var ekki tekið.
Fyrsti tilboðsmarkaður með greiðslumark  sem var 1. desember náðu viðskipti  til 138.555 lítra eða rétt um 15% af því greiðslumarki sem boðið var til sölu. Jafnvægisverð reyndist 280 kr. á lítra
 Það er  krafa kúabænda að fjölga markaðsdögum með greiðslumark mjólkur innan hvers árs, en  eru nú samkvæmt reglugerð  tveir, 1. júní og 1. desember.
Frumvarp lá fyrir Alþingi sl. vetur um að styrkja ákvæði í lögum um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað. Þegar fór að hilla undir það að frumvarpið yrði tekið til afgreiðslu á haustdögum var það dregið til baka. Það er forgangsmál  fyrir mjólkurframleiðsluna í landinu  að þetta mál verði tekið upp að nýju á Alþingi og fái þá afgreiðslu að allir framleiðendur standi jafnir fyrir lögum um  framleiðslu og sölu á mjólk. Um þetta verður flutt tillaga síðar á fundinum.
Góðir félagar, við þurfum að hafa fyrir því að halda okkar hlut, kostnaðarhækkanir í hverjum mánuði og verðlagning  á afurðum  okkar heldur ekki í við verðlag. En það er þó bót í máli  veðurfar er milt og gefur von um góða uppskeru.
 Að lokum vil ég  þakka sunnlenskum kúabændum fyrir ánægjulegt samstarfið á síðasta ári.
Takk fyrir

2. Reikningar félagsins: Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, gjaldkeri.
Tekjur ársins 2010 voru 1.512.725 kr og hagnaður ársins var 182.142. Eignir félagsins 31.12.2010 voru 1.614.129 kr á bankareikningi og ógreidd árgjöld 11.145.

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og reikninga. Enginn kvað sér hljóðs undir þessum lið. Reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða.

3. Kosningar:
a)
Kosning formanns var leynileg og skrifleg. Atkvæði fóru þannig: Þórir Jónsson, Selalæk hlaut 30 atkvæði. 1 seðill var auður.

b) 9 fulltrúar í félagsráð og 3 varamenn
Elín B. Sveinsdóttir 27 atkv. ( 1. Sæti)
Ásmundur Lárusson, Norðurgarði 25 atkv. (2.-3. sæti)
Sigurðu Þór Þórhallsson, Önundarhorni, 25 atkv.  (2.-3. sæti)
Valdimar Guðjónsson , Gaulverjabæ, 20 atkv. (4. sæti).
Andrés Andrésson, Dalsseli , 19 atkv.  (5.-7. sæti)
Ólafur Helgason, Hraunkoti, 19 atkv. (5.-7. sæti)
Ómar Helgason, Lambhaga,  19 atkv. (5.-7. sæti)
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði, 16 atkv. (8.-9. sæti)
Guðný Sigurðardóttir ,Suður-Hvoli, 16 atkv. (8.-9. sæti)
Ágúst Sæmundsson, Bjólu, 14 atkv.  (varam. 10.-12. sæti)
Inga Birna Baldursdóttir, Seli,  14 atkv. (varm. 10.-12. sæti)
Sigríður Jónsdóttir, Fossi, 14 atkv. (varam. 10.-12. sæti)
Aðrir sem hlutu atkvæði voru:
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu (11 atkv.), Páll Jóhannsson, Núpstúni (10 atkv.), Guðrún Helga Þórisdóttir, Skeiðháholti (7 atkv.) Örvar Arason, Akurey (6 atkv.), Valdimar Óskarsson, Bjóluhjáleigu (5 atkv.),  Bragi Birgisson, Efri-Gegnishólum (4 atkv.), Birkir Tómassson, Móeiðarhvoli (1 atkv.), Hlynur Theódórsson, Voðmúlastöðum (1 atkv.) og Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti (1 atkv.).

c) 12 fulltrúar á aðalfund LK og 12 varamenn
Formaður bar upp eftirfarandi tillögu stjórnar  um að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund LK til félagsráðs:
Aðalfundur Félags Kúabænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum, Hellu 31. janúar 2011, samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Landssambands kúabænda til félagsráðs. Kosning skal vera leynileg og skrifleg.

Formaður vísaði til samþykkta LK, gr 5.2 en þar stendur „Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð, sem kosið er á aðlafundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. tvöfaldan þann fjölda fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúakjöri þangað“
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

d) 4 fulltrúar á aðalfund BSSL og 4 til vara
Tillaga stjórnar um að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund BSSL til félagsráð borin upp og samþykkt.
Tillagan hljóðar svo:
Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum, Hellu, 31. janúar 2011, samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til félagsráðs. Kosning skal vera skrifleg og leynileg.

e) 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara
Tillaga kom úr sal um  að sömu skoðunarmenn verði áfram,  en þeir eru aðalmenn: María Hauksdóttir, Geirakoti og Einar Haraldsson, Urriðafossi og til vara Daníel Magnússon, Akbraut og Rútur Pálsson, Skíðbakka 1.
Tillagan samþykkt með lófaklappi.

4.  Breyting á SUNNU-verkefninu.
Runólfur Sigursveinsson fór yfir upphaf og tilurð Sunnuverkefnisins en verkefnið hófst árið  1997 – þá voru rúmlega 30 bú sem tóku þátt í verkefninu.
Merkjanlegur árangur hefur náðst af verkefninu hvað varðar breytilegan  og hálffastan kostnað.
Nú hefur verið gerð samantekt og úrtak 11 búa sem hafa sýnt hvað bestan árangur m.v. meðaltöl síðustu ára  (þau hafa m.a.náð  8 kr lægri breytilegum kostnaði pr.l.  að meðaltali).
Nú þarf að fara að endurmeta Sunnu-verkefnið annars vegar vegna fjármögnunar þess , en  stuðningur við verkefnið er að renna út. Sunnu-verkefnið hefur verið fjármagnað bæði með árgjaldi búa(10.000-15.000 kr á bú) og hins vegar með tímabundnum stuðningi úr búnaðarlagasamningi sem veittur var til átaksverkefna í rekstarráðgjöf,  en sá stuðningur er útrunninn frá og með áramótum. Hins vegar þarf svona verkefni alltaf að vera í endurskoðun með tilliti til þarfa búa fyrir rekstrarráðgjöf.
Fyrirhugað að halda verkefninu áfram.  Ákveðnir grunnþættir  verða áfram unnir en draga þarf úr áætlanagerð eða taka fyrir þær gjald.
Árgjald þarf að hækka  og má reikna með að það fari í 35.000 – 40.000 kr/bú en það er kostnaðarþáttur fundinn út úr vinnuskýrslum starfsmanna sem skráð hafa vinnustundir við verkefnið.
Áfram er þó mikill ávinningur af því að taka þátt og vera í Sunnu- verkefninu.  Úrvinnsla úr rekstrargögnum gefur bændum betri yfirsýn yfir reksturinn og þar af leiðandi betri grunn til ákvarðannatöku.
Á næstunni verða haldnir Sunnufundir – bæði til að fara yfir hefðbundinn samanburð á meðaltölum og rekstrartölur síðasta árs en einnig er nýjung að nýta þekkingu þeirra búa sem náð hafa hvað bestum árangri og ætla nokkrir af þeim bændum að deila reynslu sinni.

(Næst á dagskrá var liður 5, erindi Stefáns Hauks en þar sem hann var ekki mættur var næst tekið fyrir liður 6 í dagsskrá).

6. Tillaga frá nefnd um laun stjórnar og akstur vegna félagsstarfa
Valdimar Guðjónsson í Gaulverjabæ, kynnti niðurstöðu nefndar um kjör stjórnar, félagsráðs og um félagsgjöld. Í nefninni sátu ásamt Valdimari, Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli og Kjartan Magnússon, Fagurhlíð.
Útreikningur er nokkuð flókinn þar sem í samþykktum segir að miða skuli við lítraverð mjólkur en margt kemur þar inni þar sem stuðningur úr mjólkursamningi er orðinn margþættari með tilkomu grænna greiðslna og fleira.  Til einföldunnar útreikninga leggur nefndin til að miðað sé við útgefið lágmarksverð mjólkurlítra í afurðastöð.

Valdimar leggur tillögu nefndarinnar fyrir fundinn:
“Aðalfundur FKS haldinn á Árhúsum Hellu 31.janúar 2011 samþykkir að árgjald   verði miðað við útgefið lágmarksverð til bænda með greiðslumark í afurðastöð. Jafngildi  50 lítra mjólkur.
Laun formanns verði árlega miðuð við jafngildi 2.500 lítra.
Laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við lágmarksverð 1250 lítra mjólkur.
Greitt fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta per kílómeter.”

Spurt var hver  laun formanns hafi verið í mjólkurlítrum miðað við fyrri útreikiningi. Elín Bjarnveig svarar því til að þá hafi verið miðað við 1.600 l mjólkur en nú 2.500 l en breytingin er að nú er miðað við lágmarksverð mjólkur inn í afurðastöð.
Tillagan var samþykkt samhljóða


7. Önnur mál
Sigurður Loftsson formaður LK kveður sér hljóðs og fer yfir hvað býr að baki ákvörðun verðlagsnefndar um mjólkurverðshækkunina  sem tekur gildi nú 1.febrúar 2011
Síðast var hækkun á mjólkurverði til  bænda í nóvember 2008 og þá miðað við verðlagsgrundvöll , september 2008.  Síðan kom hækkun til iðnaðarins í ágúst 2009.
Verðlagsnefnd var skipuð og átti að koma saman síðsumars en ekki tókst að koma á fundi fyrr en í september.  Þungt var fyrir fæti í samningaumleitunum í nefndinni og undir áramót þegar fulltrúum bænda í nefndinni  þótti sýnt að hægt eða ekkert gengi leituð þeir samkomulags og freistuðu þess þannig að rjúfa kyrrstöðuna. Annað hvort væri að ná samkomulagi  í nefndinni eða málið færi í ágreining.
Samkomulag náðist á þeim grunni og  samkvæmt því hækkar lágmarksverð til bænda þann 1.feb 2011 um 3,25 kr/L eða 4,56%. Að baki þessari hækkun  eru kostnaðarhækkanir verðlagsgrundvallar1. des 2009- 1. des 2010 án viðhalds,  vaxta,  afskrifta og launa, en þeir liðir verða teknir til skoðunar síðar.
Hækkun á framlögum vegna mjólkursamnings nú um áramót nemur um 277 milljónum kr, eða 2,39 kr/ltr innan greiðslumarks og því má meta það svo að bændur fái frá 1. febrúar n.k. 5,64 kr/ltr móti hækkun kostnaðarliða.  Afurðastöðvarverðið fer í 74,38 kr/ltr með þessari breytingu og heildar stuðningsgreiðslur nema að meðaltali um 50 kr/ltr sem gera samtals 124,38 kr/ltr að meðaltali til bænda. Í verðlagsgrundvelli kúabús frá 1.sept. 2008 til 1.des. 2010 mælist heildar hækkunarþörf bænda 13,03 kr/ltr. Þann 1.sept. 2008 námu framlög vegna mjólkursamnings 5.278.160.000 kr, en verða 5.811.000.000 kr samkvæmt fjárlögum fyrir 2011. Það er hækkun sem nemur 532.840.000 kr, eða 4,59 kr/ltr innan greiðslumarks. Þannig hafa því bændur fengið þann 1.feb. 2011 uppborið sem nemur 7,84 kr/ltr á móti mældum kostnaði verðlagsgrundvallar umrætt tímabil. Eftir standa þá 5,19 kr, en hækkun launaliðar þetta tímabil er 4,96 kr.
Mjólkurvörur hækka mismikið í verði þann 1.Feb, en meðaltalshækkunin nemur 2,25% . Drykkjarmjólk hækkar um 4,56 % og með því náð til baka 15%  af þerri framlegðarskekkju sem á henni var. Ekki verður hækkun vegna vinnslu og dreifingakostnaðar að  þessu sinni og er reiknað með að mjólkuriðnaðurinn nái að hagræða á móti kostnaðarhækkunum.
Þegar bornar eru saman niðurstöðutölur búreikninga fyrir árið 2009 og verðlagsgrundvöllur kúabús frá 1.des 2009 kemur í ljós að búreikningabúin eru umtalsvert lægri í flestum kostnaðarliðum. Eins er launaliðurin verulega lægri. Niðurfærsla á greiðslumarkskaupum er samkvæmt búreikningu 11,60 kr/ltr, en verðlagsgrundvöllur kúabús gerir ekki ráð fyrir slíku.
Frá árinu 2005 hefur grundvallarverð til bænda hækkað um 74%, vísitala neysluverðs farið upp um 52,5 % og heildsöluverð mjóllkur hækkað um 42%. Af þessu má vera ljóst að hagræðing í mjólkuriðnaðinum hefur skapað verulegt svigrúm til að haldia aftur af hækkunum út á markað. Ljóst er að ekki verður lengur haldið áfram á þeirri braut og kostnaðarhækkanir verði að koma að fullu fram í verði hér eftir.
Sigurður sýnir svo graf um verðþróun mjólkur á Íslandi og í Danmörku
Sigurður segir stoðir mjólkurframleiðslunnar á Íslandi séu í meginatriðum fjórar þ.e.: verðlagning til bænda og iðnaðar, greiðslumarkskerfið, opinber stuðningur í gegnum mjólkursamning, og tollvernd.


5. Erindi Stefáns Hauks Jóhannessonar aðalsamningamanns vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB
Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður vegna aðildaviðræðna Íslands og ESB tekur til máls en hann er formaður samninganefndar Íslands við ESB.  Einnig eru mættir Harald Aspelund varaformaður landbúnaðarhóps , Friðrik Ingólfsson starfsmaður landbúnaðarhóps ESB og  Hannes Heimisson –en hann sér um samskipti við hagsmunasamtök og fleira.
Stefán listar upp vegferð Íslands  í Evrópusamvinnu, allt frá lýðveldisstofnun, m.a. innganga í Nato 1949, þátttaka í EFTA 1970 og síðan, EES og  Schengen.
Stefán lýsir samningsfasa aðildarviðræðna. 1. Umsókn, 2. Viðræður, 3.Fullgilding. Sótt var um aðild 23.7.2009. Síðasta sumar hófum við viðræðufasa. Viðræðufasi skiptist svo í nokkur þrep.  Nú er í gangi  rýnivinna, 14 köflum lokið af 33. Þetta er tæknilegur undirbúingur fyrir viðræður. Næsta verkefni þegar þessari rýnivinnu er lokið eru rýniskýrslur , þá setjum við fram okkar samningsviðmið og þá hefjast viðræður, líklega 2012. Hugsanleg kosning um aðild 2013?
Mikilvægt er að samstarf sé við alla hagsmunaaðila og að gagnsæi sé í öllum viðræðum. Starfandi eru 10 mismunandi  samningahópar eftir verkefnum.
Samninganefnd Íslands er síðan skipuð 21 fulltrúa þar af eru 10 af þeim formenn samningahópanna.
Af 33 samningsköflum viðræðna við ESB erum við búin að taka 10 alveg í gegnum EES samninginn og 9 aðra  höfum tekið inn að mestu leyti. Um nokkra aðra er mikið samstarf en utan standa m.a landbúnaður, sjávarútvegur, gjaldeyrismál og nokkrir fleiri.
Harald Aspelund fjallar um fund landbúnaðarhópsins:
Hvað landbúnað varðar eru þó nokkur ólík skilyrði. Landbúnaðarkerfið mjög ólíkt með framleiðslutengdum stuðningi, kvótakerfi o.fl.
Ýmsar leiðir eru til til að fá að halda sinni sérstöðu.  Finnar náðu t.d. samningum vegna sinnar sérstöðu og falla svo líka undir stuðning á norðlægum slóðum, norðan við 62.breiddargráðu.
Rýnifundum um landbúnaðarmál  lauk í síðustu viku. Hópurinn fór þá til Brussel og gekk vel að sögn Stefáns. Rýnifundir eru fundir samningahópsins með framkvæmdastjórn ESB.

Hópurinn lagði áherslu á:
Að viðhalda framleiðslutengdum stuðningi, til að viðhalda samkeppnisstöðu, taka beri tillit til norðlægrar legu landsins, skoða þarf ákvæði um fjarlæg svæði en það er til í ESB, bent á að ríkissjóður er bundinn að samningum við bændur fram í tímann. Aðlögun þarf komi til aðildar vegna þess hve ólíkt okkar landbúnaðarkerfi er.
Stjórnsýsla landbúnaðarmála í ESB er viðamikil og því gæti fylgt mikill kostnaður.Lögð er áhersla á að leita hagkvæmra leiða í stjórnsýslumálum og bent á að við höfum hér kerfi sem sinnir allvel styrkjagreiðslum, eftirliti og öllu því sem þarf. Lögð áhersla á að þetta sé skilvirkt kerfi.
Stefán leggur í lokin áherslu á að samningsferlið á að vera í vönduðum upplýstum lýðræðislegum farvegi og málefnaleg umræða um kosti og galla þarf að fara fram.

Fundarstjóri gefur orðið laust um erindi Stefáns og Haraldar
Ólafur  Helgason í Hraunkoti spyr um hvort og hvenær kaflar verði opnaðir. Stefán svarar því til að líklegt er að vinna við að opna kaflanna hefjist næsta haust og að samningamenn bænda verði upplýstir um öll skref.
Elín B Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti, spyr hvort samningamenn telji að Ísland geti haldið sinni sérstöðu í landbúnaðarmálum.
Stefán svarar því að það sé markmiðið. Ef ekki næst saman, verður enginn samningur
Sigurður Loftsson, formaður LK,  veltir fyrir sér hvernig  umsóknir um styrki fara fram – Ráðherra vilji ekki sækja þessa styrki og hvort ekki sé hætta á að við töpum tíma til aðlögunar og undirbúnings með því að taka ekki þessa styrki? Mun tíminn nægja til að við fáum þær greiðslur sem ESB ætlar til landbúnaðar ef ekki er þegar byrjað að undirbúa breytingar á landbúnaðarkerfi?
Sigurður spyr einnig um tollvernd. „Virðist ykkur að það sér einhver raunveruleiki að það sé hægt að halda hér einhverri tollvernd?“
Stefán svarar að nánast sé útilokað að viðhalda tollvernd og það sé atriði sem þarf að vega og meta. Í áliti utanríkismálanefndar er vísað í tollvernd sem eitt af stuðningsformum við íslenskan landbúnað.
Í sambandi við Taix-stuðninginn  – það er mjög nauðsynlegt að þiggja þá sérfræðiaðstoð til að greina betur hvaða möguleikar eru í stöðunni.
Haraldur svara því hvort tíminn sé næganlegur – það fer eftir hvenær kosið er um aðild. Aðild tekur ekki gildi fyrr en við erum tilbúin til þess.
Stefán vísar til Finna og Svía – þá var ferilð stutt frá samningaviðræðum til aðildar en nú er miðað við 2-3 ár.  Hægt er að byrja skipulagsvinnu fyrir aðildaviðræður en svo er líka hægt að biðja um aðildarfrest. Gæti verið skynsamlegt að hefja undirbúing strax til að geta notið aðildar frá fyrsta degi.
Guðbjörg Jónsdóttir á Læk, spyr um frjálst vöruflæði. Nú fengum við undanþágu frá matvælalöggjöf vegna innflutnings á dýrum og hráu kjöti. Spyr líka um hvort norðlægur stuningur sé aðeins tímabundinn
Stefán svara því að undanþágan sé hluti af EES og ætti ekki að breytast
Finnar halda því  fram að þeir hafi undanþágu vegna sinna séraðstæðna í 18 ár. Hins vegar er líka til stuðningur um landbúnað norðan 62 breiddagráðu – það er líklega varanlegt – ekkert sem segir að það sé tímabundið.
Ómar spyr um tilgang umsóknarinnar yfirleitt.  „Hvað vinnst ? Vöruverð, lífskjör – batna þau. Hvert sé aðalatriðið. Gjaldeyrismálin, á hvaða gengi á að skipta út krónunni  – það skipti öllu máli  og hvað kostar að „vera í klúbbnum“ „
Stefán svarar að  fólk hljóti að meta það hvert fyrir sig. Getum við lifað áfram við krónuna sem gjaldmiðil án viðvarandi gjaldeyrishafta?  Hvað þýðir það fyrir hátæknifyrirtæki, – atvinnuvegina almennt. Hinn möguleikinn er að ganga í ESB og sækja um evru. Reynsla Finna er að það hafði jákvæð áhrif á hagkerfið – bara að sækja um að fara í samningsferlið.  Að vera aðili að stóru hagkerfi , stærra myntsvæði, þýðir minni sveiganleika og því hefur ríkistjórnin ekki krónuna sem geti verið sveiflujöfnunartæki – þar af leiðandi verði að taka upp annarskonar hagstjórn.
Hvað varðar þróun vöruverðs  virðist það ekkert einhlítt. Það þarf að skoða betur  segir Stefán.
Um hvað það kostar að vera innan ESB – vitum það ekki. Hvað varðar reynslu Finna þá hafa þeir sum ár greitt meira til ESB en þeir fá en önnur ár öfugt svo þetta kemur nú kannski út á eitt.
Harald bætir því við að allt kerfið veltir innan við 1% af heildartekjum ESB.
Björn Harðarsson í Holti spyr – ef tollvernd heldur ekki – eru þá einhverjir möguleikar að halda sama stuðningi og rekstrarskilyrðum og eru hjá okkur í dag.
Stefán svara því til að þetta sé lykilspurning, vöruverð hér í dag er ekki mjög frábrugðið öðrum löndum. Ljóst að það þarf að mæta því einhvern veginn ef bændur þurfa að lækka sitt vöruverð vegna samkeppni.
Haraldur leggur enn áherslu á að tollverndin er mjög mikilvæg og að samningahópurinn er mjög meðvitaður um að virkilega þurfi að hafa hana í huga og hvernig sé hægt að  mæta henni.
Valdimar Guðjónsson í Gaulverjabæ spyr um kosti og galla þess að hafa sveiganlega mynt. Ósveiganleg mynt kosti jafnvel meira atvinnuleysi.
Stefnán svara því að sveiflur á vinnumarkaði fylgja ekki alltaf.  Flestir hagsmunaaðilar gagnrýna þennan sveiganleika og hafa oft bent á að taka þurfi upp annan gjaldmiðil. Launþegasamtök gagnrýna að leiðrétta gengi krónunnar með því að láta það bitna á launþegum.
Samúel  Eyjólfsson  í Bryðjuholti spyr hvort  landbúnaður verði notaður sem skiptimiði fyrir sjávarútveginn?
Og hvað verða margir tilbúnir frá fyrsta degi að kæfa landbúnaðinn með innflutningi þegar tollvernd verður afnumin.
Stefán svara því með því að erfitt sé að rekja t.d fækkun búa í Finnlandi eingöngu til aðildar þar sem sú þróun var hafin og hefur líka verið t.d.  á Íslandi og í Noregi þó bæði löndin standi enn utan ESB.
Þórir Jónsson, formaður,  spyr hvort hætta sé á að ESB taki ekki mark á skýrslum okkar um sérstæða staðhætti?
Stefán svarar því til að við þurfum að hafa þetta vel rökstutt og  að fylgi rannsóknir og fræðilegar úttektir. ESB verði einnig að virða þá skyldu okkar sem þegar hefur verið undirrituð bæði af Íslandi og ESB að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.
Sigurjón Hjaltason í Raftholti spyr aftur um það sem Guðbjörg spurði um með hráa kjötið, hvort tryggt sé að undanþágur haldi hvað varðar hráa kjötið.
Friðrik svarar að við höfum skýra undanþágu hvað varðar innfluting á lifandi dýrum i EES samningnum – en hvað varðar hráa kjötið liggur það i innleiðingunni á EES reglugerð en er ekki tryggt.
Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála,  – spyr um kostnað við samningsferlið – hvað eru margir á launum,  hver er mánaðarlegr kostnaður við samningsferlið og aukaleg sérfræðiálit?
Stefán svara að á fjárlögum til 3 ára séu rúml 900 milljónir ætlaðar til verksins. Stefán vinnur í fullu starfi ásamt nokkrum öðrum í utanríkisráðuneyti – aðrir eru að þessu í hlutastarfi eða aukastarfi. Í heildina eru 200 manns að koma að samningsferlinu. Ekki hefur verið bætt við mannskap en fólk flutt til úr öðrum verkefnum.
Einar í Egilsstaðakoti lýsir ánægju sinni að fá þessa fulltrúa á fund. Einar spyr um hverju við fórnum og eins  hvað varðar þann innflutning á hráu kjöt sem  þegar er til í litlu mæli samkvæmt samningum?
Stefán segir að ef eitthvert ríki sækir um aðild er ESB skylt að opna og hefja samningsviðræður. Fyrir ESB er gott að fá okkur inn t.d hvað varðar orkumálin, umhverfisvæn orkumál, sjávarútveginn en það á ekki að vera þannig að við missum yfirráð yfir auðlindum okkar. Stefán telur það á misskilningi byggt að ESB bíði eins og hrægammur eftir að rífa í sig auðlindir Íslands. Ekki hafa Bretar þurft að gefa eftir sínar auðlindir. Einar bendir á erfiðleika Íra vegna erfiðleika Evrunnar en Stefán segir það ekki sambærilegt þar sem  þó erfitt sé í dag á Írlandi þá hafi skuldir Íra ekki tvöfaldast eins og hér hefur gerst.
Björn í Holti spyr hvort ekki líði að því að minnka þurfi stuðning til landbúnaðarmála innan ESB vegna fjárhags sambandsins sjálfs.
Stefán teldur að þetta styrkjakerfi sé ekki á undanhaldi. En Evran þurfi að vinna sig upp aftur.
Ólafur Kristjánsson í Geirakoti spyr hvort ESB geri sér ekki gein fyrir andstöðu við aðild á Íslandi og hvort þeir dragi sig ekki bara út út viðræðum
Stefán segir of snemmt að draga ályktanir á þessu stígi – um 20 skoðanakannanir  hafi verið gerðar síðan 2002 – í 15 þeirra hefur verið meirihluti fyrir aðild eða umsókn. Stuðningur lágur núna – m.a vegna  Icesave – deilna, en í gegnum tíðina hafi verið frekar stuðningur við aðild. Nú nýlega var skoðanakönnun um hvort hætta eigi samningsviðræðum nú og í þeirri voru um 60% á því að klára ætti samningsferilið. 1/3 var á því að hætta ætti öllum samningaumleitunum nú þegar.  Af 22 ríkjum sem sótt hafa um er aðeins  eitt sem ekki hefur gengið inn.
Stefán þakkar fyrir að fá að koma og hvetur bændur til að hafa samband. Samningahópurinn er tilbúinn að koma og vera í góðum tengslum við bændur.


7. Önnur mál, frh
Ásmundur Lárusson, Norðurgarði ræðir um verð á kúasæðingum.  Ber upp tillögu þar sem varað er við heildarendurskipulagninu á sæðingarstarfseminni með það að markmiði að jafna kostnað bænda við sæðingar þar sem það dragi úr hvata til hagræðingar
Tillagan hljóðar svo:
„Aðalfundur FKS haldinn í Árhúsum 31.janúar 2011 varar við að ráðist verði í endurskipulagningu á skipulagi kúasæðinga á landvísu. Fundurinn telur þó eðlilegt að leitað verði leiða til að jafna kostnað bænda vegna þessara starfsemi og er vísað þar m.a. til tillögu þess efnis á síðasta aðalfundi LK. Slíkt má þó ekki koma niður á hvata til hagræðingar sem til staðar er í núverandi kerfi.“

Þórir Jónsson ber upp tillögu stjórnar um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað
Tillagan hljóðar svo:
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn 31. janúar 2011 í Árhúsum  á Hellu, krefst þess af ríkisstjórn og ráðherra landbúnaðarmála að tekið verði til þinglegrar meðferðar að nýju frumvarp um breytingar á ákvæðum laga sem varðar markaðsetningu mjólkur utan greiðslumarks, til að styrkja ákvæði um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað. Þannig verði óvissu um framleiðslu og afsetningu mjókur utan greiðslumarks eytt og að allir framleiðendur sem og afurðastöðvar verði jafnir fyrir þeim lögum og reglum sem í gildi eru.”

Greinargerð:
Öll framleiðsla á lögbýli, bæði sem seld er í afurðastöð og heimaunnin mjólk telst með í uppgjöri greiðslumarks fyrir viðkomandi lögbýli samkvæmt útgefinni reglugerð.
Heimavinnsla mjólkur og sala fer nú vaxandi og þaer er eðlilegt að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um þá vinnslu. Þeim framleiðendum sem ætla að fara út í heimavinnslu eða eru komnir af stað er enginn greiði gerður með því að óvissa ríki um mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Hér er ekki verið að leggja stein í götu heimavinnslu en sú framleiðsla sem og önnur þarf að fara að þeim leikreglum og lögum sem eru í gildi.
Vöntun á úrræðum til að tryggja ákvæði búvörulaga um forgang greiðlsumarksmjólkur á innanlandsmarkað geta valdið miklu uppnámi ef miklu af mjólk utan greiðslumarks verður beint inn á innanlandsmarkað.
Sunnlenskir kúabændur leggja áherslu á að frumvarp sem styrkir forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað verði lagt fyrir Alþingi sem fyrst.“

Ragnar Magnússon spyr um niðurfærslu á greiðslumarki í búreikningum.
Runólfur Sigursveinsson svarar því til að frá og með áramótum er enginn niðurfærsla vegna greiðslumarks sem skipt er með á þessu ári.
Pétur Guðmundsson í Hvammi spyr um hvernig færa eigi þá kaup á greiðslumarki í bókhald. Segir kvótakaup vera kostnaður eins og annar kostnaður og hljóti því að reka bú með tapi á meðan niðurfærsla stendur yfir.

Tekin er til umræðu tillagan um sæðingastarfsemi:
Samúel spyr hvort þetta sé ekki afturhald.
Guðbjörg kemur upp og svarar því.  Sundurliðar gjaldtökuna í auragjald, akstur, kostnað pr sæðingu  o.fl.  Telur að byrja þurfi á því að hagræða heima í héraði áður en farið er í sameiningu. Spyr hvort eðlilegt er að jafna út flutningskostnað – telur það ekki samrýmanlegt við mjólkurflutninga.  Aldrei sé hægt að samræma alla þætti í rekstri búa.
Guðbjörg þakkar í  leiðinni stjórn FKS og félagsráði fyrir samstarf –  það er mikilvægt fyrir BSSL að vita hvað  við kúabændur vilja.
Birkir Tómasson biður um orðið. Lýsir stuðningi sínum við tillögur um sæðingastarfsemi og  forgang greiðslumarks en  ræðir um verðlagsmál mjólkur. Segir útreiknaða hækkunarþörf verðlagsgrundvallar  undanfarin tvö ár hafa verið borna upp af bændum, tekin af eigin fé. Talað sé um að ríkisstuðningur hafi aukist.  En miðað við vísitölu telur Birkir stuðninginn hafa minnkað. Einnig sé mótframlag ríkis í Lífeyrissjóð bænda  tekið af, tryggingagjald hækkað, búnaðarlagasamningur skertur, þ.a.m.  allur stuðningur við Sunnuverkefnið.(sem hann teldur afar ótímabært því slíkt verkefni sé einmitt þarft í þessari tíð). Miklar hækkanir séu í pípunum.  Á sama tíma eru teknin út ákvæði um niðurfærslu á greiðslumarki. Birkir beinir því til Péturs í Hvammi að hann telji þá  leið að færa greiðslumarkskaup til kostnaðar ekki verða leyfða. Birkir spyr hvort LK sé ekki lengur hagsmunafélag kúabænda. Þegar talað er um uppreikning verðlagsgrundvallar vegna þess að búin séu betur rekin en verðlagsgrundvöllur segir til um. Gagnrýnir samanburð á mjólkurverði í Danmörku og Íslandi þegar ekki er tekin inn kostnaður við framleiðslu sé eins og að bera saman appelsínur og epli.
Birkir hvetur til þess að greitt verði fyrir verðefni í umframmjólk en ekki fast lítraverð. Mjólk sé oft próteinhærri á haustin en samt ekki greitt fyrir eftir verðefnum.  Leggur til að hægt sé að leggja hluta af sínu innleggi til útflutnings mánaðarlega – stað þess að vera kvótalaus síðusta mánuð eða mánuði ársins.
Sigurður Loftsson svarar Birki. Endurtekur að aðeins hafi verið tveir kostir, ná samkomulagi eða fara í ágreining. Það sem er ólíkt við samningana núna og síðast er að við höfum engu sleppt. Ekkert gefið eftir. Vildum ná fram þessum rúmu 3 krónum núna – það sé þó eitthvað – samkomulag var í nefndinni að hækkunarþörf sé meiri og að fylgjast þurfi með þó ekki liggi fyrir tímasettar hækkanir.
Sigurður heldur því ekki fram að verðlagsnefnd sé besta formið – en um það þurfa bændur að taka sameigiinlega ákvörðun, ekki fulltrúar bænda í verðlagsnefnd.
Hins vegar átti samanburðurinn sem sýndur var á verði í Danmörku og á Íslandi aðeins að sýna hvað gerist í verðþróun þar sem markaður ræður verði eða í stýrðu verðlagi eins og hjá okkur með verðlagsnefnd.
Hvað verðlagsgrundvöll varðar á hann að gefa sem raunhæfasta mynd af búi í hagkvæmri stærð og hagkvæmum rekstri. Rétt er að það eru hækkanir í pípunum – því mikilvægt að náðst hafi viðurkenning á að þörf sé á að fylgjast með hækkunum og að hækkunarþörf sé meiri.  Saknar þess að sjá ekki fulltrúa mjólkuriðnaðarins á fundinum . Þeir hefðu kannski getað svarað hvað þeir telja að markaðurinn þoli mikla hækkun án þess að sala minnki. Birkir spurði einnig um jarðræktargreiðslur af mjólkursamningi – þær renni ekki allar eingöngu til kúabænda. Sigurður segir það rétt að þær hafi ekki verið stundurliðaðað þarna  en telur það ekki vera stórar upphæðir
Birkir spyr um þá hækkun sem kom ekki fram nóv 2008 og í ágúst 2009 Sigurður segir að geymd hækkunarþörf  í ágúst 2009 hafi verið ein króna.  Verðlagsgrundvöllurinn er ekki óumdeilt tæki og yrði vart samþykktur í verðlagsnefnd – verðhækkanir séu alltaf samningsatriði.
Sigurður fagnar ábendingum Birkis um að greitt verði eftir verðefnum fyrir umframmjólk og einnig að skoðað verði hvort hægt sé að merkja hluta innleggs mánaðarlega sem umframmjólk.

Áður framsett tillaga um sæðingarstarfsemi borin undir atkvæði og samþykkt  samhljóða,  sömuleiðis tillaga um greiðslumarksmjólk.

Fleira ekki rætt og formaður sleit fundi  kl 16:35


back to top