Bændur á hamfarasvæðum njóti beingreiðslna lengur án framleiðslu

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp um breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu samþykkti Alþingi lög nr. 46/2010, um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum), til að bregðast við afleiðingum eldgoss í Eyjafjallajökli á síðasta ári. Með lögunum var bændum sem áttu við erfiðleika að etja vegna eldgossins veittur ákveðinn stuðningur, en vegna öskufalls, og að nokkru leyti jökulhlaupa, höfðu bændur sums staðar undir Eyjafjöllum til athugunar að láta af búskap eða fækka bústofni, a.m.k. um tíma.
Samkvæmt lögunum geta kúabændur á hamfarasvæðunum notið stuðnings af beingreiðslum þótt framleiðsla þeirra raskist eða liggi niðri um tíma og hafa a.m.k. tveir bændur nýtt sér þennan kost sl. ár. Einnig er ráðherra veitt heimild til að víkja frá ásetningshlutfalli sauðfjár á lögbýlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, jafnframt því sem sauðfjárframleiðendur geta notið óbreyttra greiðslna á grundvelli gæðastýringar þrátt fyrir að framleiðsla minnki eða falli niður um tíma á meðan framleiðsluskilyrði á býlum þeirra eru úr skorðum.
Frumvarp þetta er lagt fram þar sem í ljós hefur komið að þau tímamörk sem um getur í lögum nr. 46/2010 eru of stutt. Það getur verið skynsamlegt í einstökum tilfellum fyrir bændur að fresta endurræktun ónýtra túna og öðrum endurbótum á jörðunum enn um sinn þar sem landið er ekki tilbúið til ræktunar og búsetuskilyrði að öðru leyti slæm. Því þykir rétt að bjóða þann kost lengur að bændur sem svo stendur á fyrir geti haldið beingreiðslum án þess að framleiða og því er lagt til að tímamörkin sem sett voru í áðurnefndum lögum verði rýmkuð. Miðað er við gildistíma núverandi búvörusamnings um mjólkurframleiðslu, þ.e. til ársloka 2014.
Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að bætt verði við lögin heimild til að þessi ákvæði nái einnig til framleiðenda á lögbýlum þar sem afurðasala hefur verið bönnuð „af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á“, eins og segir í frumvarpinu. Þetta gerir mögulegt að bregðast við þeim sérstöku aðstæðum sem uppi eru í Skutulsfirði vegna díoxínmengunar og/eða í öðrum sambærilegum tilvikum sem upp kunna að koma.


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum


back to top