Almennur bændafundur LK í Þingborg 24. okt. 2002
Gestir fundarins Þórólfur Sveinsson og Snorri Sigurðsson. Fundarstjóri Ólafur Einarsson Hurðabaki.
Þórólfur sagði í sínu erindi m.a. að skyldumerking nautgripa á næsta ári væri staðreynd. Hann sagði Ísland með einfaldasta stuðningsform mjólkurframleiðslu sem þekktist í Evrópu. Um 60 milljónir lítra af greiðslumarki mjólkur hafa skipt um eigendur á 10 ára tímabili. Ef breytt verður róttækt um stuðningskerfi þá taldi Þórólfur það valda miklum og óbætanlegum skaða fyrir kúabændur. Hann taldi þó ríkið, (núverandi ríkisstjórn) tilbúna í svipaðan samning, ef hann samrýmdist alþjóðasamningum.
Snorri Sigurðsson rakti í 9 liðum, tillögur að, “Stefnumótun fyrir nautgriparækt á Íslandi” sem nefnd skipuð sex bændum hefur skilað af sér.
UMRÆÐUR OG FYRIRSPURNIR
Gauti Gunnarsson á Læk spurði hvað ætti að gera í hinu nýja fjósi á Hvanneyri. Runólfur Sigursveinsson taldi of mikla bjartsýni í plaggi stefnumótunarnefndar miðað við stöðu nautaeldis í dag. Greinin væri í raun gjaldþrota . Kvaðst sammála því að byggja næsta búvörusamning í mjólk á núverandi kerfi, sem hefði reynst vel.
Páll Lýðsson spurði um hugmyndir varðandi stuðning við nautaeldi. Ef ríkið ætti að styðja greinina, þá yrði að setja kvóta.
Snorri svaraði Guðmundi Stefánssyni því, að ekki yrði leyfilegt að taka við ómerktum gripum í sláturhúsum eftir að skyldumerking tæki gildi. Hann sagði háleit markmið uppi varðandi nýtingu kennslufjóss, bæði hvað varðar nemendur og tilraunaþáttinn. Samningaviðræður við ríkið nú varðandi nautaeldi snérust um að rétta af þá slæmu stöðu sem er í augnablikinu. Ekki neitt ákveðið varðandi kvóta eða slíkt.
Jón Viðar í Dalbæ taldi þrjú tilraunafjós fyrir allt landið of mörg. Honum fannst lítið að gerast á þeim tveim sem fyrir eru. Etv. væri nær að selja Stóra Ármót og Möðruvelli. Byggja síðan stórt á Hvanneyri.
Guðmundur Lárusson taldi mjólkuriðnaðinn hafa lítið þróast á síðustu 12 árum. Hann hefði ásamt fræðslu og ráðgjafastarfsemi verið ósnertanlegur. Auka þyrfti hagkvæmni í landbúnaðarkerfinu og kynna búgreinina betur í samfélaginu.
Þorfinnur Þórarinsson minnti á “Kýr 2002” sem dæmi um velheppnaða kynningu. Hann sagði tilraunum á Stóra Ármóti verða hætt ef bændur samþykktu það. Margar merkar tilraunir væru þar í gangi, t.d. próteintilraun sem væri mjög viðamikil.
Ómar í Lambhaga undraðist að með nýrri frumureglugerð ætti enn að auka kröfur til bænda með tilheyrandi kostnaði. Fannst honum slæmt að ekkert hefði heyrst frá Bændasamtökum í umræðu um hátt matarverð á Íslandi.
Magnús í Birtingaholti sagði mjólkurstöðvum hafa fækkað og hagræðing verið í því formi. Hægt væri að gera enn betur og þess þyrfti. Skagfirðingar væru þessa dagana með hugmyndir um að sameinast Norðurmjólk, svo dæmi sé tekið. Áhyggjuefnið nú væri að árið 2004 félli iðnaðurinn ekki undir búvörulög, heldur samkeppnislög. Það gæti breytt ýmsu.
Jón Gíslason á Stóra Hálsi sagði verð á nautakjöti 1990 hafa verið kr. 420 kílóið.
Í dag væri það 310 til 350 kr. Það segði alla söguna um hve illa hefði verið haldið á spöðum. 60 til 80 milljónir myndu segja mikið í holdanautaeldi og væri ekki stór upphæð af þeim 4 milljörðum sem færu í beingreiðslur.
Fundarritari: Valdimar Guðjónsson.