Áhrif öskufalls á trjágróður

Sérfræðingar Landbúnaðarháskólans hafa tekið saman nokkra punkta um áhrif öskufalls á trjágróður sem fara hér á eftir.

Áhrif öskufalls á trjágróður
Trjágróður er sá gróður sem yfirleitt þolir best öskufall. Toppar trjánna standa upp úr öskunni þannig að trén kafna ekki. Inni á milli trjáa er skjól og þess vegna fýkur askan síður af stað og skemmir plönturnar. Trjáplöntur mynda nýjar rætur í öskulaginu og binda þannig öskuna enn frekar.

Ekki  er talið að óæskileg efni í ösku, svo sem flúor, séu tekin upp af trjáplöntum í þeim mæli að þær geti hlotið varanlegan skaða af.  Til lengri tíma litið er jafnvel talið að öskuefnin geti virkað eins og áburður, steinefni í öskunni nýtast sem áburðarefni fyrir plöntur.  Reynslan af Heklugosum styður þetta því þar sem aska úr síðustu Heklugosum hefur fallið á trjágróður hefur ekki hlotist varanlegur skaði af.  Þó er vitað að barrtré séu viðkvæmari fyrir flúormengun en lauftré.
Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá hefur í hyggju að fylgjast með flúormengun og upptöku flúors í trjágróðri á öskufallssvæðum.


Áhrif á lauftré
Segja má að það sé lán í óláni að askan fellur áður en trjágróður er farinn að laufgast að ráði.  Aska sem fellur á laufgaðan trjágróður getur valdið skemmdum á laufblöðum og lokað fyrir loftaugu á blöðunum sem getur bitnað á vexti trjáa tímabundið.  Þykkt öskulag á jarðvegi umhverfis trjágróður þarf ekki að hafa mikil áhrif á plönturnar og ef eitthvað er, þá eyðir öskulagið samkeppnisgróðri og eykur næringarframboð vegna áburðarefna sem askan inniheldur.  Ef þykkt öskulag situr á greinum trjánna er sjálfsagt að hreinsa það af, verði því við komið. 


Áhrif á barrtré (sígrænan gróður)
Barrtré eru talin viðkvæmari fyrir öskufalli en lauftré.  Greinabygging barrtrjáa (sérstaklega grenitegunda) er með þeim hætti að askan situr lengur á greinunum.  Barrið er sígrænt og getur gulnað ef aska situr lengi á barrinu.  Það dregur úr möguleikum trjánna til ljóstillífunar og getur haft áhrif á lengdarvöxt og þroska.  Eftir Heklugosið árið 1970 sáu menn ummerki um þess konar skaða á barrtrjám í Þjórsárdal. 


Þykkt öskulags og fokskaðar
Þykkt öskulag kæfir ungplöntur, lendi þær alveg á kafi undir öskunni.  Öskufos, líkt og sandfok, getur sorfið barr og börk trjáplantna þannig að þær særist og ef um verulegar skemmdir er að ræða geta plönturnar drepist.  Til fróðleiks má benda á að gamlir skógar eru í grennd við flest virkustu eldfjöll landsins. 


Sérfræðingar Landbúnaðarháskóla Íslands munu áfram fylgjast með framvindu mála á öskufallssvæðum og miðla upplýsingum eftir þörfum. 


back to top