Aðalfundur HS 2008
Fundargerð
Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 26. mars 2008 í Þingborg.
Dagskrá:
1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins.
2. Formaður félagsins, Hrafnkell Karlsson flytur skýrslu stjórnar
3. Reikningar, Helgi Eggertsson gjaldkeri kynnir reikninga
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
5. Reikningar afgreiddir
6. Tekin ákvörðun um félagsgjald, tillaga frá stjórn
7. Kosningar, kosið um formann og þrjá varamenn í stjórn
8. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja 2 til vara
9. Kosning fulltrúa á aðalfund BSSL (6 ) og aðalfund FH (11)
10. Tillögur lagðar fram og kynntar
11. Umræður og afgreiðsla tillagna
Kaffihlé
12. Dr. Kári Stefánsson flytur erindi
13. Umræður og fyrirspurnir um erindið
14. Önnur mál
1. Fundarsetning
Hrafnkell Karlsson setti fundinn kl. 20:00. Stakk upp á Kára Arnórssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar
Eftir miklar breytingar sem orðið hafa á starfsemi samtakanna hefur stjórnin markað stefnu sem stuðlar að víðtækara félagsstarfi þar sem reynt er að sinna þörfum félagsmanna á annan hátt en áður. Með samstarfsamningi við LbhÍ sem undirritaður var í sumar er stefnt að aukinni fræðslu og menntun á sviði hrossaræktar. Um er að ræða námskeið í formi sí- og endurmenntunar.
Á fyrstu námskeiðunum, sem haldin voru nú í febrúar, var tekin fyrir bygging hrossa, en leiðbeinendur voru Þorvaldur Kristjánsson og Jón Vilmundarsson. Námskeiðin sem haldin voru á Hestheimum og Dallandi voru vel sótt og komust færri að en vildu.
Stefnt er að því að halda tvö námskeið á ári í samvinnu við LbhÍ og er eðlilegt að miða val verkefna við þarfir félagsmanna.
Umræddur samningur á einnig að stuðla að rannsóknum á sviði hrossaræktar og hestahalds. Er það gert í því augnamiði að auka skilning og áhuga á hrossarækt og stuðla að framförum í greininni með sérstaka áherslu á starfssvæði HS. Þennan þátt samningsins á eftir að móta eða finna farveg. Með þessu eru samtökin að leggja sitt lóð á vogaskálarnar enda mikið undir því komið fyrir félagsmenn að vel sé staðið að rannsóknar- og þróunarstarfi greinarinnar.
Í framhaldi af viðhorfskönnun sem við framkvæmdum á sl. ári, þar sem fram kom m.a. að félagsmenn vilja að starfið sé sýnilegra, hefur stjórnin rætt um að efla heimasíðuna og tengjast með því betur félagsmönnum. Heimasíðan er vettvangur sem mun hafa meira og meira gildi í framtíðinni. Þar er hægt að koma öllu sem varðar félagsstarfið á framfæri, allri þekkingu eða upplýsingum sem að gagni má koma í ræktunarstarfinu eða búskapnum. Segja má að þetta sé allt til staðar annars staðar á veraldarvefnum, en þrátt fyrir það hefur það mikið gildi fyrir samtökin að hafa þennan vettvang í eigin nafni, þjappar okkur saman og undirstrikar mikilvægi félagsstarfsins og gerir okkur jafnframt auðveldara að ná til félagsmanna. Nauðsynlegt er einnig að hafa netföng allra félagsmanna, þannig að auðvelt sé að koma skilaboðum er varða félagsstarfið á framfæri eða minna á ýmislegt sem á heimasíðunni er. Stjórnin tók þá ákvörðun að eðlilegt væri að ný forysta markaði stefnu í þessum málum því að heimasíða hefði lítinn tilgang ef henni væri ekki sinnt. Allt of mörg dæmi eru um heimasíður sem daga uppi, ef svo má segja, vegna sinnuleysis þeirra er að þeim standa.
Á síðasta hausti var gengið frá kaupsamningi ríkisins á sæðistökuhúsinu í Gunnarsholti á grundvelli mats sem fram fór á eigninni. Söluverðið var rúmar 13. milljónir. Jafnframt afsöluðum við okkur afnotum af stóðhestahúsinu og annarri aðstöðu í Gunnarsholti. Með þessu er lokið 9 ára sæðingastarfi sem samtökin hafa tekið þátt í, í samvinnu við Dýralækningaþjónustu Suðurlands.
Þó þetta starf okkar í Gunnarsholti skilji ekki eftir djúp spor í þróunarsögu greinarinnar hafði það tilgang og skilaði einnig þekkingu inn í greinina. Fjárhagsleg útkoma verkefnisins hefur ekki verið reiknuð nákvæmlega en ljóst er að við ríðum ekki feitum hesti frá þessu verkefni. Við þökkum þeim ágætu samstarfsmönnum okkar í þessu verkefni, Páli Stefánssyni og Lars Hansen fyrir farsælt starf og ánægjulegt samstarf. Einnig er þakkaður sá stuðningur sem Fagráð greinarinnar veitti í starfið.
Hefðbundið starf okkar var í svipuðu formi og verið hefur. Sýningin Ræktun 2007 var haldin í apríl, folaldasýning í september og ungfolasýning í mars. Sýningar sem þessar þarf að lífga upp á annað slagið ef vel á að vera til að gera þær eftirsóknarverðar. Samkeppnin er hörð og við verðum að hafa mikinn metnað til að gera vel og til að eftirsóknarvert verði fyrir ræktendur að taka þátt og að þær dragi að áhorfendur. Á vegum samtakanna var á folaldasýningunni í haust tilnefnd heiðurshryssa ársins 2007 Löpp frá Hvammi og afreksknapi ársins 2007 var tilnefndur Viðar Ingólfsson. Ungfolasýning var haldin sl. laugardag og var þátttaka sýnenda góð og komu þar fram mörg efnileg gæðingaefni. Hins vegar var aðsókn ekki viðunandi. Ræktun 2008 verður 26. apríl, síðasta laugardag aprílmánaðar.
Enn höldum við stóðhestinn Galsa frá Sauðárkróki, sem er í sameign með Húnvetningum, Skagfirðingum o.fl, en hann verður til notkunar í Árbæjarhjáleigu, á fyrra gangmál. Notkun á honum hefur farið minnkandi, en enn er til staðar talsverður áhugahópur um hestinn.
Haldnir hafa verið 6 stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi og hafa að venju allir varamenn verið boðaðir á fundina. Þrátt fyrir að umsvif félagsstarfsins hafi ekki verið meira en að framan er talið hafa miklir snúningar verið kringum fráganginn í Gunnarsholti. Einnig hefur drjúgur tími farið í að rýna í framtíðina og vinna að þeim nýju verkefnum sem í gangi eru.
Eins og ég hef áður vikið að á þessum vettvangi er grunn hlutverk samtakanna að sinna félagslegu hlutverki greinarinnar, fá sem flesta sem hagsmuni hafa í greininni til að byggja upp sterk samtök sem burði hafa til að fylgja hagsmunamálum hennar eftir. Styrkur Félags hrossabænda felst í því að grunneiningarnar séu fjölmennar og öflugar. FH vinnur að öllum heildar hagsmunamálum greinarinnar svo og samskiptum við stjórnvöld, umsögnum og álitum um lög og reglugerðir er greinina varðar o.s.frv.
Í fagráði greinarinnar, sem er á forræði FH, er mótuð stefna í kynbótum og þróunarstarfi búgreinarinnar, skilgreind ræktunarmarkmið og settar reglur um framkvæmd ræktunarstarfsins. Enn fremur eru mótaðar tillögur um stefnu í fræðslumálum og rannsóknum búgreinarinnar ásamt mörgu öðru er við kemur greininni s.s. varðveisla Stofnverndarsjóðs og úthlutun úr honum.
Án þessarar hagsmunagæslu og þróunarstarfs verður vart séð að búgreinin gangi til lengdar. Á þetta er minnst hér því nú á tímum vaxandi einstaklingshyggju og minnkandi áhuga á félagsstarfi eru blikur á lofti. Taka verður meira tillit til þessara breyttu viðhorfa í stefnu og rekstri samtakanna í framtíðinni og er liður í því að efla heimasíðuna eins og fyrr er vikið að.
Ágætu félagar, á síðustu árum hafa umsvif aukist mjög í greininni, mikið fjármagn lagt í uppbyggingu aðstöðu og uppgangur og framfarir verið á flestum sviðum. Framundan eru hins vegar erfiðari tímar. Miklar hækkanir á aðföngum og önnur rekstrarskilyrði greinarinnar hafa breyst til hins verra. Hins vegar ætti útflutningur að skila okkur meiri tekjum ef gengisbreytingar sl. vikna haldast.
Það ræðst því að miklu af því hversu lægðin verður djúp í efnahagslífinu, hvernig okkur muni farnast, en þyngst verður fyrir þá skuldsettu að fóta sig á næstu misserum.
Góðir félagsmenn, ég læt þetta nægja að sinni og þakka ykkur gott samstarf og sérstaklega þakka ég mínum nánustu samstarfsmönnum.
3. Ársreikningur
Helgi Eggertsson fór yfir reikninga samtakanna.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld: 4.903.312 kr
Tekjur: 8.235.147 kr
Hagnaður: 3.331.835 kr
Eignir: 21.925.984 kr
Skuldir: 486.067 kr
Helstu skýringar mikils hagnaðar er bókfærður söluhagnaður vegna sæðistökuhússins í Gunnarsholti.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Engar umræður.
5. Reikningar afgreiddir
Samþykktir samhljóða
6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2008, tillaga frá stjórn
Tillaga frá stjórn um að árgjald verði hækkað úr 4.000 kr í 5.000 kr (+seðilgjald). Nauðsynlegt þar sem FH hefur hækkað árgjaldið hjá sér í 4.000 kr.
Haraldur Sveinsson benti á að það væru til digrir sjóðir hjá samtökunum. Hann spurði einnig hvort ekki þyrfti að breyta lögum samtakanna úr því búið væri að breyta tilgangi samtakanna. Hrafnkell sagðist ánægður með að fá einhverjar umræðum um starfsemi félagsins. Samningurinn sem gerður var við LbhÍ væri vissulega breyting en sér sýndist þær vera í samræmi við lög félagsins. Máli sínu til stuðnings las hann upp úr lögum samtakanna. Vissulega ætti stjórnin að velta því fyrir sér hvort hún væri að vinna í takt við tilgang samtakanna. Stjórnin hefði til að mynda ekki sinnt sölumálum að neinu marki eins og lögin kveða á um. Varðandi fjárreiður samtakanna mun koma fram tillaga frá stjórn síðar á þessum fundi. Tel að ekki sé rétt að ganga á höfuðstól samtakanna heldur nýta vaxtatekjur til félagsstarfsins.
Kári Arnórsson las aftur upp tillögu um hækkun á félagsgjaldi og var hún samþykkt með þorra atkvæða.
7. Kosningar, kosið um formann og þrjá varamenn í stjórn
Úr stjórn á að ganga Hrafnkell Karlsson og gefur hann ekki kost á sér áfram. Tillaga kom um að kjósa Svein Steinarsson, Litlalandi, sem formann. Samþykkt samhljóða. Tillaga kom um að kjósa Halldór Guðjónsson, Bjarna Þorkelsson og Sigurð Sigurðarson sem varamenn. Samþykkt. Hlynur Steinn Kristjánsson gaf ekki kost á sér áfram.
8. Kosning 2 skoðunarmanna og 2 til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.
9. Kosning fulltrúa og varamanna á aðalfund BSSL (6 ) og aðalfund FH (11).
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Helgi Eggertsson, Sveinn Steinarsson, Þuríður Einarsdóttir, Bjarni Þorkelsson, Bertha Kvaran og Hrafnkell Karlsson. Til vara verði, Helgi Kjartansson, Ásmundur Lárusson og Jón Jónsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.
Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti aðal- og varastjórn HS, Jón Vilmundarson, Hrafnkell Karlsson og Kári Arnórsson . Til vara Ragnar Lárusson, Gunnar Dungal, Svanhildur Hall, María Þórarinsdóttir og Berglind Ágústsdóttir. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.
10. Tillögur lagðar fram og kynntar
Hrafnkell las tillögu frá stjórn:
“Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands samþykkir að eigið fé félagsins, sem í dag er bankainneign, svo og vaxtatekjur af því og aðrar tekjur, verði varðveitt og ráðstafað með eftirfarandi hætti:
• Bankainnistæða eins og hún er í dag að viðbættri vísitölu hverju sinni haldist óbreytt (haldi verðgildi sínu).
• Til ráðstöfunar verði aldrei meira en vextir af umræddri bankainneign og að auki aðrar tekjur.
Þessi ákvörðun er bindandi fyrir stjórn félagsins og verður ekki breytt nema á aðalfundi félagsins.”
Hrafnkell sagði að þetta væru það miklir fjármunir að það væri eðlilegt að aðalfundur yrði að samþykkja ef ganga ætti á höfuðstólinn. Það væri nú bara þannig að ef einhvers staðar væru til fjármunir væri sótt í þá. Umsókn kom frá Rangárbökkum um að HS legði fjármagn í uppbygginguna þar en henni var hafnað m.a. þar sem það þótti fordæmisgefandi. Hrafnkell sagði það skoðun sína að framtíð samtakanna fælist í því fjármagni sem samtökin ættu í dag. Í samningnum við LbhÍ væru fjárhagslegar skuldbindingar. Námskeiðin í febrúar hefðu verið greidd niður um 6.000 kr á félagsmann. Ítrekaði að lokum að tillögu þessari væri hægt að breyta á næsta aðalfundi ef vilji væri fyrir því.
11. Umræður og afgreiðsla tillagna
Kári sagði þetta mikilvæga ákvörðun og hvatti fundarmenn til að tjá sig um tillöguna.
Jón Vilmundarson sagði styðja þessa tillögu. Hann sagðist þekkja vel til Stofnverndarsjóðs sem nú ætti verulega fjármuni. Hans reglur væru mjög hliðstæðar þessu og þar væri vaxtartekjum eingöngu úthlutað. Þessi sjóður væri nú grundvöllur allra rannsókna á íslenska hestinum. Örugglega mikið gæfuspor ef þessi tillaga verður samþykkt. Fleiri tóku ekki til máls. Kári Arnórsson las tillöguna upp aftur og hún var síðan borin undir atkvæði. Samþykkt með þorra atkvæða. Einn á móti.
12. Erindi dr. Kári Stefánsson –flutt á myndbandi
Boð kom um að Kári gæti því miður ekki mætt á fundinn í eigin persónu því hann hefði óvænt þurft að mæta á fund í New York en myndi senda tæknimann á svæðið með mynddisk þannig hægt yrði að flytja erindið. Erindið tók um 20 mínútur í flutningi. Kári fjallaði um sína sýn á keppnishald í hestaíþróttum. Taldi að engri íþrótt hefði hnignað eins mikið og hestaíþróttinni, áhugi á henni væri sáralítill. Enda væri dómgæslan í molum, ræktunarmarkmið ekki nógu skýrt og aðstöðuleysið algjört. Koma ætti á mótaröð þar sem keppendur safna stigum eins og í formúlunni og skíðaíþróttum. Aðstöðuna mætti bæta með því að byggja upp á einum stað og það yrði að vera í Reykjavík því þar væri flest fólkið. Samræmið í dómum yrði að batna, það væri t.d. ekkert samræmi í byggingadómum og hæfileikadómum. Hross sem væru að fara hátt í kynbótadómum gætu mörg hver ekkert þegar komið væri inn á keppnisvöllinn. Innflutingsbann á hrossum þyrfti að afnema svo hægt væri að fara með hross úr landi án þess að þurfa að skilja þau eftir. Þá gæfist keppendum erlendis einnig kostur á að keppa hérlendis. Ef innflutningsbann yrði afnumið gætu ræktendur hérlendis notað stóðhesta sem búið væri að flytja úr landi. Aðvitað væri viss hætta á að smitsjúkdómar bærust til landsins en einangrun væri aldrei skynsamleg. Þakkaði að lokum fyrir að hafa verið boðið að vera með erindi á fundinum, þó það hefði verið flutt á mynddiski.
13. Umræður um erindið
Kári Arnórsson sagði að þetta hefði verið hressilegt erindi. Því miður væri Kári Stefánsson ekki til staða til að svara fyrirspurnum en það væri sjálfsagt að fundarmenn tjáðu sig um erindið.
Guðlaugur Antonsson sagði að erindið hefði vissulega verið hressilegt en hann væri því miður sennilega ekki sammála neinu af því sem þar hefði komið fram. Kári hefði bara komið með eina hlið á hestamennskunni og það væri hestaíþróttir. Ekki hefði verið minnst á alla þá sem stunda hestamennsku án þess að taka þátt í keppni. Áhugi á hestaíþróttum leyndi sér nú ekki, það væru mót hverja helgi út um allt. Ræktunarmarkmiðið væri skýrt, ræktendur hefðu frjálsar hendur hvaða stóðhesta þeir kjósi að nota, engin boð og bönn. Varðandi bygginga- og hæfileikadóma væri vel vitað að ekki væri endilega samræmi þar á milli. Byggingardómur byggðist að hluta til á fagurfræðilegum sjónarmiðum. Varðandi árangur kynbótahrossa á keppnisvellinum hefði hann nú haldið að það væri dauð umræða. Þyrfti nú ekki annað en skoða síðasta landsmót þar sem mörg efstu hrossin hefðu verið hátt dæmd kynbótahross. Guðlaugur sagðist vera algjörlega á móti innflutningi rétt eins og hestamenn væru almennt. Við hefðum engu tapað þó ekki hefði verðið hægt að nota stóðhesta sem komnir væri úr landi. Ef það er erfðaframför í stofninum hefðum við litla þörf fyrir að nota gamla hesta. Æskilegra að nota unga og efnilega fola.
Kári Arnórsson sagði að grunntónninn hjá Kára Stefánssyni hefði verið ræktun á keppnishrossum og ræktendur hefðu gott upp úr því að selja slíka gripi. Hestaíþróttinni hefði ekki hnignað og við mættum ekki gleyma því að hér áður fyrr hefðu hross verið notuð sem farartæki. Kári sagðist halda að engri íþrótt hefði hnignað eins mikið og glímunni.
14. Önnur mál
Sveinn Steinarsson tók til máls, kynnti sig og þakkaði stuðninginn. Hann væri með hrossarækt í smáum stíl á Litlalandi í Ölfusi.
Hrafnkell sagðist reynslunni ríkari eftir að hafa gengt formennsku í þrjú ár. Sagðist þess fullviss að samtökin væru vel sett með Svein sem formann. Að lokum þakkaði hann fyrir sig.
Kári Arnórsson þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 22:00
/Halla Eygló Sveinsdóttir