Afurðir enn á uppleið
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar við lok október 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á vef Bændasamtakanna. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 11. nóvember, höfðu borist skýrslur frá 93% þeirra 594 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Helstu niðurstöður eru þær að 21.427,9 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.638 kg sl. 12 mánuði, sem er 20 kg hærri nyt en reiknaðist í síðasta uppgjöri.
Hæsta meðalnytin á því 12 mánaða tímabili sem lauk um síðustu mánaðamót, við lok október, var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 7.889 kg á árskú og er það sama búið og var efst á listanum fyrir mánuði síðan. Næst á eftir kom bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar reiknaðist meðalnytin 7.807 kg eftir árskú. Þriðja búið í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en meðalnytin þar var 7.711 kg á árskú. Búin nr. 2 og 3 í röðinni höfðu skipt um sæti frá síðasta uppgjöri. Þessi sömu bú hafa verið í þrem efstu sætunum sl. þrjá mánuði, röðin þó ekki alltaf hin sama.
Á 19 búum fór meðalnytin í 7.000 kg eftir árskú og þar yfir og á jafnmörgum búum í mánuðinum á undan.
Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Blúnda nr. 335 í Leirulækjarseli á Mýrum í Borgarbyggð, en hún mjólkaði 14.029 kg. og var í öðru sæti á síðasta uppgjöri en í fjórða sæti á þessum lista í ágúst. Önnur nythæsta kýrin við lok október var Urður nr. 1229 á Hvanneyri í Borgarfirði og mjólkaði hún 13.065 kg á tímabilinu. Hin þriðja á listanum í októberlok 2012 var Dyrgja nr. 385 í Skeiðháholti 3, sem mjólkaði 12.544 kg. Alls náðu 14 skýrslufærðar kýr að fara yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum en 10 í september. Af þessum 14 mjólkuðu 4 yfir 12.000 kg, tvær yfir 13.000 kg og ein yfir 14.000. Kýrin Blíða í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu sem mun hafa verið efst á þessum lista í 9 mánuði samfleytt á árinu, var nú nr. 6 með 11.838 kg.
Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhaldsins