Auðhumla lækkar verð fyrir mjólk umfram greiðslumark

Stjórn Auðhumlu hefur ákveðið að verð á umframmjólk frá 1. júní 2012 verði kr. 37,50 fyrir fyrstu 2% af umfram greiðslumark og kr. 32,50 fyrir það sem umfram það er. Þetta er lækkun um kr. 4,50 frá því verði sem gilti frá 1. mars s.l. og hefur því verð á umframmjólk lækkað um kr. 12,50 eða 25% frá því verði sem gilti á tímabilinu 1. sept. 2011 til 29. feb. 2012. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að mestöll framleiðsla umframmjólkur fer fram á síðustu mánuðum verðlagsársins.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá Auðhumlu markast verð á umframmjólk helst af heimsmarkaðsverði á undanrennudufti og smjöri sem hefur fallið mikið að undanförnu.
Það er ljóst að þessi ákvörðun stjórnar Auðhumlu gerir þann kost að framleiða mjólk umfram greiðslumark ekki fýsilegan. Þeir bændur sem sjá fram á framleiðslu umframmjólkur á árinu verða annað hvort að reikna með þessu verði fyrir þá framleiðslu eða draga úr framleiðslu þar sem ekki er mögulegt að bæta við sig greiðslumarki á þessu verðlagsári. Næsti kvótamarkaður verður 1. nóvember n.k. með gildistöku aðilaskipta þann 1. janúar 2013.


back to top