Atvinnustyrkir til kvenna

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, veitti í gær 50 milljónir króna í atvinnustyrki til kvenna við athöfn sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu. Verkefnin að þessu sinni voru afar fjölbreytt, svo sem þjónusta af ýmsu tagi, framleiðsla, hönnun og félagsleg verkefni. Tíu umsækjendur fengu hæsta mögulegan styrk, 2 milljónir króna fyrir hvert verkefni. Að jafnaði hafa verið til ráðstöfunar um 15–20 milljónir króna. Styrkfjárhæðin var hins vegar hækkuð verulega á þessu ári og voru samtals 50 milljónir króna til úthlutunar. Tæplega 250 umsóknir bárust sjóðnum en styrkir voru veittir til 56 verkefna. Tæplega helmingur styrkjanna rennur til verkefna á höfuðborgarsvæðinu en rúmur helmingur til verkefna vítt og breitt um landið.

Sérstakir styrkir til atvinnusköpunar kvenna hafa verið veittir frá árinu 1991. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, efndi til verkefnisins í því skyni að ýta undir atvinnurekstur kvenna með því að bæta aðgang þeirra að fjármagni, en atvinnuleysi var töluvert á þessum tíma. Mikill fjöldi umsókna hefur borist um styrki frá því að verkefnið hóf göngu sína og hafa styrkirnir oft skipt sköpum fyrir þær konur sem fengið hafa og eflt þær til dáða við að vinna að hugmyndum sínum og verkefnum. Alls hafa um 400 verkefni hlotið styrki frá upphafi.

Að þessu sinni hlutu tvær konur hámarksstyrki úr sjóðnum sem tengjast landbúnaðarverkefnum með beinum hætti. Annars vegar var það Jóhanna B. Þorvaldsdóttir á Háafelli í Hálsasveit fyrir verkefni sitt um Geitfjársetur og hins vegar Jóhanna Sveinsdóttir á Þórustöðum í Ölfusi fyrir verkefni sitt um lifandi búháttasafn. Stutt útskýring á þessum verkefnum má sjá hér að neðan:

Geitfjársetur – Jóhanna B. Þorvaldsdóttir
Geitfjársetrið verður miðstöð geitfjárræktunar í landinu þar sem stunduð verður markviss geitfjárræktun, unnar verðar vörur úr afurðum geita og þær seldar á staðnum og í völdum verslunum. Gestir geta komið í ferðamannageitfjárhús þar sem hægt er að skoða allt ferlið, mjaltir og ostagerð svo eitthvað sé nefnt. Þá verður fróðleik um geitur komið á framfæri auk þess sem hægt verður að kaupa afurði á staðnum. Verkefnið snýst enn fremur um að vernda íslenska geitfjárstofninn sem telur einungis 500 dýr.

Búháttasafn – hönnun og skipulagning – Jóhanna Sveinsdóttir
Viðskiptahugmyndin snýst um að stofna búháttasafn þar sem sýndir verða búhættir liðinnar aldar. Aðalmarkhópur safnsins eru börn og unglingar annars vegar og eldri borgarar hins vegar. Á safninu verður meðal annars handverk af ýmsu tagi og sýndar aðferðir við mjólkurvinnslu, sláturgerð, ullarvinnslu og hannyrðir sem verður hluti af dagskrá fyrir gesti. Þegar hafa verið lögð drög að samvinnu eldri borgara, grunnskóla og búháttasafnsins en börn og unglingar munu fá að upplifa og taka þátt í heimilishaldi og búskap þessa tíma. Enn fremur er stefnt að þróun kynningarefnis sem lýtur að heimilishaldi á tímabilinu 1925–1945. Markmið verkefnisins er að skapa vinnustað í Ölfusi með 2–4 ársverkum við rekstur lifandi búháttasafns ásamt verndun gamalla muna og verklags en fræðsluþátturinn verður einnig stór.

Tíu styrkhæstu verkefnin

Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur við styrkveitinguna í Þjóðmenningarhúsinu


back to top