Athugun á áti gæsa og álfta á túnum.
Mikil umræða hefur verið um ágang gæsa og álfta í ræktarlönd bænda undanfarin ár og virðist sem að ágangur aukist mikið ár frá ári. Bændur eru margir orðnir langþreyttir á þessum ófénaði og ekki síst á aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart vandanum. Ljóst er að tjónið er verulegt og ekki bara á haustin þegar álftin og gæsin herjar á kornakra. Vor og sumarbeit fugla á túnum er veruleg og oft eru þeir búnir að hreinsa nýgræðing af túnum þegar beita á lambfé á túnin. Það hefur það í för með sér að gefa þarf fénu mun lengur fram eftir vori.
Mikill misskilningur hefur verið uppi varðandi það að bændur vilji fá einhverjar bætur fyrir tjónið. Bændur vilja fá lausn á vandanum og hafa margir spurt sig hvort ekki sé tímabært að leyfa aftur vorveiðar á gæs og jafnvel grisjun á álft þar sem engin fagleg rök liggja fyrir um friðun álftarinnar.
Síðastliðið vor, dagana 23. og 24. apríl stóð Búnaðarsamband Suðurlands í samvinnu við bændur í Austur – og Vestur- Skaftafellssýslum, fyrir athugunum á því hve mikið gras á túnum fuglinn var að éta. Í þeim athugunum voru settir út tilraunareitir á 15 stöðum frá Vík í Lóni að Pétursey í Mýrdal.
Tilraunareitirnir voru settir í nýleg tún eða tún í góðri rækt og voru ekki beittir að vori. Reitirnir voru þannig gerðir að reknir voru niður 4 hælar ( 1 m á hæð) sem mynduðu 1,5 m2 ferhyrning. Síðan var vafið bindigarn um hælana þannig að að fuglinn kæmist ekki inn í reitinn. Síðan var uppskerumælt úr reitunum dagana 5. – 7. júní.
Uppskerumælingin var framkvæmd þannig að mældur var út 1 m2 úr hverjum reit og grasið slegið. Síðan voru teknar 3 – 4 mælingar utan tilraunareita, þ.e 1 m2 hver reitur og mismunur innan og utan tilraunareita fundinn út með því að vigta uppskeruna.
Svörun kom úr 8 tilraunareitum af 15 og var munurinn frá 59 gr. – 577 gr. innan og utan reita og verður gerð grein fyrir þrem tilraunum hér.
Tilraun 5. Steinasandur í Suðursveit, þar var mikill ágangur af gæs og þá einkum heiðargæs.
Reiturinn var settur út 23. apríl og uppskorinn 7. júní. Mismunurinn var 293 gr. eða 2930 kg/ha. Félagsræktin er alls um 1.070 ha og er átið því um 3.135 tonn alls.
Tilraun 12. Þykkvibær 1 í Landbroti. Þar var einkum ágangur af álft og taldi bóndinn að um 50 – 60 fugla væri að ræða. Mismunur utan og innan reits var 535 gr. eða 5.350 kg/ha
Túnið er 5,1 ha og heildarát því 27,1 tonn alls.
Tilraun 13. Vík í Lóni, ágangur bæði af álft og gæs, margar fuglahræður og daglega rekið upp.
Mismunur utan og innan reits var 577 gr. eða 5,77 t/ha. Túnið er 6,4 ha og átið því 36,9 tonn alls.
Þetta er ekki ofreiknað át því að eftir á að hyggja hefðu tilraunirnar átt að fara út um miðjan mars þar sem mikið af fugli var komið um 20. mars. Ekki var tekið úr öllum tilraunum því lítill munur sást þar sem fuglinn hafði ekki komið aftur og á öðrum stöðum hafði fé komist inn á túnin og því voru niðurstöður þar ómarktækar.
Þessar athuganir hafa leit það af sér að áhugi er á því að fleiri fagaðilar komi að nákvæmari tilraunum næsta vor og á fleiri stöðum.
Grétar Már Þorkelsson
Búnaðarsamband Suðurlands