Bændatorgið komið í notkun
Bændatorg, upplýsingagátt fyrir bændur og ráðunauta, er ný vefþjónusta frá BÍ sem er komin í notkun. Í hægra horninu uppi á bondi.is er hnappur sem heitir „Bændatorg“. Þegar smellt er á hann birtist innskráningargluggi inn á Bændatorgið þar sem notendur geta náð í margvíslegar upplýsingar úr sínum búrekstri.
Með Bændatorginu þurfa bændur eingöngu að nota eitt lykilorð í stað þess að skrá sig inn í mörg kerfi eins og verið hefur. Á vefnum geta bændur og ráðunautar skipst á upplýsingum en stefnt er að því að samskipti þeirra á milli fari í ríkari mæli í gegnum Bændatorgið þegar fram líða stundir. Öruggur aðgangur er tryggður með rafrænu auðkenni en meðal upplýsinga sem bændur geta fengið á Bændatorginu eru yfirlit úr skýrsluhaldskerfum, upplýsingar um beingreiðslur og grunnupplýsingar um bú og félagsaðild.