Algjör metuppskera

„Það er algjör metuppskera á þessu svæði. Við erum að fá 3-4 tonn af korni á hektarann. Kornuppskera hér undir Eyjafjöllum er ekki undir þúsund tonnum,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri og formaður Landssambands kornbænda.
Kornskurður hefur gengið mjög vel í haust og hafa kornbændur undir Eyjafjöllum ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum hvað veðurfar snertir. Ólafur taldi að kornskurður hafi yfirleitt gengið vel á Suðurlandi.

Kornskurður er langt kominn og taldi Ólafur að mjög margir bændur verði langt komnir um næstu helgi. Kornið er þurrt og gott og vel þroskað. Bleyta gerði kornbændum erfitt fyrir í september en ekkert tapaðist af korni vegna roks eða rigningar eins og stundum hefur gerst.


„Við erum að ná síðustu ökrunum alveg í toppformi,“ sagði Ólafur. Auk byggs hefur verið ræktað hveiti og repja á Þorvaldseyri. Sú uppskera var einnig með besta móti.


„Það er búið að ná hveitinu sem aldrei hefur verið jafn fallegt og nú,“ sagði Ólafur. Uppskeran var um 15 tonn af fjórum hekturum. Repjan var skorin upp síðast í ágúst og í byrjun september.


„Það var gríðarlega góður árangur í repjunni á þessu fyrsta ári. Hann var langt fram úr því sem við töldum. Við vorum að þreskja repju tíu dögum seinna en í Þýskalandi og erum að uppskera svipað magn á hektara og í Þýskalandi. Eftir að byrjað var að pressa olíu er hún að gefa jafn mikið og repja í Þýskalandi.


Það er allt í toppformi í þessari ræktun og mikil ánægja með sumarið sem hefur verið frábært, haustið og allan síðasta vetur sem skiluðu hveitinu og repjunni með miklum árangri. Hér er mikil ánægja með alla þessa ræktun. Það er ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði Ólafur.


Frost og stilla hafa verið dag eftir dag undir Eyjafjöllum undanarið. Hálmurinn hefur náðst skraufþurr og snjóhvítur. Hann er því úrvalshráefni fyrir svepparæktina á Flúðum, en þangað fer megnið af hálminum. Auk þess nota bæði hestamenn og kúabændur hálminn sem undirburð.


Ólafur sagði ekkert annað að gera en að brjóta nýja akra og auka akurræktina. „Það er ekkert annað en að efla innlenda framleiðslu sem mest og spara gjaldeyri. Gera meira af þessu. Við vonum að allt þetta korn geti nýst í fóður fyrir kúabændur og svínabændur og að fóðurstöðvarnar fari nú að versla við okkur fyrir alvöru. Nú skora ég á þær að koma og líta á okkur – betur en þær hafa gert!“


Kornskurður hefur gengið seint í haust í Skagafirði vegna óhagstæðs veðurfars. Búið er að þreskja um 400 hektara af rúmlega 500, að því er fram kemur á vefnum feykir.is.


Kornið í Skagafirði er ágætt en víða grænir akrar þar sem kornið er ekki nógu þurrt. Það tefur fyrir þreskingunni. Síðustu dagar hafa verið góðir og líklega um hundrað hektarar teknir frá því á föstudag.


back to top