Aukið eftirlit með dýravernd á landsmóti hestamanna
Dýraheilbrigðissvið Matvælastofnunar, Landssamband hestamannafélaga og Landsmót ehf. höfðu samstarf um aukið eftirlit með dýravernd á nýafstöðnu landsmóti. Allir keppnishestar í fullorðinsflokkum voru heilbrigðisskoðaðir fyrir keppni og var þeirri skoðun fylgt eftir fyrir milliriðla og úrslit. Skoðunin, sem fengið hefur vinnuheitið “Klár í keppni”, fékk góðar viðtökur hjá knöpum og almennt var gerður góður rómur að þessu framtaki.
Heilsufar keppnishestanna var alla jafna mjög gott en aðeins þrír hestar stóðust ekki kröfur um heilbrigði og var vísað frá keppni. Nokkrir keppendur fengu ráðleggingar um að breyta beislisbúnaði og dæmi voru um að breyta þyrfti járningu fyrir áframhaldandi keppni. Áberandi minna var um bólgna fætur á lokadögum mótsins en raunin hefur verið á undanförnum mótum.
Engin alvarleg slys urðu á hestum á mótinu sem var öllum sem að því stóðu til mikils sóma.
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, annaðist eftirlitið og veitir nánari upplýsingar í síma 893 0824.