Ágæt afurðaaukning á árinu 2009

Niðurstöður úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hafa nú verið birtar og ekki er hægt að segja annað en að mjólkurframleiðslan hér á Stóra Ármóti hafi gengið vel á síðasta ári. Meðalnyt eftir árskú jókst milli ára, úr 6.321 kg í 6.529 kg. Þetta eru næst mestu afurðir sem náðst hafa á Stóra Ármóti. Fituinnihald í innleggsmjólk hækkaði úr 3,99% í 4,15% og próteininnihaldið stóð nánast í stað, lækkaði úr 3,45% í 3,44%. Afurðir í verðefnum jukust því um 37 kg milli ára eða í 496 kg MFP/árskú.
Meðallíftala yfir árið reyndist vera 11.729 samanborið við 11.920 árið áður og meðaltalsfrumutala var 283.417 en 324.970 árið áður. Mjólkurgæði hafa því aukist frá árinu 2008 og er vonandi að sú þróun haldi áfram.
Afurðahæsta kýrin á Stóra-Ármóti í fyrra reyndist vera Branda 1029 (f. Skjanni 02030, mf. Umbi 98036) en hún mjólkaði 8.736 kg. Önnur í röðinni varð Blíða 1045 (f. Finnur 03029, mf. Gikkur 00009) með 8.357 kg og þriðja varð Lukka 1057 (f. Akur 03009, mf. Barði 98016) með 8.111 kg.


back to top