Aðalfundur LK stendur yfir
Aðalfundur Landssambands kúabænda (LK) hófst klukkan 10.00 í morgun á Hótel Selfossi þegar að Sigurður Loftsson formaður sambandsins setti fundinn og má nálgast ræðu hans á síðu Landssambandsins, naut.is. Sigurður kynnti sömuleiðis skýrslu stjórnar. Nú standa yfir ávörp gesta og umræður um skýrslu stjórnar.
Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis flutti fundinum kveðju ráðherra í hans forföllum og ávarpaði fundinn í hans stað. Meðal þess sem kom fram í máli hans var að vilji ráðherra stæði til að hefja á næstunni viðræður við Bændasamtökin um nýjan búnaðarlagasamning en núgildandi samningur rennur út í árslok.
Gerð verði úttekt á störfum MAST
Fjöldi tillagna ályktunum frá aðildarfélögum liggur fyrir fundinum. Meðal þeirra er tillaga að ályktun um gerð verði úttekt á starfsemi Matvælastofnunar, í ljósi undangenginna atburða eins og það er orðað í tilögunni. Þá er lagt til að LK beiti sér fyrir því að frumvarp um breytingar á ákvæðum laga hvað varðar markaðssetningu á mjólk utan greiðslumarks verði tekið til þinglegrar meðferðar á nýjan leik til að eyða óvissu þar um.
Fyrir fundinum liggur jafnframt tillaga að ályktun um að stjórn LK beiti sér strax fyrir því að núgildandi búvörusamningur vegna mjólkurframleiðslu verði framlengdur. Þá er stjórn hvött til að beita sér fyrir því að markaðsdögum með greiðslumark í mjólk verði fjölgað. Í sumum tilfellum er talað um fjölgun í fjóra á ári en í öðrum er talað um að minnsta kosti þrjá. Í dag eru markaðsdagarnir tveir á ári. Þá liggja fjölmargar tillögur fyrir tengdar dýralæknamálum og eiga það sammerkt að miklum áhyggjum er lýst með þá þróun sem átt hefur sér stað síðustu misseri í þeim efnum.
Í tillögu stjórnar LK að ályktun kemur fram að tekið verði undir ályktun Búnaðarþings þar sem andstaða bænda gegn inngöngu í Evrópusambandið er ítrekuð. Þá er lögð áhersla á að umsókn Íslands um aðild að sambandinu verði lögð til hliðar en verði það ekki gert er þess krafist að stjórnvöld setji án tafar fram samningsmarkmið sín og í þeim verði varnarlínur Bændasamtakanna virtar.
Fundurinn er sendur beint út á vefsíðu LK, naut.is. Fundurinn stendur yfir í dag og á morgun.
Sjá nánar:
Setningarræða formanns LK
Ársskýrsla LK 2011
Dagskrá aðalfundar LK 2012
Bein útsending frá aðalfundi LK 2012