Andvíg breytingu jarðalaga
Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi telur það ámælisvert að landbúnaðarráðherra skipi vinnuhóp um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga án aðildar samtakanna.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í liðinni viku vinnuhóp um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar er tiltekið að ríkisstjórnin muni standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.
Í nýskipuðum vinnuhópi eru Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, þingmenn VG. Frá Bændasamtökum Íslands eru í hópnum Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum, Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri og Erna Bjarnadóttir sviðsstjóri. Með vinnuhópnum munu starfa Sigurður Þráinsson skrifstofustjóri og Arnór Snæbjörnsson lögfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Enginn fulltrúi hagsmunsamtaka landeigenda var kallaður til starfans.
Landssamtök landeigenda segja að það hljóti að skapa tortryggni um markmið boðaðrar endurskoðunar laga að hagmunasamtök landeigenda séu þannig sniðgengin þegar skipaður er vinnuhópur vegna málsins og ekkert við þau talað um hvað vaki nákvæmlega fyrir stjórnvöldum.
Samtökin sjá enga ástæðu til að breyta gildandi jarða- og ábúðarlögum og vilja að viðskiptafrelsi ríki áfram á markaði fyrir bújarðir líkt og með fasteignir yfirleitt. Samtökin vara eindregið við að hömlur verði settar á viðskipti með bújarðir sem rýrt gætu verðgildi þeirra. Landeigendur segja að slíkt yrði afturhvarf til fortíðar.