Ályktun frá FKS um verðlagsmál mjólkur
Félag kúabænda á Suðurlandi gerir þá kröfu til Verðlagsnefndar búvöru að leiðrétting á lágmarksverði mjólkur gangi fram hið fyrsta. Síðasta breyting á verðlagningu mjólkur til bænda varð þann 1.júlí 2011 eða fyrir tæpum 10 mánuðum.
Frá þeim tíma hafa mjólkurframleiðendur burðast með aðfangahækkanir á rekstrarvörum og stórhækkanir á öllum flutningum. Það þyngir búrekstrinum verulega að bera hækkanir í marga mánuði á vörum og þjónustu og fá enga leiðréttingu á mjólkurverði allan þennan tíma. Nefna má að launavísitala hefur hækkað frá júní 2011 til mars 2012 um 6,6%.
Félagið leggur áherslu á að leiðréttingar á lágmarksverði mjólkur komi örar fram eftir því sem verðlagsgrundvöllur kúabús mælir hverju sinni.
Þá skorar félagið á Verðlagsnefnd búvöru að taka til endurskoðunar verðlagsgrundvöll kúabús svo hann endurspegli nákvæmari tölur úr rekstri kúabúa.
Félag kúabænda á Suðurlandi