Áfram má búast við talsverðu öskufalli

Í dag hafa bændur á áhrifasvæði eldgossins í Grímsvötnum sem óðast hugað að búfénaði, einkum lambfé sem komið var út. Menn hafa eftir því sem tök eru á tekið féð aftur á hús. Góðu fréttirnar eru þær að askan inniheldur ekki mikinn flúor, a.m.k. ekki meðan að gígurinn nær ekki upp úr vatni. Mikið öskufall var á Kirkjubæjarklaustri og þar í kring í morgun en heldur rofaði til eftir hádegi. Öskufallið hefur síðan færst vestur á bóginn og nær nú allt til Reykjavíkur.
Það magn sem þangað berst er þó ekkert í líkingu við það sem gerist næst gosstöðvunum. Áfram má búast má við talsverðu öskufalli allvíða SA-lands og einnig má gera ráð fyrir dálitlu öskufalli á Suðurlandi og sunnantil á Faxaflóasvæðinu til morguns að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.


back to top