Ástand búpenings á gossvæðinu harla gott
Nú þegar rofað hefur til á áhrifasvæði eldgossins austur í Skaftárhreppi hafa menn getað hugað betur að búpeningi sínum. Að sögn Gunnars Þorkelssonar, héraðsdýralæknis á Kirkjubæjarklaustri, er ástandið á búpeningi með ágætum. Það var helst sauðfé sem varð fyrir barðinu á gosösku en nautgripir sluppu betur. Alls drápust níu kindur, sjö hröktust ofan í skurði (þar af tvö lömb) en ekki er ljóst hvernig tvær drápust.
„Ástandið á búfénaði er gott að öðru leyti en því að það er mjög slæmt í augum. Það er brýnt að reyna að hjálpa fénu með því að skola augun strax og ná sandinum og öskunni úr augunum,“ segir Gunnar að því er fram kemur fréttavef RÚV.
„Nú er farið að rofa til og þá er um að gera að reyna að koma fénu úr húsi. Hafa það í gerði eða á túni þar sem að fólk hefur yfirsýn yfir það, og aðgang að fóðri og rennandi vatni, „ segir Gunnar. Þó þær fregnir berist að gosið sé búið þá sé ekki hægt að treysta náttúrunni og ekki sé hægt að vita hvað gerist í framhaldinu.