Alþjónusta fyrir alla

Fyrr á þessu ári birti Póst- og fjarskiptastofnun samráðsskjal vegna útnefningar fjarskiptafyrirtækis með alþjónustuskyldur. Alþjónusta snýst um möguleika allra notenda til að hafa aðgang að tiltekinni lágmarksþjónustu eins og hún er skilgreind í lögum um fjarskipti, óháð því hvar þeir búa eða kringumstæðum að öðru leyti, t.d. fjárhagslegum.

Eftirfarandi þjónusta fellur nú undir alþjónustu samkvæmt fjarskiptalögum nr. 81/2003 og reglugerð um alþjónustu nr. 641/2000.


• Talsímaþjónusta
• Handvirk þjónusta
• Þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir
• Gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu
• Aðgangur að símaskrá
• Aðgangur að upplýsingaþjónustu um símanúmer
• Aðgangur að almenningssímum
• Neyðarsímsvörun og svörun neyðarsímtala


Síminn er nú skyldugur til að veita alla ofangreinda þjónustu að undanskilinni neyðarsímsvörun og svörun neyðarsímtala.


Núgildandi fyrirmæli um alþjónustu eru síðan 5. apríl 2005, þar sem Landssíminn hf. (nú Síminn hf.) var útnefndur sem alþjónustuveitandi.  Að stofni til var um sömu kvaðir að ræða og lagðar voru á með rekstrarleyfi fyrirtækisins þann 30. júní 1998. Þessi fyrirmæli renna út þann 31. desember 2007.  Fyrir þann tíma þarf að útnefna nýjan aðila á fjarskiptamarkaðinum hér á landi sem alþjónustuveitanda.


PFS vildi með áður nefndu samráðsskjali fá fram sjónarmið notenda, markaðsaðila og annarra aðila sem telja sig hafa hagsmuna að gæta þannig að hægt verði að taka upplýsta ákvörðun um hvernig þessum málum verður best háttað í framtíðinni hér á landi.


Bændasamtökin gerðu ákveðnar athugasemdir í sambandi við útnefningu fjarskiptafyrirtækis með alþjónustuskyldur þar sem m.a. var farið fram á að kannað yrði hvort stjórnvöld gætu hækkað alþjónustukröfur til gagnaflutningsþjónustu úr 128 Kb/s í kröfur sem telja verður að samræmist betur nútímakröfum til lágmarks gagnaflutnings í dag. Í því sambandi má sérstaklega benda á þann gríðarlega mismun sem íbúar dreifbýlis og þéttbýlis á Íslandi búa við í dag með annars vegar 128 Kb/s ISDN-tengingum sem hámarkshraða á gagnaflutningi og hins vegar ADSL-tengingum.


Bændasamtökin lýstu sig einnig alfarið mótfallin öllum hugmyndum um að setja þak á þann kostnað sem alþjónustuhafi skal bera varðandi nýja tengingu eða endurnýjun á eldri tengingum við almenna talsímanetið. Þessar hugmyndir fela í sér að notandi þjónustunnar myndi bera kostnað sem til félli við t.d. endurnýjun símalínu færi kostnaður umfram ákveðin mörk.


Bændasamtökin bentu einnig á í athugasemdum sínum til Póst- og fjarskiptastofnunar að þær áskriftarleiðir sem Síminn býður í dag mæti ekki þörfum notenda og stangist á við vilja stjórnvalda um að sama gjald skulu greitt fyrir alþjónustu alls staðar á landinu og kemur m.a. fram í 3.mgr. 20.gr. fjarskiptalaga.
Í athugasemdum Bændasamtaknna segir: „Þó segja megi að verð á ISDN þjónustu sé alls staðar það sama þá er hvergi minnst á ISDN í fjarskiptalögum né í reglum um alþjónustu. Samkvæmt áskriftarleið sem Síminn býður í dag ISDN notendum greiða þeir 62 sinnum hærra verð pr. bita gagnaflutnings en ADSL notandi í þéttbýli. Þá er rétt að halda til haga að íbúi í dreifbýli sem aðeins á kost á ISDN þjónustu alþjónustuveitanda (Símans) býr við 100 sinnum lélegra gagnaflutningssamband en venjulegur ADSL notandi. 
Það er þannig ljóst að þeir íbúar landsins sem hafa einungis aðgang að ISDN tengingum (um 40% íbúa allra lögbýla landsins) greiða umtalsvert hærra gjald að netinu þrátt fyrir að þessi þjónusta sé hluti af alþjónustu.
Bændasamtökin telja þannig mikilvægt að Póst- og fjarskiptastofnun tryggi með öllum ráðum að sama gjald sé greitt fyrir alþjónustu alls staðar á landinu eða að sett verði þak á gjald til notenda fyrir gagnaflutningsþjónustu. Núverandi fyrirkomulag stangast á við stefnu stjórnvalda (og Evrópusambandsins) um jafnt aðgengi að upplýsingasamfélaginu.“



 


back to top